151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[16:29]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hérna frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nefndarálit meiri hlutans í allsherjar- og menntamálanefnd. Þetta mál er eitt og sér jákvætt í því alvarlega máli sem mansal er og í sjálfu sér ekkert nema gott um það að segja þótt skrefið sé í raun stutt miðað við þá staðreynd að mansal hefur aukist hér á landi og aðgerða er þörf til að sporna við því. Það er skoðun mín og okkar í mínum flokki að taka þurfi heildstæðar á þessu máli svo vandanum sé mætt með reisn og með það að leiðarljósi að það sé gagn að því strax.

Þetta er vandamál sem á sér ekki mjög langa sögu hérlendis, en eins og ég segi hefur þetta farið mjög mikið vaxandi og þarfnast brýnnar viðreisnar við. Mansal getur verið vinnumansal og tengst vændi og svo því, eins og það er orðað þarna, að hagnýta vinnukrafta eða þekkingu í annars þágu. Í þessu lagaákvæði er verið að mæta málum brotaþola og er það ágætismál, en svo ég tali sjómannamál þá er þetta eins og þegar ekki er farið alveg í sjógallann áður en haldið er í róður og bara verið í stígvélunum. Þá á maður á hættu að blotna samt sem áður. Þetta var kannski ekki mjög góð myndlíking en við erum ekki nógu vel í stakk búin, getum við sagt, til að mæta slíkum vandamálum með þessu frumvarpi.

Það er svolítið athyglisvert að sjá líka hvað lögreglan er í raun og veru vanbúin til að takast á við þetta vandamál, eins og á svo mörgum öðrum sviðum þeirrar ábyrgðar sem lögreglan ber, og er það að stærstum hluta til vegna manneklu. Mig langar í því sambandi að grípa ofan í skýrslu greiningardeildar lögreglustjóra frá því 2019 um mansalsmál og innflutning á fólki, með leyfi forseta:

„Farandbrotahópar frá Austur-Evrópu hafa ítrekað komið til landsins á síðustu árum í þeim tilgangi einum að fremja skipulögð innbrot og þjófnaði. Lögregla hefur grunsemdir um að hópar þessir njóti, í einhverjum tilvikum hið minnsta, leiðsagnar aðstoðarmanna búsettra hér á landi.

Reglulega ganga yfir hrinur innbrota og þjófnaða, svo sem úr verslunum, vinnuskúrum, nýbyggingum og sumarbústöðum. Á síðustu misserum hafa erlendir brotahópar ítrekað stolið miklum verðmætum úr skartgripa- og fataverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglan hefur einnig haft til rannsóknar mál þar sem koma við sögu einstaklingar frá öruggum ríkjum, samkvæmt skilgreiningu Útlendingastofnunar, sem óskað hafa alþjóðlegrar verndar hér á landi.

Afbrotabylgjurnar lægir þegar lögregla nær að stöðva starfsemina eða viðkomandi afbrotahópar fara af landi brott. Sumarið 2018 fór hópur erlendra innbrotsþjófa um landið og þekkt eru um 20 tilvik þess að þeir hafi stolið verðmætum í fámennum byggðarlögum. Líkur eru taldar á að um erlenda skipulagða brotastarfsemi sé að ræða og beinast grunsemdir að hópum frá Austur-Evrópu. Upplýsingar úr málaskrá lögreglu styðja þessa ályktun.

Skipulagi þessara farandbrotahópa má líkja við „vinnuhópa“ sem hafa með sér vaktaskipti, einn hópur leysir annan af hólmi, e.t.v. með einhverri skörun á dvöl.

Skipulögð misnotkun erlendra afbrotahópa á opinberri þjónustu og kerfum: Þekkt er á Norðurlöndum og víðar í Evrópu að glæpasamtök misnoti opinbera þjónustu og kerfi og að sú háttsemi sé liður í skipulagðri starfsemi þeirra. Þetta á við um bótakerfi, vinnumiðlun, móttökukerfi vegna flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd og margvíslega félagslega aðstoð sem þeim stendur til boða. Sá skaði sem þetta athæfi veldur er margvíslegur; hann er augljóslega fjárhagslegur en jafnframt fallinn til að draga úr skilvirkni opinberrar þjónustu við þá sem raunverulega þurfa á aðstoð að halda og leitað hafa alþjóðlegrar verndar á réttmætum forsendum. Slík misnotkun opinberrar þjónustu af hálfu erlendra brotahópa getur skaðað innflytjendur og réttmæta umsækjendur um alþjóðlega vernd verði misnotkunin nýtt í áróðursskyni gegn þessum hópum.“

Þetta er úr skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra árið 2019 og sýnir hversu alvarleg staðan er, þetta er orðin staðreynd. Þarna kemur fram að þetta komi í hrinum, við getum talað um árásir.

Af því að ég er að minnast á lögregluna og að hún þurfi að vera í stakk búin til að geta brugðist við þeirri stöðu sem uppi er þá kemur mér í hug það sem við erum að ganga í gegnum núna og er á margan hátt réttlætismál en hefur líka kallað fram vandamál, það er stytting vinnuvikunnar. Það eru ekki allir hópar í samfélaginu yfir sig ánægðir eða hamingjusamir með þá ákvörðun og hún kemur mjög misjafnlega niður á starfsgreinum, þar á meðal lögreglunni. Langar mig til að lesa fréttastúf frá því fyrir nokkrum dögum þar sem stjórn Landssambands lögreglumanna lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu löggæslu á Íslandi:

„Stjórn Landssambands lögreglumanna lýsir yfir miklum áhyggjum af þeirri stöðu sem lögreglan stendur frammi fyrir. Allt of fáir lögreglumenn eru við störf og hlutfall lærðra lögreglumanna er hættulega lágt. Ljóst er að eftir að stytting vinnuvikunnar tók gildi þann 1. maí síðastliðinn hefur staða löggæslu á Íslandi versnað til muna.

Þrátt fyrir loforð og samninga um annað hafa lögregluembætti landsins ekki fengið fjármagn frá ríkisvaldinu til að ráða viðbótarmannskap. Það hefur í för með sér að færri lögreglumenn eru á vakt hverju sinni. Þetta ástand dregur verulega úr öryggi lögreglumanna og almennings.

Þegar samið var um styttri vinnuviku fyrir vaktavinnufólk hlýtur ríkisvaldinu að hafa verið ljóst að ráða þyrfti fleiri lögreglumenn til starfa og setja aukið fé í menntun lögreglumanna.

Lögreglumenn krefjast þess að ráðamenn standi við gerða samninga og veiti það fjármagn sem þarf til þess að manna lögregluna með viðunandi hætti.“

Þarna er fast að orði kveðið, enda málið alvarlegt. Það er nefnilega þannig að þegar farið er í einhverjar aðgerðir sem í þessu tilfelli er talað um sem réttlætismál — og ég get alveg tekið undir það að því leyti að hugsunin er sú að fólk eigi meiri tíma með sjálfu sér og fjölskyldunni og skili betri árangri með því að vinna styttri vinnudag. Það á sjálfsagt við að mörgu leyti um ýmsar starfsstéttir en þarna er farið í þessa aðgerð og það er skortur á fjármagni. Þetta er allt of algengt hjá okkur hér á Fróni, hjá okkur stjórnmálamönnunum. Það koma góðar hugmyndir um aðgerðir vítt og breitt um landið, til sjávar og sveita, og þeim er jafnvel hrint í framkvæmd og þær settar í lög en þá vantar fjármagnið til þess að gagnið af framkvæmdinni skili sér. Þetta er sorglegt vegna þess að tilgangurinn helgar meðalið.

Ég er líka með dæmi úr heilbrigðiskerfinu sem kemur þessu frumvarpi kannski ekki beint við — eða jú, það gerir það. Það þurfa allir heilbrigðisþjónustu. Hér stendur:

„Það þarf 2 milljarða og 200 starfsmenn. Landspítalinn metur fjárþörf vegna styttingar vinnuviku í kringum 2 milljarða króna. Ráða þarf rúmlega 200 starfsmenn í viðbót hið minnsta.“

Þarna er verið að tala við aðstoðarmann forstjóra á Landspítala, Önnu Sigrúnu Baldursdóttur. Hún segir að það sé gott samtal í gangi milli stjórnenda og fagráðuneytis spítalans og fjármálaráðuneytisins en það vanti að standa við það.

Hérna er önnur frétt um lækni við bráðamóttöku Landspítalans sem er að hætta störfum eftir 40 ár vegna þess að hann hefur gefist upp út af álaginu, þótt hann sé ekki kominn á aldur. Eftirfarandi kemur fram í viðtali við lækninn í Morgunblaðinu:

„Hann rifjar upp ítrekaðar yfirlýsingar yfirvalda um mikilvægi þess að vernda og styrkja heilbrigðiskerfið í heimsfaraldrinum en segir þær nú skjóta skökku við þar sem ástandið hafi aldrei verið verra en það er akkúrat núna. „Við sérfræðingarnir höfum verið að benda á að það ríkir neyðarástand á bráðamóttökunni í dag. Við erum að sigla inn í sumarið í verri stöðu en nokkru sinni fyrr.““ — Segir þessi reyndi læknir.

Ég vildi bara koma því að hvaða áhrif stytting vinnuvikunnar hefur á hin ýmsu störf. Ég get bætt því við að ég þekki marga iðnaðarmenn og sjálfur var ég iðnaðarmaður hérna í gamla daga og þeir kvarta flestir yfir þessu líka. Þetta kemur niður á þeim sem kaupir vinnuna vegna þess að verið er að reyna að stytta matartíma, kaffitíma og annað slíkt og iðnaðarmenn eru í útseldri vinnu.

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að minnast á það sem ég talaði um í upphafi ræðunnar, að þetta er jákvætt skref en allt of lítið. Mig langar líka til að bæta því við, af því að okkur hefur orðið tíðrætt um útlendingamál, um þá sem koma hingað til að vinna, og síðan kvótaflóttamenn, sem koma eftir sérstökum leiðum, og svo hælisleitendur, að á dagskrá í dag er mál sem við höfum rætt mikið og snýr að því að jafna þjónustu hælisleitenda og kvótaflóttamanna. Okkur í mínum flokki þykja það vera skilaboð um að verið sé að opna meira fyrir kranann inn í landið, eins og við höfum orðað það, fyrir þá sem eru að leita hælis. Við horfum ekki til reynslu annarra þjóða, til afleiðinganna sem þetta getur haft. Ef við horfum til Norðurlandanna, Danmerkur og Svíþjóðar aðallega, og Noregs, þá hafa Danir gefið það út að þeir séu að taka 180° beygju, U-beygju, í þessum málum og vilja nýta fjármagnið til þess að hjálpa fólki á þeim stað þar sem það er statt. En við gerum það ekki. Við horfum ekki á reynslu nágrannaþjóða okkar í þessu sambandi heldur förum þá leið sem Danir eru að snúa frá og tökum í raun miklu dýpra í árinni en þeir gerðu, og það undir merkjum góðmennsku.

Ég sagði í ræðu um daginn að góðmennska gæti breyst í andstæðu sína þegar ekki væri á bak við hana skynsamleg ákvörðun. Það þarf að hugsa þau mál til enda. Við getum ekki bara spreyjað út einhverjum fallegum orðum ef ekki er hægt að standa við þau. Mér finnst þetta mjög alvarlegt í því ljósi að við viljum öll hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi en við þurfum þá að vera í stakk búin til að standa við það. Það er ekki hægt að vera bara góður í orði en ekki á borði. Þess vegna vonast ég til að sú umræða sem við í mínum flokki höfum haldið uppi í sambandi við útlendingamálin fái þann grundvöll að fólk geti farið að tala saman og horfa í augu en sé ekki í upphrópunum. Pólitíkin má ekki fara að snúast um að selja einhverjar hugmyndir um það að vera „góðastur“, eins og ég orðaði það hérna um daginn, og fara í uppboð á því hver sé „góðastur“. Við þurfum að geta rætt þetta á skynsamlegan hátt og líta til reynslu annarra þjóða sem hafa farið í gegnum þessi tímabil eða eru búnar að reyna þetta áður. Ég vitnaði til fyrri ára þegar ég var ungur og menn fóru út til Danmerkur og skráðu sig á atvinnuleysisskrá og voru svo bara að djamma og djúsa, voðalega gaman, en skiluðu aldrei neinu til samfélagsins. Danir höfðu ekkert efni á því mjög lengi, bara í einhvern tíma.

Svo er þetta líka þannig að ef við ætlum að vera á skjön við aðrar þjóðir þá getur málið orðið þannig að við fáum ekki rönd við reist. En þetta er allt sagt með það í huga að við þurfum að hjálpa fólki sem er hjálparþurfi en þannig að við getum staðið við það.