151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[17:09]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, á 227. gr. a þeirra laga, og fjallar breytingin um mansal. Frumvarpið var samið fyrir dómsmálaráðuneytið af Svölu Ísfeld Ólafsdóttur, sérfræðingi í refsirétti, og er það gert í samræmi við áherslur stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu. Þetta hefur verið einhvern tíma í vinnslu og mun ég kannski aðeins fjalla um það, varðandi tímasetningar og slíkt í framkvæmd þessara mála. Þetta er liður í víðtækum aðgerðum stjórnvalda gegn mansali til að uppfylla alþjóðlega samninga og einnig liður í baráttunni við uppgang skipulagðra glæpahópa.

Þetta mál á rætur sínar að rekja rúm 20 ár aftur í tímann þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 2000 samning gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi sem er kallaður Palermó-samningurinn. Sama dag samþykkti þingið sérstaka bókun við samninginn til að koma í veg fyrir, uppræta og refsa fyrir mansal, einkum sem beindist að konum og börnum, svokallaða Palermó-bókun. Þar eru settar fram grundvallarráðstafanir til forvarna í baráttunni við alþjóðlega skipulagða glæpastarfsemi og útfærslur koma fram í bókuninni. Þetta gerist árið 2000. Ísland fullgildir þennan samning tíu árum seinna og bókunina sama ár, vorið 2010. Mig langaði aðeins að vekja athygli á þessu. Önnur Norðurlönd gerðu það miklu fyrr. Danmörk fullgilti samninginn og bókunina árið 2003, Finnland 2004 og 2006, Noregur fullgilti hvort tveggja 2003 og Svíþjóð fullgilti bókunina og samninginn 2004. Þau eru sem sagt fjórum til sjö árum á undan okkur.

Ég vil aðeins benda á það hvað við erum svifasein og ætla ég kannski að fjalla um það töluvert í þessari ræðu í tengslum við baráttuna gegn uppgangi skipulagðra glæpahópa og glæpastarfsemi sem er auðvitað að langmestu leyti alþjóðleg, þ.e. þátttaka í þessum glæpahópum og starfsemi þeirra er ekki bundin við eitt land. Jafnvel er það undantekning að hóparnir séu skipaðir innlendum aðilum. Yfirleitt eru þeir skipaðir meðlimum víða að og blandaðir og því erfitt við þá að eiga.

Þekking og geta til að fela og hylja slóð sína er töluvert mikil vegna þess að þessir hópar hafa starfað víða og hafa reynslu og þekkingu, ef það má orða það svo að glæpahópar hafi þekkingu. Það er sannarlega svo, herra forseti, að meðlimir í þessum hópum, margir hverjir, hafa töluverða þekkingu á sínu sviði, þ.e. til að fremja glæpi, jafnvel flókna glæpi, sem erfitt er að upplýsa og eru auðvitað til þess fallnir að veita gerendum, þeim sem skipuleggja og fremja þá, umtalsverðan ágóða á sem skemmstum tíma og með sem minnstri áhættu. Þetta eru sérfræðingar á sínu sviði, margir hverjir, og hafa á sínum snærum alls kyns aðra sökunauta til að gera það sem þeir ætla sér.

Ég er búinn að finna að því hvað við vorum sein að fullgilda Palermó-samninginn og Palermó-bókunina miðað við hin Norðurlöndin. Við erum mjög sein, erum langt á eftir hinum Norðurlöndunum. Það er rétt og vel að við erum löngu búin að gera það. En nú er þetta að birtast hér. Við erum alltaf langt á eftir og við erum einnig, herra forseti, langt á eftir í að sýna viðbrögð við ábendingum greiningardeildar ríkislögreglustjóra, eins og ég hef margoft bent á í þessum ræðustól. Við erum allt of sein, erum alltaf langt á eftir og stundum er skaðinn jafnvel skeður eins og í þessu tilviki. Uppgangur skipulagðra glæpahópa á Íslandi er orðinn svo yfirþyrmandi, herra forseti, og ég fullyrði það að það þarf virkilegt átak til þess að ná tökum á vandanum í okkar samfélagi. Þá duga engin vettlingatök. Þau verkfæri og aðgerðir sem við þurfum að grípa til verða að vera afgerandi og skýr.

Eftir hverju kallar lögreglan? Hún kallar eftir ýmsu og þar má kannski helst nefna að hún vill fyrst og fremst fjölga þeim lögreglumönnum sem sinna þessum störfum. Þar er tvennt til, herra forseti. Það er ekki bara að fjölga lögreglumönnum, það er að fjölga þeim mönnum sem hafa þekkingu og getu til að rannsaka þessa glæpi. Hvað er að gerast þar? Hæstv. dómsmálaráðherra vill sannfæra okkur um að þar sé eitthvað að gerast. Það þarf auðvitað að spýta verulega í lófana til að við náum í skottið á okkur í þessum efnum. En svo þarf einnig að fjölga hinum almennu lögreglumönnum sem sinna frumkvæðisvinnu, þ.e. löggæslu, hefðbundinni löggæslu, þar sem lögreglumenn geta sinnt því sem þeir verða varir við eða áskynja í starfi sínu. Í dag er það því miður ekki þannig. Þeir eru uppteknir alla sína vakt við að sinna útköllum og afgreiða þau mál sem á borði þeirra eru. Það veldur því að þessum málaflokki er ekki sinnt sem skyldi.

Í þágu þessarar baráttu og til að brýna hæstv. dómsmálaráðherra lagði Miðflokkurinn fyrr í vetur fram skýrslubeiðni til hæstv. ráðherra um hvað hún hefði tekið til bragðs og hvað hún hefði hugsað sér að taka til bragðs til að vinna gegn uppgangi þessara hópa og til að vinna í samræmi við ábendingar sem koma fram í öllum þessum skýrslum sem ég er orðinn hundleiður á að vitna í. Það eru fjölmargar skýrslur sem hafa komið út núna í fjölmörg ár, allt frá því að deildin var stofnuð 2007. Það eru 14 ár síðan og þetta hefur verið stanslaust ábendingarefni í þeim. En viðbrögðin hafa verið afskaplega róleg og afskaplega sein eins og þetta mál ber með sér og mansalsmálin yfir höfuð. Ég er kannski ekki að tala um þetta frumvarp beint en frekar hvað við erum alltaf lengi að taka við okkur, eins og ég benti hér á áðan, langt á eftir hinum Norðurlöndunum að bregðast við þeim samningi sem gerður var árið 2000. Tíu árum seinna vorum við að fullgilda hann á meðan hin Norðurlöndin gerðu það mjög snemma í ferlinu. Við erum alltaf á eftir.

Mansal er alvarlegt brot sem er erfitt að upplýsa og erfitt að koma auga á vegna þess að brotaþolinn er brotamanninum mjög háður. Ef um erlenda aðila er að ræða eins og oft er þá er fólk flutt hingað til lands og látið vinna í vændi eða venjulega vinnu, einhvers konar þrælavinnu á lágum launum. Það er skuldbundið brotamanninum, verndara sínum, eða hvað má kalla slíka menn, það er látið þræla og púla og þarf í raun að greiða stóran hluta af sínum tekjum til þessara glæpahópa, það er kannski rétta orðið yfir þetta, þessara glæpamanna eða glæpahópa. Þetta hefur verið að aukast hér á landi. Um það vitna skýrslurnar sem ég nefndi. Ég get auðvitað aðeins flett í nýjustu skýrslunni, ég ætla bara að nota hana þótt ég gæti notað þær allar. Ég ætla að drepa niður á bls. 10 í þeirri skýrslu bara rétt til að gefa ykkur hugmynd um hvað er hér á ferðinni, með leyfi forseta:

„Í stærstu borgum Evrópu eru glæpahópar tengdir ákveðnum þjóðarbrotum áberandi í skipulagðri vændisstarfsemi. Rúmenskir og albanskir hópar eru þar umsvifamiklir. Þeir hópar sem skipuleggja vændi tengjast margs konar annarri glæpastarfsemi í Evrópu s.s. sölu eiturlyfja, peningaþvætti og skipulögðum þjófnaði. Með því að þvinga flóttafólk til afbrota geta þeir sem í raun standa að baki skipulagðri glæpastarfsemi minnkað eigin áhættu.“

Svona vinna þessir hópar, herra forseti. Þeir vinna á bak við þennan flóttamannastraum sem hefur streymt til Evrópu og nýta sér neyð þessa fólks í eigin þágu og gera flóttamenn háða sér, flytja þá á milli, kosta jafnvel undir þá flutninginn eða flugið eða hvernig sem fólk ferðast og síðan er fólkið látið borga til baka með einhvers konar vinnu eða afbrotum, betli eða vændi eða hvað sem það heitir. Þessi starfsemi er komin til Íslands að sögn lögreglunnar sjálfrar. Ég hef stundum orðað það þannig: Er ekki kominn tími, herra forseti, til að hlusta á lögregluna og bregðast við því sem sérfræðingar benda okkur á og nota þau vopn sem þeir benda á að þurfi til að kveða þetta niður? Svo segir hér í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Mansal tekur til eftirfarandi þátta:

Að útvega fólk, flytja það, afhenda, hýsa eða taka við.

Ólögmætrar nauðungar, frelsissviptingar, hótana, ólögmætrar blekkingar.

Kynferðislegrar misnotkunar, nauðungarvinnu, brottnáms líffæra.“

Mansal er stór flokkur afbrota. Lögreglan segir í skýrslunni að upplýsingar liggi fyrir sem bendi til þess að Ísland sé áfangastaður fyrir mansal, þá einkum vinnumansal vegna byggingariðnaðar, veitingarekstrar og ferðaþjónustu. Á árunum 2015–2019 var fjöldi mansalsmála 74 en það sem vekur athygli er að einungis eitt mál fór í ákæruferli, sem merkt var þessum brotaflokki, sem segir kannski þá sögu hvað hér er um erfið mál að ræða, erfið í rannsókn, erfið til að uppljóstra. Þarna er yfirleitt ekki um samvinnu brotaþolans og lögreglu að ræða. Brotaþoli kærir ekki, upplýsir ekki um brot af hræðslu við kvalara sína. Þó að svona mörg mál hafi komið upp þá fór bara eitt í ákæruferli en þarna var um 88 hugsanlega brotaþola að ræða. Það sýnir kannski inn í þennan heim, hvað við erum að tala um. Við erum að tala um stórt vandamál, herra forseti. Síðan segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Upplýsingar lögreglu benda til þess að erlendir ríkisborgarar hafi verið fluttir til Íslands með skipulögðum hætti til að sæta mansali og misneytingu.“

Þarna var ég að lesa úr skýrslu greiningardeildarinnar. Í skýrslu hennar árið 2015, fjórum árum áður, segir:

„Vændi og mansal gætu aukist m.a. í tengslum við stóraukin umsvif í byggingariðnaði og ferðamannaþjónustu. Vöxtur í byggingariðnaði skapar hættu á ólöglegum innflutningi á verkafólki og dæmi eru um að viðkomandi þræli myrkranna á milli við slæm kjör. Dæmi eru um að brotamenn tengdir vinnumiðlunum eigi þátt í mansali með því að blekkja og misnota einstaklinga sem koma á þeirra vegum. Þá eykst hættan á að svört atvinnustarfsemi muni þrífast í tengslum við aukin umsvif í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.“

Og hvað, herra forseti? Þetta er 2015. Síðan segir í skýrslunni frá 2019 að þetta virðist hafa orðið raunin. Forspárgildi þess sem lögreglan er að vara okkur við er mjög mikið. Forspárgildið er mjög hátt. Lögreglan varaði við þessu 2015 og það er orðið raunin 2019. Og hvað segir í skýrslunni árið 2019? Þar segir bara berum orðum að geta íslensku lögreglunnar til að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi teljist lítil. Er uppörvandi, herra forseti, að lesa slíkt? Við stöndum frammi fyrir þeim mikla vanda sem skipuleg glæpastarfsemi er, miklum vanda sem veldur alvarlegum afleiðingum í samfélaginu, fyrir fólk, fyrir brotaþolana og fyrir samfélagið allt saman, ekki bara fjárhagslega heldur líka öryggislega. Öryggistilfinning minnkar og öryggi verður minna fyrir alla borgara. Alvarlegt? Já. Geta lögreglunnar? Lítil. Erum við að tala um stórt mál? Já. Fær þetta mikla athygli? Nei, enginn virðist hafa miklar áhyggjur af þessu, ja, kannski fyrir utan Miðflokkinn. Menn ætla bara að sitja og sjá þetta vaxa þangað til ekkert verður við ráðið. Við erum bara 370.000 í landinu og hér á Reykjavíkursvæðinu rúmlega 200.000. Ætlum við að horfa upp á það að hér séu glæpahópar að taka völdin í samfélaginu og valda með því gífurlegum samfélagslegum kostnaði, öryggisleysi og fara sínu fram, ef lögregla hefur ekki getu til að stemma stigu við því? Eigum við að horfa upp á það? Ætlum við að gera það? Nei. Ég segi nei.

Við eigum auðvitað að efla lögregluna til þess að hafa burði til að berjast gegn þessu. Hvað þarf hún til að berjast gegn þessu, herra forseti? Hvaða rannsóknarúrræði þarf lögreglan til að vera betur í stakk búin til að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi? Hún bendir á það í skýrslunni, bendir t.d. á hámarkstíma gæsluvarðhalds, sem er hér færri dagar en í nágrannalöndum, að tímafrestir til að afhenda lögmönnum gögn séu styttri hér og ýmislegt annað má nefna, sem ég bíð kannski með að gera þangað til síðar. En lögreglan þarf auðvitað þau vopn sem duga í þessari baráttu. Við getum ekki hætt öryggi borgaranna í þessu litla friðsæla landi fyrir að hér vaði uppi einhverjir hópar, reyndar nokkuð stórir hópar að sögn hæstv. ráðherra, nokkur hundruð manns sem skipa þessa hópa, að hennar sögn, og við getum ekki liðið að lögreglan sé það veik að þetta geti vaxið hér í okkar samfélagi eins og illgresi sem við sinnum ekki að fjarlægja. Ýmislegt annað er hægt að nefna og hugsanlega kem ég í aðra ræðu til að fara betur yfir það vegna þess að það er mér hjartans mál að lögreglan standi ekki hér ráðalaus gagnvart þessari vá sem er svo sannarlega fyrir hendi.