151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[18:07]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, nánar tiltekið um mansal. Ég vil í upphafi máls míns lýsa ánægju með þetta vandaða og vel gerða frumvarp og þakka mjög upplýsandi og gagnlega greinargerð sem því fylgir. Þetta mál er mjög í anda okkar Miðflokksmanna og fellur að stefnu okkar. Við höfum verið óþreytandi við að hvetja til þess að brugðist sé við endurteknum ábendingum greiningardeildar ríkislögreglustjóra, ekki síst í skýrslu frá 2017 og 2019, um uppgang skipulagðrar glæpastarfsemi og þá hættu sem af henni stafar fyrir íslenska þjóð. Við höfum hvatt til þess að fjölgað verði í lögreglu, henni verði tryggður nauðsynlegur búnaður og tæki og heimildir til starfa. Við búum svo vel í Miðflokknum að við eigum innan okkar raða í þingflokknum sérfræðinga í lögreglumálum og landamæraeftirliti. En við munum auðvitað halda áfram að tala fyrir þessum málum.

Frumvarpið felur í sér tillögur um breytingar á 227. gr. a almennra hegningarlaga, um mansal, til samræmis við lagaþróun annars staðar á Norðurlöndunum, alþjóðlega sáttmála og athugasemdir sérfræðingaráðs Evrópuráðsins, sem kallað er GRETA, um aðgerðir gegn mansali.

Herra forseti. Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um mat ríkislögreglustjóra á skipulagðri brotastarfsemi. Þar er rakið að greiningardeildin, sem tók til starfa 2007, hafi fylgst með þróun skipulagðrar glæpastarfsemi frá 2008 og gefið út skýrslu næstum því árlega þar sem mat er lagt á hættuna af skipulagðri brotastarfsemi hérlendis. Í skýrslu frá 2015 er í fyrsta sinn fjallað um vinnumansal sem sérstakan flokk mansalsmála. Rakið er að í eldri skýrslum er lítið sem ekkert minnst á vinnumansal heldur er fyrst og fremst fjallað um skipulegt vændi í tengslum við mansal.

Í nýjustu áhættumatsskýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra, sem dagsett er í maí 2019, kemur fram að margt bendi til þess að skipulagt vændi hafi aukist hér á landi og að hluti þess tengist erlendum skipulögðum brotahópum. Þá séu vísbendingar um, segir greiningardeild ríkislögreglustjóra, að Ísland sé áfangastaður fyrir mansal og þá einkum vinnumansal innan byggingariðnaðar, veitingareksturs og ferðaþjónustu. Einnig séu vísbendingar um að erlendir ríkisborgarar hafi verið fluttir til landsins með skipulögðum hætti til að sæta mansali og misneytingu. Segir í skýrslunni að stóraukin umsvif og vöxtur í byggingariðnaði og ferðaþjónustu hafi í för með sér ólöglegan innflutning á verkafólki og dæmi séu um að einstaklingar þræli myrkranna á milli við slæm kjör. Segir áfram, og er sömuleiðis vitnað til þessa í greinargerð með frumvarpinu, að lögreglan meti það svo að mansal innan þessara greina atvinnulífsins hafi vaxið hratt á undanförnum árum. Þá er dregið fram í skýrslunni að mikil fjölgun hælisleitenda auki hættuna á mansali. Ég ítreka, herra forseti, að dregið er fram í skýrslunni að mikil fjölgun hælisleitenda auki hættuna á mansali þar sem bág félagsleg staða þeirra geri þá útsetta, eins og það er orðað, fyrir misneytingu og kúgun.

Í greinargerðinni með frumvarpinu segir að þegar skýrslur greiningardeildar ríkislögreglustjóra séu skoðaðar heildstætt yfir tímabilið 2008–2019 megi sjá að fram til ársins 2015 var einkum horft til mansals í tengslum við vændi og kynlífsþjónustu en frá og með árinu 2015 hafi orðið sú breyting á að farið var að horfa til fleiri birtingarmynda mansals eins og vinnumansals, sérstaklega innan byggingariðnaðar, veitingareksturs og ferðaþjónustu eins og áður getur, og burðardýra í fíkniefnamálum.

Ég ætla að grípa hérna aðeins frekar niður í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá maí 2019, herra forseti, og hlýt að skjóta því hér inn að maður myndi kunna að meta það, og vafalaust margir, að ríkislögreglustjóri myndi senda frá sér nýja skýrslu núna þegar fjögur ár eru liðin frá þeirri síðustu um þetta efni. En þar segir að reynsla erlendis frá sýni að fátítt sé að fórnarlömb leiti til lögreglu. Þar er sömuleiðis rakið að tölulegar upplýsingar hafi takmarkað upplýsingagildi fyrir mögulegt umfang mansals í landinu, segir að mat íslensku lögreglunnar byggist því að mestu á upplýsingum og vísbendingum en ekki fjölda sakamála.

Áfram segir í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra, með leyfi forseta:

„Ólöglegir fólksflutningar og smygl á fólki eru liður í umsvifum skipulagðra glæpasamtaka. Glæpahópar sem starfa yfir landamæri og hafa komið sér fyrir í mörgum ríkjum Evrópu eru umsvifamiklir á þessu sviði. Upplýsingar lögreglu benda til þess að erlendir ríkisborgarar hafi verið fluttir til Íslands með skipulögðum hætti til að sæta mansali og misneytingu. Árið 2018 hófst umfangsmikil mansalsrannsókn. Virðist sem erlendur einstaklingur hafi skipulega flutt fólk yfir landamæri víða um heim og loks til Íslands.“

Í greinargerð með frumvarpinu eru rakin dómsmál. Þau eru ekki mörg en ég vísa til hinnar ítarlegu greinargerðar um það efni.

Eins og áður segir, herra forseti, þá eru í þessu frumvarpi lagðar til breytingar á 1. mgr. 227. gr. a í almennum hegningarlögum er lúta að refsinæmi mansals í þeim tilgangi að bæta enn frekar vernd þolenda og auðvelda málsókn á hendur þeim sem ábyrgir eru fyrir brotunum. Þetta eru tvö sjálfstæð og mikilvæg markmið sem hér eru uppi; að bæta vernd þolenda og auðvelda málsókn á hendur brotamönnum.

Segir í greinargerð að við breytingarnar hafi sérstaklega verið tekið mið af þróun löggjafar annars staðar á Norðurlöndum, annarri skýrslu sérfræðingahópsins GRETU um Ísland, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 211/36/ESB til að koma í veg fyrir og berjast gegn mansali og vernd þolenda, og tilgreindum samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Herra forseti. Í kafla um mat á áhrifum í greinargerðinni segir, og er mjög upplýsandi, að meginefni frumvarpsins lúti að því að treysta enn frekar vernd þolenda mansals, ekki síst kvenna og barna sem á heimsvísu eru seld í vændi eða misnotuð kynferðislega með öðrum hætti. Þá hafa efnahagsþrengingar, stríðsátök og pólitískur óstöðugleiki í heiminum ýtt undir flutning fólks í leit að betri lífskjörum. Segir áfram að það hafi leitt til þess að þörf sé á að treysta enn frekar vernd hælisleitenda, flóttafólks, farandverkafólks og erlends vinnuafls til að berjast gegn nauðungarvinnu og nauðungarþjónustu, þrælkun eða ánauð. Frumvarpið er til þess fallið að styrkja enn frekar vernd mansalsþolenda og spyrna gegn því að fólk sé svipt þeim grundvallarmannréttindum að ráða yfir lífi sínu og líkama.

Herra forseti. Í greinargerðinni er fjallað um eðli mansals og inntak merkingar þess hugtaks. Það segir í greinargerðinni, í kafla um einstakar greinar frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Mansal er gróft mannréttindabrot sem felst í að brjóta gegn friðhelgi einstaklings. Brotastarfsemin beinist gegn frjálsræði brotaþola og helgustu persónuréttindum í þeim tilgangi að hagnýta líkama viðkomandi, vinnukrafta eða þekkingu í annars þágu.“

Þær breytingar sem eru lagðar til með frumvarpinu eru ítarlega skýrðar í greinargerð. Segir þar, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á tilgangi mansals. Mismunandi tilgangur mansals hefur það sameiginlega markmið að gerandi annaðhvort hagnýtir sér brotaþola í fjárhagslegum tilgangi eða hagnýtir sér hann persónulega á einhvern hátt. Bætt er við hagnýtingartegundum í samræmi við þekktar birtingarmyndir mansals, tekið er mið af alþjóðasáttmálum sem Ísland er bundið af og alþjóðlegu samstarfi. Þá er brugðist við athugasemdum í skýrslu GRETU um Ísland frá því í mars 2019 þar sem kallað er sérstaklega eftir því að íslensk refsilöggjöf veiti þeim brotaþolum vernd sem hagnýttir eru í nauðungarhjónaband (e. forced marriage), til að betla (e. forced begging) eða til að fremja refsiverðan verknað (e. forced criminality/exploitation of criminal activities).“

Segir í framhaldinu, með leyfi forseta:

„Einstaklingar sem hagnýttir eru til að fremja refsiverðan verknað eru t.d. neyddir til að stunda búðarhnupl, vasaþjófnað, innbrot, framleiða eða selja falsaðan varning eða þeir hagnýttir sem burðardýr fíkniefna eða til að flytja peninga á milli landa (e. money mule). Víða eru börn misnotuð í þessu skyni þar sem brotamennirnir njóta góðs af því að þau má ekki sækja til saka sökum ungs aldurs.

Þá er „nauðungarþjónustu“ (e. servitude) bætt við ákvæðið í samræmi við 3. gr. Palermó-bókunarinnar og athugasemdir GRETU. Tekið er sérstaklega fram að betl falli þar undir. Undir það fellur einnig nauðungarþjónusta inni á heimilum, t.d. vegna aðstoðar við heimilisstörf. Þá hefur „þrældóm eða ánauð“ verið bætt við upptalninguna í samræmi 3. gr. Palermó-bókunarinnar og athugasemdir GRETU.“ — Sem ég leyfi mér, herra forseti, að beygja upp á íslensku þó að hann sé skammstafaður á erlendri tungu GRETA. — „Ánauð getur t.d. falist í skuldaánauð þannig að viðkomandi er látinn vinna upp í skuld sem jafnvel aldrei er fullgreidd eða búsetuánauð þannig að viðkomandi er háður brotamanni með húsnæði. Vinnumansal nær yfir nauðungarvinnu, þrælkun, þrældóm eða aðra misnotkun á vinnuafli að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. 227. gr. a. Þá er „vændi“ tilgreint sérstaklega í samræmi við framsetningu á kynferðislegum tilgangi mansals í mansalsákvæðum dönsku og norsku hegningarlaganna.“

Herra forseti. Ég hef núna verið að fjalla um þá breytingu sem er lögð til og lýtur að tilgangi mansals en í öðru lagi eru lagðar til breytingar sem lúta að verknaðaraðferð, með leyfi forseta:

„Í stað orðanna „eða með því að hagnýta sér bága stöðu viðkomandi“ kemur „eða með því að notfæra sér bága stöðu, fákunnáttu eða varnarleysi viðkomandi eða með því að hagnýta sér yfirburðastöðu sína […] Með því að bæta við „fákunnáttu“, „varnarleysi“ og „hagnýta sér yfirburðastöðu sína“ ættu yfirvöld að eiga auðveldara með að berjast gegn vinnumansali, en þetta eru aðstæður sem gjarnan einkenna mansalsbrot gegn hælisleitendum, flóttafólki, farandverkafólki og erlendum ríkisborgurum. Þá getur yfirburðastaða t.d. falist í því að þolandi mansals er fjárhagslega háður þeim sem brýtur á honum.“

Ég hef hérna rakið efni og greinargerð í þessu góða og vandaða frumvarpi og hef ekki getað gripið niður nema á nokkrum stöðum tímans vegna.

Ég hlýt að nefna, herra forseti, að ekki síst vegna þeirra ummæla sem vitnað er til í greinargerðinni, þ.e. ummæla í skýrslu ríkislögreglustjóra þar sem segir að mikil fjölgun hælisleitenda auki hættuna á mansali, að þá óneitanlega skýtur skökku við að sama ríkisstjórn skuli vera hér með frumvarp sem lagt er fram af hæstv. félagsmálaráðherra um breytingu á lögum um innflytjendur sem verður ekki talið annað en að auki hættu í þessu efni þar sem eru skilaboð sem verða ekki misskilin úti í heimi, um að Ísland eigi að verða enn þá ákjósanlegri áfangastaður fyrir hælisleitendur en nú er. Nú stendur þannig á að hælisleitendur á Íslandi eru sex sinnum fleiri miðað við höfðatölu en í Danmörku og Noregi, þrisvar sinnum fleiri en í Finnlandi, þannig að það er varla á það bætandi. En svo er að sjá að hæstv. ríkisstjórn sé ekki þeirrar skoðunar. Þetta misræmi er auðvitað ógott og reyndar mjög svo.

En í ljósi þess að minn tími er u.þ.b. á enda þá ítreka ég ánægju mína með frumvarpið, hversu vel það er unnið og gagnlegt í alla staði.