151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[18:59]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er annað atriði sem ég myndi gjarnan vilja inna hv. þingmann eftir um leið og ég þakka honum fyrir svarið. Það er þetta: Þegar maður ítrekað vísar til reynslu, til að mynda nágrannaþjóða og annarra þjóða, hafa það verið viðbrögð hv. þingmanns, og síðast núna fyrir skemmstu í þessari umræðu, að þetta sé rökvilla vegna þess að það að einhver hafi einhverja skoðun sé einhvern veginn ekki röksemd fyrir því að sú skoðun sé rétt. Það að vísa til reynslu annarra og leggja sjálfstætt mat á stefnumörkun, til að mynda ríkisstjórna í nágrannaríkjum, er auðvitað bara eðlileg aðferð og hefur ekkert með rökfræði að gera. Með því er því ekkert haldið fram að haldið sé uppi röksemdafærslu af því tagi sem hv. þingmaður er að segja. Þetta er eðlilegasti hlutur í heimi, að læra af árangri annarra og að læra af mistökum annarra.