151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

Barna- og fjölskyldustofa.

355. mál
[18:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um frumvarp til laga um Barna- og fjölskyldustofu sem er auðvitað hluti af þessum barnapakka sem við erum að takast á um núna. Ég hjó eftir því í andsvörum við hv. þm. Bergþór Ólason að hv. þingmaður sagði að þetta væri fullfjármagnað. Eru þá öll málin fullfjármögnuð og er vitað nákvæmlega hvað þetta muni kosta? Og er eitthvað búið að sundurgreina hvert fyrir sig?

Og svo langar mig líka að spyrja, vegna þess að nú erum við að tala um að búa til nýja stofnun, hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að það gæti tekið svolítinn tíma og það gæti líka leitt til þess að biðlistar í kerfinu lengist vegna þess að við höfum líka tekið eftir því að það er einhvern veginn innbyggt í kerfið að biðlistar eru að lengjast alls staðar, t.d. bara út af Covid, það veldur ákveðnum vandamálum og við sjáum þetta í heilbrigðiskerfinu eins og það leggur sig.

Þannig að þetta verður hluti af þessum pakka þar sem við vitum að nú þegar eru gífurlegir biðlistar. Ég óttast að það gætu orðið hnökrar þar á. Ég vona heitt og innilega að þetta komist alla leið af því að þetta eru góð mál. Ég hef ákveðnar áhyggjur af bæði fjármögnuninni og líka því hvernig gengur að búa til nýja stofnun og manna hana.