151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

Barna- og fjölskyldustofa.

355. mál
[18:30]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni fyrir andsvarið og jú, ég hef áhyggjur af því. Maður getur auðvitað ekki annað, en við höfum samt heyrt hæstv. félags- og barnamálaráðherra segja hérna í ræðustól að það væri búið að eyrnamerkja, ef ég man rétt, 2 milljarða í þetta kerfi. En maður hefur hvorki séð það í fjármálaáætluninni né í fjárauka þannig að ég veit ekki og hv. þm. og frummælandi Halla Signý Kristjánsdóttir sagði líka að þetta væri fullfjármagnað. Hún er búin að segja það hér í þessum ræðustól að þetta sé fullfjármagnað og ég vona heitt og innilega að það sé bara rétt að það sé búið að ganga þannig frá þessu að fjármögnunin verði ekki vandamál.

En ég hef líka áhyggjur af öðru vandamáli sem gæti komið upp sem hefur kannski verið lítið rætt hérna og það er vandamálið sem ég rakst á um daginn í sambandi við biðlistana en það er að það sé ekki bara fjármagn sem vantar heldur er mönnunarvandi, vegna þess að mér skilst, og ég er kannski ekkert hissa á því, að það sé erfitt að fá fólk til að taka á þessum málum og að álagið sé gífurlegt. Við verðum líka vör við þetta á Landspítalanum. Fólk er að brenna út, læknar eru að brenna út, álagið er orðið það mikið að fólk er að gefast upp. Þetta kerfi sem við erum að breyta hérna, álagið í því kerfi er búið að vera alveg gífurlegt undanfarin ár á fólk og hefur reynt bæði á starfsmenn, börnin og fjölskyldur þeirra. Það er þetta álag sem ég hafði líka áhyggjur af og hvort við höfum menntað fólk til að taka við þessu eða hvort við fáum það. Það verður, held ég, líka stór spurning fyrir framtíðina að svara, hvort það gangi upp.