151. löggjafarþing — 108. fundur,  7. júní 2021.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[19:43]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Við Íslendingar erum bjartsýn og þrautseig þjóð. Samstaða og samheldni þjóðarinnar í baráttu við faraldurinn skæða síðustu misseri er grundvölluð á þessum eiginleikum, bjartsýni og þrautseigju. Við höfum að mörgu leyti sýnt okkar bestu hliðar á þessum erfiðu tímum og nú þegar skammdegið hefur vikið fyrir björtum sumarnóttum er komið að vatnaskilum í baráttunni við þennan vágest. Við getum leyft okkur að fagna, við getum leyft okkur að gleðjast og við getum leyft okkur að horfa bjartsýn fram á veg en við getum ekki leyft okkur að halda allt verði gott á nýjan leik að sjálfu sér. Það gerist ekkert af sjálfu sér.

Nú er mikilvægara en nokkru sinni að efla verðmætasköpun í landinu, að ná kröftugri viðspyrnu eftir hinn óhjákvæmilega samdrátt sem faraldurinn hafði í för með sér. Þar eru engar töfralausnir. Við þurfum að skapa verðmæti og auka útflutningstekjur ef við ætlum að viðhalda þeim lífskjörum sem við höfum vanist. Þrátt fyrir það sem stjórnarandstaðan heldur fram þá er aukin skuldsetning ríkissjóðs ekki leiðin fram á við. Lífskjörin verða ekki tekin að láni með aukinni skuldsetningu ríkissjóðs. Skuldir hafa nefnilega einn galla, þær þarf að greiða fyrr eða síðar, og við sem hér erum höfum engan rétt á því að senda reikninginn til komandi kynslóða.

Við munum heldur ekki skattleggja okkur út úr þrengingunum. Við þurfum að veita fólki og fyrirtækjum svigrúm til að skapa verðmæti. Við þurfum því að létta byrðum, einkum af smærri fyrirtækjum, í stað þess að auka þær. Við verðum að afnema heimatilbúnar hindranir. Og við þurfum að auka sókn okkar á erlenda markaði með okkar verðmætu útflutningsvörur. Og tækifærin eru svo sannarlega til staðar. Við sjáum það best á auknum vexti alþjóðageirans að hugverkaiðnaðurinn hefur fest sig í sessi sem fjórða útflutningsstoðin.

Við Íslendingar erum fríverslunar- og útflutningsþjóð. Lífskjör okkar standa og falla með því hvernig okkur tekst til með sókn á erlenda markaði og að markaðir okkar standi opnir. Þetta er ástæðan fyrir því að ég hef lagt mikla áherslu á að opna erlenda markaði í tíð minni sem utanríkisráðherra og tryggja íslenskum fyrirtækjum að minnsta kosti jafna samkeppnisstöðu á við keppinauta þeirra í öðrum löndum. Nýjasta dæmið um það er samkomulag um fríverslunarsamning við Bretland sem við gerðum í samfloti við Noreg og Liechtenstein. Hann tryggir íslenska útflutningshagsmuni í þessu næststærsta viðskiptalandi okkar, Stóra-Bretlandi.

Við þurfum að halda áfram á þessari braut, halda áfram að opna sem flestar dyr fyrir íslensk fyrirtæki og greiða þeirra leið á erlendum mörkuðum. Lífskjör okkar allra eru undir því komin. Við þurfum að hagræða og ná fram raunverulegum sparnaði í ríkisrekstrinum eftir myndarlega aðkomu ríkissjóðs að viðspyrnunni síðustu mánuði. Við viljum að unga fólkið okkar sjái Ísland áfram sem land tækifæranna. Ef unga fólkið okkar leitar annað, ef það telur hag sínum betur borgið annars staðar, þá er illa fyrir okkur komið.

Þetta snýst ekki síður um þær kynslóðir sem nú hafa skilað sínu. Þær þurfa líka að vera með í nýrri lífskjarasókn. Við getum ekki haldið áfram að letja eldra fólk til þátttöku í samfélaginu. Við verðum að nýta mannauð allra, ekki síst þeirra sem eldri eru. Lykilinn að því er sveigjanleiki. Það eru góðar fréttir að við erum að verða eldri en við þurfum að búa okkur undir það. Eftir skamman tíma verður fimmti hver Íslendingur á lífeyrisaldri og okkur liggur á að búa okkur undir þær breytingar. Það á ekki síst við þegar kemur að þjónustu á heilbrigðissviðinu. Málefni eldra fólks eru framtíðarmál sem snerta alla. Fjölskylda sem á afa eða ömmu, pabba eða mömmu sem fær ekki þjónustu er í vanda stödd. Til að leysa þessi verkefni getum við litið til Norðurlandanna í leit að lausnum.  

Virðulegi forseti. Viðspyrna í efnahagsmálum er mikilvæg núna þegar sér fyrir endann á faraldrinum en við þurfum líka viðspyrnu þegar kemur að því að aflétta hömlum af daglegu lífi fólks. Almenningur á Íslandi hefur fórnað miklu á síðustu mánuðum, börnin okkar og unglingarnir þar með taldir. Skerðingar á frelsi einstaklingsins eru réttmætar þegar brýna nauðsyn ber til en slíkar skerðingar mega ekki vera umfram tilefni og ekki standa lengur en þörf krefur. Eftir því sem dregur úr hættunni af faraldrinum þurfum við að stíga ákveðin skref í því að draga úr þeim frelsisskerðingum sem taldar voru óhjákvæmilegar þegar faraldurinn geisaði. Það er gleðiefni að góð samstaða ríkir um það markmið, bæði í stjórnmálunum og meðal sóttvarnayfirvalda, að koma samfélaginu aftur í eðlilegt horf. Við ætlum ekki að láta heimsfaraldurinn draga úr frelsi fólks á Íslandi til langs tíma. Þegar faraldurinn hættir að verða raunveruleg ógn við heilsu samfélagsins og innviði heilbrigðiskerfisins er hann búinn. Þá setjum við óttann í aftursætið og látum vonina, bjartsýnina og framkvæmdagleðina taka við stýrinu á ný.

Virðulegi forseti. Einstaklingurinn á alltaf að vera í öndvegi. Þá farnast okkur öllum best. Ef hvert og eitt okkar fær notið frelsis, ef hvert og eitt okkar finnur kröftum sínum viðnám nýtur samfélagið í heild sinni góðs af því. Gleymum því heldur ekki að frelsi og ábyrgð eru ekki andstæður heldur tvær hliðar á sama peningi. Ábyrgð hvers og eins okkar á eigin málum, ábyrgð okkar gagnvart samfélaginu, ábyrgð okkar gagnvart umhverfinu og ábyrgð okkar gagnvart framtíðinni verður ekki skilin frá því frelsi sem hvert og eitt okkar nýtur. Við getum verið þakklát fyrir óskaplega margt í íslensku samfélagi. Hér eru lífsskilyrði með því besta sem þekkist, gott traust ríkir almennt í samfélaginu þótt það megi vitaskuld ætíð bæta. Og hér á landi er margbreytileika mannlífsins haldið á lofti. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því í starfi mínu sem utanríkisráðherra að víða er litið til Íslands sem fyrirmyndar í þessum efnum. Við höfum lagt okkar lóð á vogarskálar mikilvægra mannréttinda og látið dýrmætar hugsjónir, ekki síður en verðmæta hagsmuni, ráða afstöðu okkar á alþjóðavettvangi.  

Virðulegi forseti. Kosningarnar í haust munu snúast um það hversu hratt og örugglega okkur tekst að snúa vörn í sókn. Þær munu snúast um nýja lífskjarasókn eða aukna skuldasöfnun ríkissjóðs með tilheyrandi verðbólgu og atvinnuleysi. Það verður kosið um að byggja velferð okkar á verðmætasköpun eða taka hana að láni og senda komandi kynslóðum reikninginn. Það verður kosið um hvort Ísland verði áfram samfélag þar sem einstaklingurinn, ábyrgð hans og frelsi til orðs og æðis verði áfram í öndvegi.

Stefna Sjálfstæðisflokksins er og verður skýr í þessum efnum: Við viljum greiða leið fólks og fyrirtækja, ekki hefta og letja. Við viljum auka verðmætasköpun til að standa undir velferð og lífskjörum í fremstu röð. Við höfnum þeirri leið sem stjórnarandstaðan hefur lagt til, að taka lífskjörin að láni og senda komandi kynslóðum reikninginn. Við viljum samfélag þar sem fara saman efnahagsleg tækifæri, samfélagslegt traust og blómstrandi fjölbreytt mannlíf.  

Góðir Íslendingar. Við erum bjartsýn og þrautseig þjóð og við erum okkar eigin gæfu smiðir. Það sýnir sagan. Þegar við tökum málin í okkar eigin hendur vegnar okkur best. Við vitum þess vegna að ekkert gerist af sjálfu sér, hvorki hjá okkur sem einstaklingum né hjá okkur öllum sem þjóð. Við þurfum að hafa fyrir hlutunum. Það er bjart fram undan ef rétt er á málum haldið. — Ég þakka þeim sem hlýddu.