151. löggjafarþing — 108. fundur,  7. júní 2021.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[20:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Kæru landsmenn Eitt af því sem ríkisstjórnin vildi ræða hér í kvöld er góð stjórnun sérfræðinga í baráttunni við veirufaraldurinn. Meginhluti stjórnarandstöðunnar studdi þau vinnubrögð. Eina stjórnarandstaðan gegn sóttvarnapólitíkinni kom frá Sjálfstæðisflokknum og Miðflokknum. Satt best að segja voru það einhver misheppnuðustu stjórnarandstöðuupphlaup sem sögur fara af. En nú er þetta verkefni frá. Við blasir það mikla langtímaverkefni að ná tökum á skuldavanda ríkissjóðs, að byggja upp íslenskt atvinnulíf, auka fjölbreytnina og stækka kökuna fyrir fólkið, heimilin og velferðina í landinu. En til að ná þessum markmiðum þurfum við að auðvelda öllu atvinnulífinu að hlaupa hraðar og byggja undir samkeppnishæfni þess.

Í þessu ljósi er athyglisvert að skoða hvað það er sem ríkisstjórnin vill ekki ræða hér í kvöld. Hún vill ekki ræða að það dregur úr krafti atvinnulífsins þegar hún skilur eftir 50 milljarða króna gat í nýrri fjármálaáætlun og segir ekki hvort því verði lokað með nýjum sköttum eða stórfelldum niðurskurði. Hún vill ekki ræða að það dregur úr krafti atvinnulífsins að ríkisstjórnin hefur tekið, þvert á yfirlýsingar, erlend lán á hærri vöxtum og með gengisáhættu til að fjármagna halla ríkissjóðs. Hún vill ekki ræða að það dregur úr krafti atvinnulífsins þegar verðbólgan og vextir eru miklu meiri og hærri hér en í samkeppnislöndunum. Hún vill ekki ræða að það dregur úr krafti atvinnulífsins þegar gjaldeyrishöft eru tekin fram yfir frelsi í viðskiptum.

Við göngum til kosninga í haust við óvenjulegar aðstæður. Afkoma ríkissjóðs var orðin ósjálfbær fyrir veirufaraldurinn. Samdrátturinn var byrjaður í atvinnulífinu. Hættumerkin voru víða. Gríðarleg skuldasöfnun vegna veirufaraldursins var óhjákvæmileg. En það þýðir að við þessar aðstæður dugar ekki hefðbundin loforðapólitík um stóraukin ríkisútgjöld. Okkur dugar heldur ekki að ná aftur verðmætasköpuninni frá 2019. Við þurfum að ná mun meiri hagvexti, strax. Til hvers? Til þess að standa vörð um velferðarkerfið.

Öll þessi atriði sem ríkisstjórnin vill ekki ræða koma í veg fyrir að atvinnulífið geti hlaupið jafn hratt og við þurfum á að halda. Lausnarorð ríkisstjórnar er gjaldeyrishöft. Þau draga úr hagvexti, auka líkur á sköttum og niðurskurði og vinna gegn nýsköpun.

Viðreisn vill aftur á móti tryggja stöðugleika og sambærilegt viðskiptafrelsi og nágrannalönd okkar njóta, með því að víkka út EES-samninginn og semja við Evrópusambandið um að tengja krónuna við evru, eins og Danir gera.

Virðulegi forseti. Faðmlag íhaldsflokkanna þriggja hefur verið svo nærandi að hægri deild stjórnarsamstarfsins hefur ekki gert neinar athugasemdir við það þegar vinstri deild stjórnarsamstarfsins sýnir sitt rétta andlit. Flokkur einkaframtaksins situr hljóður hjá þegar Domus Medica lokar, þegar biðlistar lengjast hjá talmeinafræðingum, sjúkraþjálfurum, sálfræðingum, þegar þrengt er að rekstri sérfræðilækna og sjúklingar sendir í dýrar aðgerðir til útlanda í stað þess að semja við innlendar stofur eða spítala. Afleiðingin er verri þjónusta fyrir sjúklinga og hærra verð fyrir ríkið, einhæfara starfsumhverfi og færri tækifæri fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Á kjördag er hollt fyrir frjálslynt fólk að muna að þetta eru skýr skilaboð um að þessi ríkisstjórn treystir aðeins ríkinu, að faðmlag stjórnarflokkanna er kæfandi fyrir einkarekstur og önnur rekstarform. Ef einhæfara, óskilvirkara, ójafnara og dýrara heilbrigðiskerfi er fórnarkostnaðurinn fyrir meintan pólitískan stöðugleika, þá er sá pólitíski stöðugleiki ekki mikils virði.

Kæru landsmenn Það var fleira á þessu kjörtímabili sem mátti bara alls ekki ræða og það var setið á óþægilegum málum. Eins og skýrslu, sem við báðum ríkisstjórnina um að gera, um áhrif og eignarhald 20 stærstu útgerðafélaga landsins í íslensku atvinnulífi. Það bólar ekkert á henni. Sorglegt? Já. Tilviljun? Nei.

Þá er ekki síður sorglegt að fylgjast með viðbrögðum ríkisstjórnar við Samherjamálinu. Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna hafa sett upp silkihanskana í gagnrýni sinni og muldrað sakleysisleg orð um að þetta sé óviðeigandi og óeðlilegt. Þannig gengisfella þeir alvöruna í málinu því samsæri stórfyrirtækis gegn blaðamönnum er ekki bara óviðeigandi heldur einnig árás á lýðræðislega umræðu. Orð skipta nefnilega máli. En það þarf hins vegar engum að koma á óvart að formenn ríkisstjórnarflokkanna nota bara inniröddina þegar kemur að sérhagsmunum stórútgerðarfyrirtækja. Það er í fullu samræmi við algerlega tannlaust auðlindaákvæði sem forsætisráðherra hefur lagt fyrir þingið og mun ekki breyta nokkrum sköpuðum hlut, verði það samþykkt. Það ákvæði er friðþæging fyrir útgerðina meðan hlutur þjóðar er skilinn eftir.

Kæru landsmenn, Í haust hafið þið val. Íhaldsflokkarnir þrír vilja vinna áfram saman. Það hafa þeir sagt fullum fetum. Atkvæði til þessara flokka er atkvæði greitt áframhaldandi kyrrstöðustjórn. Ekkert mun breytast í auðlindamálum og heilbrigðismálum. Krónan verður áfram sama hindrunin fyrir heimili, fyrir fyrirtæki, fyrir nýsköpun.

Viðreisn hefur aðra sýn. Viðreisn vill breyta samfélaginu og lofta út. Við viljum að almannahagsmunir ráði för. Við viljum að eðlilegt gjald sé greitt fyrir aðgang að auðlindunum okkar og að samningar um þær séu tímabundnir. Við viljum dreifða eignaraðild í sjávarútvegi, ekkert fimbulfamb hér. Við viljum tryggja aukið gegnsæi. Við viljum koma á gengisstöðugleika strax og tengja krónuna við evru. Við viljum lægri vexti og ódýrari matarkörfu, ódýrara húsnæði og samkeppnishæfara atvinnulíf.

Við viljum að andleg líðan sé jafngild þeirri líkamlegu og aðgangur fólks að sálfræðiþjónustu verði greiður án þess að það kosti hundruð þúsunda króna. Við viljum að fólkið okkar komist á hjúkrunarheimli og fái viðunandi þjónustu. Við viljum að fatlað fólk og öryrkjar eigi hér gott líf og þau kerfi sem eiga að halda utan um þau verði einfaldari og sveigjanlegri, að þau tali saman.

Við viljum að uppfært og nútímavætt menntakerfi setji fókus enn betur á börnin okkar og snemmtæka íhlutun. Við viljum hækka grunnframfærslu námsmanna svo hægt sé að lifa af námslánum. Við viljum að innviðauppbygging verði raunveruleg en ekki falleg orð á blaði í enn eitt skiptið.

Við viljum jafna atkvæðavægi og tryggja þannig grundvallarmannréttindi í íslensku samfélagi. Við viljum að samkeppnisreglur gildi fyrir alla. Við viljum tryggja aukið frelsi, bæði fyrir neytendur og bændur, og að bændur fái sjálfir ráðið hvernig þeir rækta sína jörð, í sátt við fólk og náttúru.

Við viljum að stærri skref verði tekin til að takast á við ofbeldi í samfélaginu okkar. Við viljum að jafnréttismál séu rauði þráðurinn í öllum okkar ákvörðunum. Við viljum að Ísland sé þjóð meðal þjóða og eigi sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar. Við viljum að þjóðin ráði för; treystum henni til að taka næstu skref í Evrópumálum.

Við viljum ekki lægsta samnefnarann í loftslags- og umhverfismálum heldur að Ísland verði fyrirmynd fyrir önnur lönd um það hvernig minnka eigi losun og takast á við loftslagsvandann. Við viljum að Ísland verði grænasta land í heimi.

Ágætu landsmenn. Það er skýr stefna Viðreisnar að öll kerfi samfélagsins, hvort sem það er heilbrigðis-, mennta-, sjávarútvegs-, landbúnaðar- eða velferðarkerfin, þurfa og verða að þjóna almenningi. Þau eiga að vera sanngjörn, notendavæn og skilvirk. Þau eiga ekki að þjóna kreddum stjórnmálamanna eða vera stjórnað af hagsmunaöflum. Þau eiga ekki að vera kjörlendi fyrir bitlinga eða skjól fyrir flokksgæðinga. Kerfi sem þjóna ekki almenningi eru einskis virði, þau eru kerfi sérhagsmuna sem Viðreisn vill stokka upp.

Kæra þjóð. Gleðilegt sumar. Gleðilegt frjálst sumar.