151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldur.

775. mál
[15:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt, það er Suðvesturkjördæmi þar sem Hafnarfjörður er og vagga handboltans. En það er önnur saga.

Þetta er kannski eitt af þessum málum varðandi aðferðafræðina og vinnulagið sem við hefðum getað farið betur í til þess einmitt að girða fyrir að einhverjir yrðu skildir út undan. Ég er ekki að segja að það skorti vilja hjá stjórnvöldum og ríkisstjórninni að snerta á og koma til móts við þá hópa sem hv. þingmaður nefndi, eins og skátana, alls ekki. Ég ætla ekki að ætla þeim það. Ég held hins vegar að samtalið, m.a. við okkur í stjórnarandstöðunni, undirbúningurinn og hlustunin hefði mátt vera meiri og þá hefðum við náð enn meiri samstöðu um þessi mikilvægu mál.

Ástæðan fyrir því að við í Viðreisn sögðum að við þyrftum að taka stór skref strax varðandi vinnumarkaðinn, til að taka utan um fólkið okkar og fyrirtækin, atvinnulífið í heild sinni, var af því að við þurftum að ná að þrauka í gegnum þennan faraldur sem er núna á enda, þannig að það væru íþróttafélög sem gætu kveikt ljósin eftir hlé, það væru íþróttafélög og skátar og aðrir sem gætu, ekki bara kveikt ljósin heldur farið af stað með sína mikilvægu íþróttastarfsemi, tómstundastarfsemi sem við höfum og þau bjóða upp á, ekki síst fyrir börnin okkar. Þannig að já, ég tel að þau hefðu getað komið í veg fyrir það að vonir hefðu breyst yfir í vonbrigði í þessu máli öllu.

Það er kannski of seint að tala um þetta núna, við erum að fara í gegnum þetta og við þurfum að fara að einblína á næsta fasa í okkar gríðarlega stóra verkefni sem er efnahagslegur stöðugleiki og hvernig við komum atvinnulífinu aftur af stað til að ýta undir velferðina, ýta undir það að við getum haldið utan um mennta-, menningar- og íþróttalíf o.s.frv. (Forseti hringir.) En já, ég held að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir það að hópar (Forseti hringir.) hefðu verið skildir eftir sem réttilega hefðu átt að fá meiri athygli.