151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[15:16]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir ágætisræðu. Það vakti athygli mína að hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að það væri að nokkru marki sérstakt að þetta væri að gerast í gegnum velferðarráðuneytið, velferðarráðherra, en ekki menntamálaráðuneytið, ég gef mér að það hafi verið meiningin með þeirri athugasemd. Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns svör og ræður hæstv. félagsmálaráðherra þegar málið var upphaflega flutt hér í desember síðastliðnum þar sem allt einmitt gekk út á að verktakagreiðslurnar færu í gegnum einhvers lags sjóð sem menntamálaráðherra átti að hafa á sínu forræði. Þetta mál sem nú liggur fyrir er bara framlenging á því máli. Það segir í ræðu hæstv. félagsmálaráðherra við þá umræðu, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að þetta frumvarp sé skoðað í því ljósi að það er eitt púsl í þeirri mynd sem við komum með núna gagnvart íþróttunum. Menntamálaráðherra mun óska eftir því við þingið að fá samþykkta heimild til þess að auka það fjármagn sem úthlutað verður í gegnum þessa tekjufallsstyrki og það kemur væntanlega til afgreiðslu í gegnum fjárlög og vonandi verður það samþykkt.“

Þetta sagði ráðherra á þessum tímapunkti. Síðan í meðförum nefndarinnar var tekin sú skynsamlega afstaða að áeggjan stjórnarandstöðunnar — sannast sagna vöktu þau litla lukku, þau sjónarmið sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar, ég þar með talinn, héldu fram hér við 1. umr. um að verktakagreiðslur þyrftu að falla þarna undir. Þetta er kannski útúrdúr, en það sem mig langar að spyrja hv. þingmann sem fyrrverandi menntamálaráðherra er hvernig þetta horfir við gagnvart því umhverfi sem íþróttafélögin starfa í og frjáls félagasamtök sem með einum eða öðrum hætti tengjast menntamálaráðuneytinu. Hvernig horfir það við að þessi þáttur sé tekinn úr höndum menntamálaráðherra (Forseti hringir.) þar sem eðlilegt væri að lausn mála sem þessa væri, að mínu mati og ég held að hv. þingmaður sé sammála mér, yfir á forræði félagsmálaráðherra?