151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[15:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það hefði átt að fasa þetta út og það er fjarri lagi að þegar það er aðeins byrjað að opna smá glufu þá séu komin hundruð áhorfenda inn í hús eða á fótboltavellina eða hvað það er. Það er ekki þannig. Það vantar tekjur frá áhorfendum. En við vitum líka sem höfum komið að rekstri og starfsemi íþróttafélaga að auglýsingatekjurnar hafa minnkað, sjálfsaflafé íþróttafélaganna hefur líka minnkað og svigrúm þeirra af því að fyrirtækin hafa haldið að sér höndum, eðlilega, og reynt að feta sig líka áfram á þá braut að forgangsraða fjármagni og það er ekki alltaf þannig að íþróttafélögin séu þar efst á blaði. Þannig að þetta er snúið fyrir þau í þeirra rekstri og það mun taka tilhlaup, það mun taka nokkurn tíma fyrir íþróttafélögin að ná fyrri sveiflu og fyrri snúningi þegar kemur að rekstrinum. Það er auðvitað misjafnt frá sveitarfélagi til sveitarfélags en sveitarfélögin, ég vil hrósa þeim, hafa gert hvað þau geta til þess að koma til móts við íþróttafélögin og kannski er það að hluta til líka þeirra hlutverk. En þau hafa reynt um allt land, sum hver af veikum mætti en gert það þó, að styðja íþróttastarfið og stuðla að því að það hafi getað haldið áfram.

Ég hefði viljað sjá eitthvert plan fyrst ekki er verið að fasa þetta niður. Ég hefði líka viljað sjá það einmitt af hálfu menntamálaráðherra, af því að það eru ákveðnir sjóðir eins og ferðasjóður íþróttafélaga sem var settur á laggirnar 2006 eða 2007 til að greikka fyrir ferðakostnaði fólks úti á landi innan íþróttahreyfingarinnar. Það er líka til ákveðinn sjóður sem styrkir starfsemi íþróttafélaganna, ekki síst vegna þess að hluti sjálfboðaliðastarfsins er að minnka og rekstur sambandanna hefur orðið erfiðari. (Forseti hringir.) Ég hefði gjarnan viljað sjá til viðbótar slík skref stigin til að taka a.m.k. tímabundið utan um þessa starfsemi íþróttafélaganna, (Forseti hringir.) ekki síst þegar þau eru að koma sér út í þetta dásamlega líf, þetta frjálsa líf sem núna bíður okkar.

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn um að virða tímamörk.)