151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[15:26]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar við þessa umræðu, þar sem við erum að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs, og eins og það heitir, að fara aðeins yfir þá sögu sem fylgir því, ef svo má segja. Það mál sem nú liggur fyrir er að meginhluta framlenging á máli sem var lagt fram og samþykkt í desember síðastliðnum sem viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum. Til viðbótar því frumvarpi eða þeim greinum sem þá voru samþykktar og þeim aðgerðum er hér að koma inn bráðabirgðaákvæði sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Innan fjögurra vikna frá gildistöku þessa ákvæðis skal Vinnumálastofnun greiða þeim atvinnuleitanda sem hafði fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur“ — sem sagt tímabilið sem þessi faraldur hefur sett hér margt á hliðina — „hinn 1. maí 2021 og verið að fullu tryggður skv. III. eða IV. kafla á umræddum tíma sérstakan 100.000 kr. styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði, enda hafi viðkomandi atvinnuleitandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir aprílmánuð 2021.“

Segja má að það sé meginviðbótin sem nú er að verða umfram framlengingarákvæðin sem um ræðir í 2. gr., þar sem verið er að bæta fjórum mánuðum við þegar ákveðinn líftíma þessarar lausnar. Eins og kom fram í andsvari mínu við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þá lýsi ég svolitlum áhyggjum af því að endapunkturinn sé svona skarpur hvað þessar lausnir varðar, að ekki verði reynt að fasa þetta út í nokkrum skrefum, þó ekki væri nema tveimur, því að allt umhverfi íþróttafélaganna verður væntanlega ekki komið í eðlilegan farveg samstundis og takmörkunum er aflétt. Má nefna sjálfsaflafé íþróttafélaganna, hvort sem þar er um að ræða styrki eða miðasölu eða aðra þætti. Við heyrðum það í umræðum um þessi mál fyrir áramót og þeim upplýsingum sem bárust til þingsins og þeim umsögnum sem bárust að allt umhverfi er gjörbreytt hvað íþróttafélögin varðar. Það er erfiðara að fá styrki og stuðningsaðila, upphæðirnar eru lægri og þar fram eftir götunum.

Þegar nær dregur 1. febrúar 2022 verður auðvitað komin ný stjórn í landinu en ég held að á þeim tíma þurfi tímanlega, og þá væntanlega í tengslum við fjárlagavinnu í lok ársins, að taka tillit til þess að þessi þáttur gæti þurft að fasast út í einhverjum skrefum en ekki hafa afmarkaðan endapunkt um mánaðamótin janúar/febrúar 2022 sem er nú eins og þekkt er hvað erfiðasti tími ársins í mörgum skilningi í rekstri. Ég held að við verðum að hafa það í huga.

Annað sem mig langar að koma inn á hér, sem tengist forsögu málsins sem var lagt fram í desember og samþykkt þá, sem er auðvitað grundvöllur þessa máls í öllum meginatriðum, eru verulegar athugasemdir sem sneru m.a. að því að í íþróttahreyfingunni er mikil verktaka. Bæði eru það íþróttamenn sem stunda sína íþrótt á íþróttasamningi við félög og þjálfarar eru iðulega á verktakasamningi en ekki starfandi sem launamenn hjá viðkomandi klúbbi. Sem betur fer, eftir miklar athugasemdir og eftirfylgni okkar ýmissa í stjórnarandstöðunni, var brugðist við með þeim hætti að verktakagreiðslurnar voru felldar undir þetta frumvarp og gerðar því sem næst jafnsettar launagreiðslunum en þó ekki alveg. Núna þegar meiri tími gefst til að vinna málið hefði verið skynsamlegt að reyna færa þetta mál til þess vegar að verktakagreiðslurnar og launagreiðslurnar væru jafnsettar í raun hvað stuðning varðar.

Til upprifjunar var lögð fram breytingartillaga við 2. umr. málsins í desember síðastliðnum þar sem var lagt til að endurgreiðsluhlutfall í tengslum við verktakasamninga yrði hækkað og sú breytingartillaga var felld. Ef ég man rétt var það einfaldlega á grundvelli þess að það var augljóst að verið var að skammta naumar en ég held að þingviljinn hafi raunverulega verið hvað það varðar að styðja við verktakagreiðslurnar hjá íþróttafélögum. Ef málið kemur til frekari skoðunar þætti mér skynsamlegt að litið yrði til þess hvort ekki væri ástæða til að jafna þetta hlutfall núna, bara í ljósi þess að það hefur raunveruleg áhrif. Ef ég man rétt, þó að ég hafi tillöguna ekki hjá mér núna, þá held ég að tillagan hafi gengið út á að hækka viðmiðunarhlutfallið úr 70% í 90% og sú 20 prósentustiga hækkun hallar í að vera 30% viðbót ofan á þann stuðning sem verktakagreiðslurnar njóta eða kalla fram. Ég ítreka að ef málið gengur aftur til nefndar þá held ég að það væri ástæða til að skella því upp í excel og leggja fram breytingartillögu við 3. umr., við lokafrágang málsins, þar sem þetta yrði jafnað. Ég átta mig á því núna að við erum auðvitað í 3. umr. en ekki 2. umr. en það breytir því ekki að þessi breytingartillaga gæti komið fram ef vilji er til þess.

En þá að því atriði sem ýmsum þótti undarlegt strax í desember en má vera að sé tæknilegs eðlis þegar á reynir. Það er að þetta sé sett fram og gert í gegnum félagsmálaráðuneytið að fullu, og Vinnumálastofnun. Þegar mælt var fyrir grunnmálinu í þessu, sem nú er verið að gera framlengingu á, var rökstutt ítarlega að horft væri til þess að þessir þættir færu í gegnum menntamálaráðuneytið og sjóði þar. Hér segir, í ræðu hæstv. félagsmálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að þetta frumvarp sé skoðað í því ljósi að það er eitt púsl í þeirri mynd sem við komum með núna gagnvart íþróttunum. Menntamálaráðherra mun óska eftir því við þingið að fá samþykkta heimild til þess að auka það fjármagn sem úthlutað verður í gegnum þessa tekjufallsstyrki og það kemur væntanlega til afgreiðslu í gegnum fjárlög og vonandi verður það samþykkt.“

Ég gef mér að færðar hafi verið inn í málið fjárveitingar sem voru ætlaðar í gegnum menntamálaráðuneytið, því ég held að það sé staðreynd að þar hafi ekkert komið í gegn til að mæta skakkaföllum íþróttahreyfingarinnar. Hæstv. félagsmálaráðherra hélt áfram í sömu ræðu, með leyfi forseta:

„Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni hvers vegna verktakagreiðslurnar eru ekki inni í frumvarpinu núna, hver rökin voru fyrir því og hvaðan þær breytingar komu.“

Síðar segir ráðherrann, með leyfi forseta:

„Við tökum hins vegar frá fjármagn sem verður líka beðið um í þinginu, til að mæta verktakagreiðslum sem er u.þ.b. sama fjárhæð og gert er ráð fyrir að þetta frumvarp kosti.“

Ráðherrann heldur svo áfram:

„Af því að menn velta fyrir sér gagnsæinu á slíkri úthlutun þá reikna ég með því að það verði eitt af því sem menntamálaráðherra mun útlista þegar þingið ákveður að veita henni heimild til að setja fé til þess verkefnis.“

Eins og ég kom inn á áðan var gerð breyting á því og allt fór það í gegnum félagsmálaráðuneytið þegar á reyndi. En ástæðan fyrir að ég er að nefna þetta hérna er að það hefur verið mikill sláttur á tilteknum ráðherrum undanfarið þar sem ríkissjóður hefur verið eins galopinn og nokkur kostur er hvað það varðar að tryggja sér stuðning ákveðinna hópa en þarna var alveg greinilegt í byrjun að það var enginn sérstakur skilningur á því hjá ríkisstjórninni að verktakahluti íþróttahreyfingarinnar þyrfti á því að halda að fá sambærilegan stuðning og launamannahlutinn, því það blasti við. Þess vegna er auðvitað brugðist við þessu að áeggjan okkar í stjórnarandstöðunni. Það er brugðist við því vegna þess að þetta blasir svo við. Það sem mér þótti mjög undarlegt í desember var að þessi skilningur væri ekki til staðar. Auðvitað ætti hann að vera til staðar í menntamálaráðuneytinu, hjá menntamálaráðherra, því það er auðvitað það ráðuneyti sem er í stöðugum samskiptum við þá sem höndla með þessa hluti. En þetta var staðan rúmum tíu mánuðum eftir að faraldurinn brast á og það er í besta falli undarlegt að skilningsleysið á stöðunni hafi verið með þeim hætti sem birtist í frumvarpinu eins og mælt var fyrir því hinn 3. desember síðastliðinn.

Í desember þegar upphaflega málið var staðfest, sem nú er verið að framlengja, sagði hæstv. félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, í umræðu um hvers vegna ekki væri hugað að því að verktakahluti íþróttahreyfingarinnar falli undir löggjöfina, með leyfi forseta:

„Á þeim grunni og líka á þeim grunni að Vinnumálastofnun er að sýsla með launagreiðslur, er að vinna með launamönnum en ekki með verktökum, var ákveðið að gera breytingar, að leggja frumvarpið fram með þeim hætti hér að það fjármagn sem ætlað væri til verktakagreiðslna færi í sérstakan sjóð sem greitt væri út úr af hálfu menntamálaráðherra. Hér næðum við utan um launagreiðslurnar. Ég geri ráð fyrir því að þegar óskað verður eftir fjárheimild frá þinginu til að veita þá fjármuni til menntamálaráðherra sem veitir þá þaðan til íþróttahreyfingarinnar verði gerð grein fyrir því hvaða skilyrði fylgja því fé.“

Það var alveg ljóst í desember að ætlan ríkisstjórnarinnar var að skilja verktakahluta íþróttahreyfingarinnar eftir hvað þetta mál varðar. Vissulega voru uppi áform um að settur yrði peningur í sjóð sem menntamálaráðherra úthlutaði úr en það hefur á köflum gengið eins og það hefur gengið.

Ég vil bara nota þetta tækifæri, af því að það er ekki mikið eftir af ræðu minni, til að hrósa félögum mínum í stjórnarandstöðunni fyrir að hafa fært þetta mál til miklu betri vegar en raunin var í upphafi. Ég held að það hafi skipt gríðarlega miklu máli fyrir íþróttahreyfinguna í landinu. Það hefur verið algjört lykilatriði að verktakahluti launakostnaðar, starfskostnaðar íþróttahreyfingarinnar, hafi verið felldur undir þetta mál. Ástæðan fyrir því að ég rifja upp þessa afstöðu hæstv. félagsmálaráðherra í byrjun málsins er að þetta skiptir máli. Vilji ríkisstjórnarinnar stóð í upphafi ekki til þess að láta verktakagreiðslurnar falla hér undir. Þetta var eitt af því sem lagaðist verulega í meðförum þingsins að áeggjan stjórnarandstöðunnar og sú breyting sem varð á þessu máli ætti auðvitað undirstrika það hversu oft því tækifæri hefur verið glutrað niður að hlusta á a.m.k. hluta stjórnarandstöðunnar um þær lausnir sem lagðar eru fram, í stað þess að þurfa síðan að taka lausnirnar upp í einhverjum grímubúningi eða felulitum nokkrum vikum eða mánuðum síðar. Þessa umræðu þekkjum við auðvitað frá undanförnum vikum og mánuðum og það hefur ítrekað komið upp.

Ég ætla bara aftur, í ljósi þess hversu vel þessi leið hefur virkað og að nú sé hún framlengd um fjóra mánuði, að hrósa okkur í stjórnarandstöðunni fyrir að hafa lagað málið í slíku grundvallaratriði sem hér um ræðir strax í desember og ég held að það hafi verið íþróttahreyfingunni til mikilla heilla.