151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[16:29]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Í desember var hv. þingmanni þakkað fyrir breytingartillöguna á sama tíma og þingmenn sögðust hafa greitt atkvæði gegn henni í þeirri trú að málið færi aftur til nefndar og að um málið væri full samstaða. Þetta var alger sirkus í desember, en síðan kom breytingartillaga nefndarinnar. Þar náðist samstaða um að gera efnislega það sem hv. þingmaður lagði til varðandi launatengdu gjöldin. Mér hefði þótt mjög gott ef við hefðum núna á þessum tímapunkti fengið sömu niðurstöðu varðandi breytingartillögu sem var felld í 2. umr. þessa frumvarps varðandi rétt stúdenta til atvinnuleysisbóta í námshléum. Það hefur verið nánast fullt starf fyrir stúdentahreyfinguna að skrifa umsagnir um akkúrat þetta atriði síðasta árið til þingsins og aldrei hefur hún hlotið áheyrn hjá stjórnarliðum. Við í stjórnarandstöðunni höfum verið ágætlega dugleg að hlusta en stjórnarþingmannaarmur velferðarnefndar fékkst ekki til að hlusta, þótt það væri ekki nema í þetta eina síðasta skipti fyrir sumarið.