151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[17:07]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel bæði mjög rétt og mjög skynsamlegt hjá hv. þingmanni að ganga út frá því að hagkerfið verði ekki eins eftir þennan faraldur. Ég ætla samt að fá að halda því fram að í þessum faraldri hafi ekkert gerst sem hefði ekki gerst hvort eð er heldur hraðaði þetta ferlinu bara umtalsvert. Allt í einu voru miklu fleiri komnir á fjarfundi úti um allan heim, staðsetning hætti að skipta máli fyrir marga geira og það opnuðust alls konar möguleikar á sveigjanlegra vinnuumhverfi og þess háttar. Þegar hv. þingmaður talar um hvata held ég að hvatarnir séu til staðar. Hver og einn einstaklingur vill gera gagn í sínu samfélagi og í sínu lífi, bæði fyrir sig og samfélagið sitt. Ég held að það hafi aldrei breyst, fólk vill vinna, fólk vill vera duglegt. En ég óttast, og það var kannski uppistaðan í ræðu minni, að búið sé að búa til ákveðna umgjörð utan um lúterskt vinnusiðferði sem þróast ekki jafn hratt og er ekki jafn sveigjanleg og þær kröfur sem ungt fólk gerir í dag og meira að segja fólk sem er korter í miðaldra eins og ég sjálfur sem vill sveigjanlegra vinnuform og vill hafa meiri möguleika á því að haga hlutum í samræmi við sinn áhuga, sína menntun og sína þekkingu. Það að þetta skuli vera svona ósveigjanlegt er farið að valda skaða og mun valda meiri og meiri skaða þangað til að Alþingi ákveður að taka sig til og endurskoða þetta. Bara til að svara á einfaldan hátt held ég að það sé ekki skortur á hvötum. Hvatarnir eru þarna (Forseti hringir.) en hvatarnir af hálfu samfélagsins eru eitt sett meðan hvatarnir í lögunum eru aðrir (Forseti hringir.) og verri og í mótsögn.