151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[17:55]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fram kemur þetta er sjöunda umsögn stúdentaráðs um þetta mál. Þær bara verða betri og betri, þessar umsagnir frá þeim. Það kann að vera að eitthvað af þessu sé einhver rómantík um að vera undir súð einhvers staðar, eiga vart til hnífs og skeiðar og lesa heimspeki og læknisfræði, ég veit það ekki. Ég veit bara að þetta kerfi hyglar þeim ríku og bitnar á efnaminna fólki. Lánasjóður íslenskra námsmanna, sem svo hét, var baráttumál verkalýðshreyfingarinnar. Það var baráttumál sósíaldemókrata og náðist í gegn í menntamálaráðherratíð Gylfa Þ. Gíslasonar. Það var mikill sigur og mikið byltingarafl fyrir íslenskt samfélag. Vegna þess að þá var í rauninni loksins komið fram afl sem gerði fólki frá efnaminni heimilum kleift að brjótast til mennta og það skipti raunverulega máli í lífi ótal fjölskyldna. Þetta bylti íslensku samfélagi um hríð. En nú erum við einhvern veginn komin aftur á sama stað. Af því að ég var að tala hér áðan um að ástandið væri eins og í kringum iðnbyltinguna í samskiptum launamanna og atvinnurekenda er það líka orðið þannig, eða er að þróast út í að verða þannig, að það er eingöngu ungt fólk sem á öflugan fjárhagslegan bakhjarl í foreldrum eða öðru sem getur komið sér upp heimili, sem er nú bara grunnþörf. Getur komið sér upp heimili og getur menntað sig sómasamlega landi og lýð til heilla.