151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[18:12]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir þessa ígrunduðu ræðu. Auðvitað væri ástæða til að spyrja hann út í margt og mikið, ekki síst varðandi hans framtíðarsýn sem hann reifaði hérna. En í þessari fyrri umferð langar mig til að kanna afstöðu hv. þingmanns til þess að þegar kemur að íþrótta- og æskulýðsstarfi er þetta frumvarp bundið við íþróttahreyfinguna. Hún er auðvitað gríðarlega mikilvæg og það er ánægjulegt að hún skuli njóta þess skilnings sem frumvarpið ber með sér. En það er annars konar æskulýðsstarf sem er skipulagt og er ekki síður mikilvægt og það eru auðvitað margir sem finna sér farveg annars staðar en á vettvangi íþrótta í sínum æskuþrótti og leita að viðnámi fyrir sína krafta. Það liggur til að mynda fyrir mjög vönduð umsögn frá KFUM og KFUK þar sem bent er á að starfsemi þeirra, sem ég ætla að leyfa mér að lýsa sem mjög mikilvægri, fellur utan laga nr. 155/2020. Þau benda sömuleiðis á að skátahreyfingin falli þarna utan við og sjálfsagt eru það þá fleiri.

Ég er því áhugasamur um að heyra viðhorf hv. þingmanns í þessu efni og hvaða augum hann sér þetta atriði.