151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[19:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þingmanni að það eru ýmsar jákvæðar breytingar sem fylgja þessu máli og þessum lögum þó að við séum hér að ræða vankantana sem felast í því sem er ekki hérna, einfaldlega vegna þess að sumt af því sem ætti að vera hérna finnst okkur bara svo augljóst að ætti að vera fyrir hendi. Þingmaðurinn nefnir æskulýðsmálin, og þar tek ég heils hugar undir honum. Þegar við tölum um að stúdentar hafi rétt til að taka fjármuni út úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem stúdentar hafa greitt inn í, þá erum við ekkert að tala um neinar róttækar breytingar, við erum einfaldlega að tala um að fólk missi ekki réttindi sem hver einasti annar aðili á vinnumarkaði hefur, einfaldlega vegna stöðu sinnar í háskóla. Þar að auki er náttúrulega frábært ef allar atvinnuskapandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar skila árangri og það verður bara nóg af störfum fyrir námsmenn í sumar. Þá þurfa þau ekkert að nýta sér réttinn til að fara á atvinnuleysisbætur. Samt þurfum við að hafa hann inni í lögunum sem öryggisnet til þrautavara ef hitt grípur þau ekki.

Hv. þingmaður var að spá í hvort við gætum mögulega náð saman um einhverja breytingartillögu þess efnis. Ég held ekki. Þetta kolféll hér í 2. umr. Þetta hefur kolfallið sennilega í flest af þeim sjö skiptum sem Stúdentaráð hefur sent umsagnir þessa efnis til okkar. Það er einfaldlega ekki vilji (Forseti hringir.) hjá stjórnarflokkunum til að hlusta á stúdenta og láta þau hafa það sem þau þurfa, það sem þau segjast sjálf þurfa, vegna þess að ríkisstjórnin þykist vita betur hvað þau þurfa.