151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[19:43]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, nú erum við komin í það að giska á hvað vaki fyrir stjórnvöldum. Ég er að reyna að rifja upp hvernig umræðan var þegar við samþykktum lög um Menntasjóð námsmanna. Það kom alveg skýrt fram frá stúdentahreyfingunni að stærstu breytingarnar í frumvarpinu væru ekki í þágu þeirra sem væru í námi á þeim tíma heldur miklu frekar þeirra sem væru eldri og farnir að greiða til baka af námslánum. Þar voru stóru og dýru skrefin stigin. Þetta angar allt af því að það hafi kannski reynst ráðuneytinu auðveldara að hlusta á skjólstæðinga sem standa starfsmönnum þar nær í aldri og samfélagsstöðu en stúdentana sjálfa, sem er ekki gott, alls ekki. En þegar við samþykktum lögin var líka talað um að þá yrði þegar farið í að endurskoða grunnframfærsluna vegna þess að hún er einfaldlega of lág, alveg óháð því hvort íslenskir stúdentar eru eldri en stúdentar í öðrum löndum og óháð stöðu þeirra. Þeir eru eldri, eiga frekar húsnæði og eru frekar með framfærsluskyldu gagnvart börnum en jafnaldrar þeirra í öðrum löndum Evrópu en grunnframfærslan er einfaldlega of lág. Grunnframfærsla fyrir einstæðan stúdent sem býr í eigin húsnæði er 180.000 á mánuði. Það er bara ekki nóg. Þarna getum við líka farið að velta fyrir okkur ósamræminu sem er á milli upphæða í framfærslukerfunum okkar, af hverju 180.000 fyrir stúdenta en aðrar grunnframfærslutölur fyrir fólk sem er í öðrum tímabundnum aðstæðum?