151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.

585. mál
[21:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, um mennta- og menningarmál. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum er heyra undir málefnasvið mennta- og menningarmálaráðuneytis til að skýra nánar heimildir stofnana sem heyra undir ráðuneytið til vinnslu persónuupplýsinga til samræmis við kröfur laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sérstaklega um skýrleika lagaákvæða sem heimila vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga.

Umfjöllun nefndarinnar var m.a. um heimildir framhaldsskóla, grunnskóla og heimildir fjölmiðlanefndar. Í 1. efnismálsgrein 1. töluliðar 5. gr. frumvarpsins er fjallað um heimildir framhaldsskóla til vinnslu persónuupplýsinga, m.a. í tengslum við viðburði á vegum nemendafélaga samkvæmt 39. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram um 5. gr. þess að skólameistara sé veitt heimild til að vinna með upplýsingar í tengslum við starfsemi nemendafélaga. Meiri hlutinn áréttar að ábyrgðaraðili vinnslu er almennt sú stofnun sem tekur ákvörðun um tilgang og aðferðir við vinnslu en ekki einstakir starfsmenn, til að mynda skólameistari. Koma framangreind sjónarmið einnig fram í umsögn Persónuverndar við frumvarpið. Ljóst er því að ábyrgðin liggur hjá viðkomandi framhaldsskóla en ekki skólameistara eins og segir í greinargerð.

Hvað varðar heimildir fjölmiðlanefndar til vinnslu persónuupplýsinga þá er það að því marki sem hún er nauðsynleg við athugun á þeim málum sem nefndin vinnur að þegar hún rækir hlutverk sitt samkvæmt lögum. Nefndinni er heimil vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar, kynhneigð og kynhegðun vegna kvartana sem henni berast á grundvelli brota fjölmiðlaveitna gegn grundvallarréttindum einstaklinga um friðhelgi einkalífs og annarra mannréttinda. Meiri hlutinn áréttar að í greininni felst ekki opin heimild til handa fjölmiðlanefnd til vinnslu framangreindra persónuupplýsinga heldur einungis í þeim tilvikum þegar henni berast kvartanir um framangreind mannréttindabrot fjölmiðlaveitna. Greinin felur í sér heimild fjölmiðlanefndar til að taka við slíkum kvörtunum og vista framangreindar upplýsingar í málaskrá.

Meiri hlutinn gerir breytingar hér sem varða bæði leikskóla og grunnskóla og heimildir þeirra. Í 1. gr. frumvarpsins er fjallað um heimildir leikskóla, skólaþjónustu og annarra aðila sem hafa lögbundið hlutverk samkvæmt lögum um leikskóla, nr. 90/2008, til öflunar og miðlunar persónuupplýsinga. Í greininni er ekki gert ráð fyrir lögmætri miðlun gagna til frístundaheimila, eins og Reykjavíkurborg bendir sérstaklega á í umsögn sinni. Frístundaheimili er frístundavettvangur barna eins og hann er skilgreindur í 33. gr. a laga um grunnskóla, nr. 91/2008. Meiri hlutinn áréttar að þegar barn færist úr leikskóla í grunnskóla og hefur dvöl á frístundaheimili getur verið þörf á miðlun persónuupplýsinga til að tryggja samfellu í þjónustu innan skólakerfisins, enda sé slík miðlun nauðsynleg til þess að þessir aðilar geti gegnt hlutverkum sínum. Meiri hlutinn leggur til breytingar þess efnis.

Í 4. gr. frumvarpsins er fjallað um heimildir grunnskóla, skólaþjónustu og annarra aðila sem hafa lögbundið hlutverk samkvæmt lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, til vinnslu, öflunar og miðlunar persónuupplýsinga o.fl. Í greininni er ekki gert ráð fyrir lögmætri miðlun gagna til framhaldsskóla. Meiri hlutinn telur mikilvægt að við lok grunnskólanáms verði grunnskólum gert skylt að bjóða að eigin frumkvæði nemendum, foreldrum eða forsjáraðilum í skilningi barnalaga miðlun þeirra upplýsinga um nemendur sem unnar hafa verið eða aflað á grundvelli greinarinnar til framhaldsskóla. Grunnskólar skuli bjóða framangreint en forsenda miðlunar á milli þessara tveggja skólastiga er undangengið samþykki nemenda, foreldra og forsjáraðila. Þessu almenna ákvæði er ekki ætlað að hafa áhrif á sérreglu 2. mgr. 27. gr. laganna, þar sem miðlun vitnisburðar vegna flutnings nemenda milli skóla og innritunar í framhaldsskóla er heimil, heldur taka til annarra upplýsinga, t.d. vegna sérúrræða. Þá skal miðlunin vera í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Meiri hlutinn leggur til breytingar þess efnis.

Aðrar breytingar sem hér eru lagðar til af hálfu meiri hlutans eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa áhrif á efni frumvarpsins og þær má finna á þskj. 1609.