151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[16:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Fyrirgefið að ég trufli þetta partí hérna en hér er fúlasta alvara í gangi. Það er búið að kippa dagskrá þingsins úr sambandi. Á meðan getur þingið ekki sinnt sínu eftirlitshlutverki gagnvart ráðherrum og ríkisstjórn. Hver er staðan núna hjá ríkisstjórninni, hjá félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra sem eru að tala um að tengja saman kerfi, að kerfin tali saman, ekki síst út af fötluðum börnum? Það eru að birtast núna fréttir um krakka, fötluð börn sem eru að útskrifast úr grunnskóla og þau fá ekki inni á starfsbrautum. Svo er afsökunin að allt í einu séu árgangarnir allt of fjölmennir. Þetta hefur verið vitað í 16 ár. Hvar hafa ráðherrarnir verið? Í þessari áætlun félagsmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar um börn hafa fötluð börn gleymst. Núna eru það 30 börn, ungmenni sem hafa verið fötluð frá fæðingu — ekki að það sé að koma eitthvað á óvart, og það hefur verið vitað í 16 ár að skólakerfið þyrfti að mæta þessum þörfum — (Forseti hringir.) sem standa út af. Svo á þingið ekki að vera starfandi og getur ekki veitt ríkisstjórninni aðhald? (Forseti hringir.) Hvað er þetta eiginlega, herra forseti?

(Forseti (GBr): Forseti minnir á að hér er til umræðu fundarstjórn forseta.)