151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[17:04]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við höldum hér áfram. Klukkan er ekki enn þá komin í gang, það er vitað, er það ekki? Ég tel mig eiga fimm mínútur hér en ekki 51.

Förum aftur inn í þetta mál sem fjallar um mansal. Frumvarpið sem liggur fyrir þinginu er mjög gott frumvarp eins og fram hefur komið. Ítrekað hefur verið vitnað til skýrslu um skipulagða brotastarfsemi. Þær eru nokkuð margar þessar skýrslur og vel hægt að rekja samfélagsbreytingar og söguna og til hvers þurfi að grípa þegar við erum að fást við svona alvarlega brotastarfsemi.

Í skýrslunni sem var gefin út í maí 2019, á bls. 10, er fjallað um smygl á fólki, mansal og vændi og tekið er fram að glæpahópar í Evrópu virðast tengdir ákveðnum þjóðarbrotum. Sérstaklega er fjallað um rúmenska og albanska hópa sem eru þar umsvifamiklir. Þeir skipuleggja ýmsa glæpastarfsemi, t.d. sölu eiturlyfja, stunda peningaþvætti og skipulagðan þjófnað. Þeir geta með auðveldum hætti, að því er virðist, þvingað flóttafólk til afbrota til að standa að baki þessari starfsemi þannig að þeir minnki í rauninni eigin áhættu. Það er dálítið ljótt að lesa.

Síðan er tekið til þess að vændi hafi aukist hér á landi á síðustu þremur árum og það muni haldast í hendur við uppgang í efnahagslífi þjóðarinnar. Það sem við ræddum um hér og lögreglan hefur einnig fjallað um er að í fyrstu snerist þetta um vöxt, t.d. byggingariðnaðar. Þá nýttu þeir sér hann til að koma sínu fólki að. Síðan varð vöxtur í ferðaþjónustu og þeir komu sínu fólki að. Hugsanlega getur vöxtur í því sem snýr að aukinni þörf fyrir alþjóðlega vernd orðið til þess að þeir komi sér líka fyrir þar. Þetta helst allt í hendur. Það er eiginlega mjög nauðsynlegt að við náum að sjá þessa þætti í því samhengi. Það er ekkert endilega vegna þess að fólk sé að koma hingað að við viljum ekki veita því vernd, heldur þurfum við að ná að sjá í gegnum það og vita og gera okkur grein fyrir því að þessir skipulögðu glæpahópar nýta sér hvaða vöxt sem er þar sem þeir sjá möguleika á því að koma sér niður.

Ef farið er í að skoða hvað það er sem mansal tekur til, þ.e. að útvega fólk og flytja það, afhenda, hýsa eða að taka við, segir hér að það séu ólögmætar nauðungar og frelsissviptingar og svo jafnvel blekkingar. Það er fjallað um kynferðislega misnotkun, nauðungarvinnu og brottnám líffæra. Þetta eru stór orð og stór mál. Í skýrslunni frá 2019 segir líka að Ísland sé áfangastaður fyrir mansal. Ekki er talað um að Ísland sé einhver millilending eða liður heldur er hreinlega verið að segja að það sé áfangastaður fyrir mansal. Þetta skiptir allt mjög miklu máli. Við þurfum að vera vakandi yfir því að þetta gerist þar sem er vöxtur, þar sem er fjöldi fólks, að þeir ætli að koma sér niður.

Það er líka annað sem er dálítið merkilegt. Það er fátítt, eins og segir í skýrslunni, að fórnarlömbin leiti til lögreglu. Ég veit að lögreglan er sjálf farin að huga að því hvernig hún geti beitt sínum aðferðum til þess að hvetja fólk til að segja frá. Mér finnst það vera mjög til bóta. Ég vil hreinlega taka hattinn ofan ef lögreglan nær að snúa þeirri þróun við þannig að fleiri líti á lögregluna sem aðstoð en ekki sem ógn.