151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[17:09]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það er ástæða til að líta aðeins á sögu þess ákvæðis sem við erum að breyta og víkja að dómaframkvæmd. Ákvæðið sem frumvarpið fjallar um er 227. gr. a almennra hegningarlaga, eins og það er merkt. Þetta ákvæði um mansal kom inn í almenn hegningarlög, eins og rakið er í greinargerð með frumvarpinu, með lögum nr. 40/2003, um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Ástæða er til að geta þess að ákvæðinu hefur verið breytt a.m.k. í tvígang. Í seinna skiptið var kveðið á um hækkun hámarksrefsingar og hámarksrefsing fyrir mansal hækkuð úr átta ára fangelsi í 12 ára fangelsi. Í greinargerðinni er rakið að í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 72/2011 sé vísað til dóms Hæstaréttar frá 16. júní 2010 þar sem í fyrsta og eina skiptið, eins og segir í greinargerðinni, hafi verið sakfellt fyrir mansal hér á landi. Með leyfi forseta, segir þar:

„Fimm karlmenn voru dæmdir sekir fyrir hlutdeild í mansalsbroti gegn 19 ára stúlku. Sá sem talinn var eiga stærstan hlut í brotinu var dæmdur í 5 ára fangelsi en hinir fjórir í 4 ára fangelsi hver um sig. Í greinargerðinni kemur fram að af dóminum megi vera ljóst að í mansali felist alvarlegt brot gagnvart þeim einstaklingi sem gert er að þola að vera sviptur frelsi sínu með einum eða öðrum hætti. Í ljósi alvarleika mansalsbrota og með hliðsjón af refsingum sem liggja við brotum gegn 194. gr. (um nauðgun) og 226. gr. (um frelsissviptingu) almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, var hámarksrefsing fyrir mansal hækkuð úr 8 ára fangelsi í 12 ára fangelsi.“

Í greinargerðinni er rakið að í frumvarpinu séu lagðar til breytingar á umræddri 227. gr. a sem lúta að refsinæmi mansals í þeim tilgangi að bæta enn frekar vernd þolenda og auðvelda málsókn á hendur þeim sem ábyrgir eru fyrir brotunum. Rakið er að við breytingarnar hafi sérstaklega verið tekið mið af þróun löggjafar annars staðar á Norðurlöndunum, annarri skýrslu sérfræðingahóps Evrópuráðsins, GRETA, um Ísland, og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/36/ESB til að koma í veg fyrir og berjast gegn mansali og vernd brotaþola og nánar tilgreindum samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Ég er kominn að lokum máls míns, herra forseti, og vil ljúka þessari umfjöllun með eindreginni hvatningu til þess að af hálfu stjórnvalda verði ekkert til sparað í baráttu gegn skipulagðri brotastarfsemi þannig að lögreglu séu fengin þau tæki og tól, búnaður, mannafli, heimildir og annað sem er fallið til þess að ná árangri í þessari baráttu