151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[17:20]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um þetta mansalsmál og stöðu lögreglunnar í þessum málum og ákall hennar um frekari fjármögnun til að geta ráðið fleiri lögreglumenn, ekki síst núna. Eftir að stytting vinnuvikunnar var gerð að lögum kallar það á fleiri störf hjá lögreglunni. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Ég var að lesa mér til í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá því í maí 2019. Mig langar til að grípa aðeins niður í kafla úr henni þar sem fjallað er um vinnumarkaðsbrot. Þar segir, með leyfi forseta:

„Greiningardeild ríkislögreglustjóra fjallaði um hugtakið „vinnumarkaðsafbrot“ í skýrslu ársins 2017. Með því er leitast við að þýða hugtak sem viðtekið er á Norðurlöndum (n. Arbeidsmarkedskriminalitet).

Á vettvangi stéttarfélaga hefur á síðustu misserum verið leitast við að bregðast við félagslegum undirboðum og réttindabrotum á vinnumarkaði. Meðal birtingarmynda félagslegra undirboða eru:

Ólögleg sjálfboðaliðastarfsemi

Launastuldur

Ófullnægjandi ráðningasamningar

Misnotkun á vinnandi fólki

Brot á ákvæðum um hvíldartíma

Óviðunandi aðbúnaður

Misnotkun í tengslum við útleigu íbúðarhúsnæðis í eigu atvinnurekanda.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra telur að álykta megi að tíðni vinnumarkaðsafbrota haldist að mestu í hendur við þann fjölda útlendinga sem er við störf í landinu á hverjum tíma. Sumarið 2018 voru útlendingar við störf á Íslandi aldrei fleiri. Undanfarin misseri hefur skort starfsfólk á tilteknum sviðum atvinnulífsins í landinu líkt og „starfsmannaveitur“ eru til vitnis um. Því fylgja auknar kröfur gagnvart lögreglu og eftirlitsstofnunum á vinnumarkaði. Greiningardeild ríkislögreglustjóra telur sýnt að skortur á eftirliti á þessu sviði sé beinlínis til þess fallinn að auka umfang „svartrar atvinnustarfsemi“ og vinnumarkaðsafbrota gagnvart aðfluttum. Á hinn bóginn er þessi málaflokkur um margt flókinn og erfiður, ekki síst sökum menningarmunar, tungumálaörðugleika, sjálfboðavinnu og regluverks m.a. um svonefndar „starfsmannaveitur“ sem eru umsvifamiklar á íslenskum vinnumarkaði.

Lögreglu er kunnugt um að umsækjendur um alþjóðlega vernd stundi í einhverjum tilvikum „svarta atvinnu“ hér á landi. Í þessum tilvikum geta viðkomandi verið þolendur vinnumarkaðsafbrota og jafnvel sætt alvarlegri misnotkun. Þá eru einnig vísbendingar um að einstaka atvinnurekandi sjái ódýrt vinnuafl í umsækjendum um alþjóðlega vernd.“ — Þetta er athyglisvert. „Fá mál þessa efnis hafa á hinn bóginn ratað á borð lögreglu.“

Síðan er talað um peningaþvætti og annað slíkt. Það er mjög athyglisvert að lesa þessa skýrslu. Hún fer yfir alla þá þætti sem lögreglan hefur þurft að búa við og er í auknum mæli að hasla sér völl í þeim lið sem við erum að fjalla um hér og varðar m.a. mansal. Því vil ég enn og aftur árétta ákall lögreglunnar um að hægt verði að ráða til starfa fleiri lögreglumenn til að ná utan um þennan þátt sem fer vaxandi á Íslandi, þ.e. afbrot af þessum meiði.