151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[17:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Í fyrri ræðu um þetta mál kom ég inn á mikilvægi þess að líta á heildarmyndina í þeirri viðleitni að taka á þeim alvarlegu glæpum sem mansal er og rakti með hvaða hætti önnur brotastarfsemi skipulagðra glæpagengja getur haft þar áhrif á. Ég var þó aðeins búinn að nefna mjög afmarkaðan hluta þess, því að allt eru þetta í rauninni afbrot sem tengjast meira og minna, eins og kemur fram í skýrslum lögreglunnar. Það er tiltölulega fátítt að þessir glæpahópar einskorði brotastarfsemina við eina afmarkaða tegund afbrota. Nefna má fíkniefni sem eru í mörgum tilvikum tengd mansali og glæpamennirnir leitast jafnvel við að gera fórnarlömb sín háð fíkniefnum til að hafa betri stjórn á þeim, eða eins og reyndar hefur aðeins komið fram í umræðunni, þvinga þau til að taka þátt í flutningi og sölu slíkra efna.

Þá vekur það auðvitað furðu að á sama tíma og hér er verið að taka á einum þætti í starfi skipulagðra glæpasamtaka, að takmörkuðu leyti, skuli ríkisstjórnin leggja fram frumvarp sem felur í sér mjög umfangsmikla lögleiðingu fíkniefna í samanburði við það sem önnur lönd hafa gert, frumvarp sem er til þess fallið að auðvelda glæpamönnunum slíkt starf. Það sama mætti segja um önnur afbrotasvið þessara glæpahópa á borð við peningaþvætti, skattsvik og farandbrotahópa. Það þarf að líta á þetta allt í heild til að geta náð árangri í baráttunni við hvert svið glæpa fyrir sig.

En þetta er auðvitað erfitt vegna þess að sérstaklega í tilviki mansals er fátítt að fórnarlömb leiti til lögreglu. Það kemur skýrt fram í skýrslum lögreglunnar. Því þarf lögreglan, við að kortleggja þennan vanda, að byggja á upplýsingum sem hún aflar sér með öðrum hætti en með því að fram komi kærur. Möguleikar lögreglunnar á því þurfa auðvitað að vera til staðar, m.a. með mannafla sem sinnir baráttu við skipulagða glæpastarfsemi sérstaklega.

Áðan vitnaði ég aðeins í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá 2017. Ég ætla aðeins að grípa niður í framhaldsskýrsluna frá 2019, en þar segir, með leyfi forseta:

„Ólöglegir fólksflutningar og smygl á fólki eru liður í umsvifum skipulagðra glæpasamtaka. Glæpahópar sem starfa yfir landamæri og hafa komið sér fyrir í mörgum ríkjum Evrópu eru umsvifamiklir á þessu sviði. Upplýsingar lögreglu benda til þess að erlendir ríkisborgarar hafi verið fluttir til Íslands með skipulögðum hætti til að sæta mansali og misneytingu. Árið 2018 hófst umfangsmikil mansalsrannsókn. Virðist sem erlendur einstaklingur hafi skipulega flutt fólk yfir landamæri víða um heim og loks til Íslands.“

Svo er rakið með hvaða hætti kerfin hér, hælisleitendakerfið og velferðarkerfi landsins, eru misnotuð af þessum aðilum og segir í lok kaflans, með leyfi forseta:

„Lögreglu er kunnugt um að umsækjendur um alþjóðlega vernd stundi í einhverjum tilvikum „svarta atvinnu“ hér á landi. Í þessum tilvikum geta viðkomandi verið þolendur vinnumarkaðsafbrota og jafnvel sætt alvarlegri misnotkun. Þá eru einnig vísbendingar um að einstaka atvinnurekandi sjái ódýrt vinnuafl í umsækjendum um alþjóðlega vernd.“ (Forseti hringir.)

Fá slík mál hafa hins vegar ratað inn á borð lögreglu vegna þess að þau hafa ekki verið kærð. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég verð víst að ljúka máli mínu, tími minn er liðinn.