151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

slysatryggingar almannatrygginga.

424. mál
[17:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisræðu og yfirferð í þessu mikilvæga máli. Ég fagna því sérstaklega að verið sé að leggja til orðalagsbreytingu sem ætlað er að leggja áherslu á að löggjöfin nái ekki aðeins til slysa heldur einnig til atvinnusjúkdóma sem ekki orsakast af slysum. Ég tel það mjög jákvætt skref. Síðan er í greinargerð fjallað um einstakar greinar frumvarpsins, þar er farið nánar yfir þetta. Um 5. gr. segir t.d. að verið sé að leggja aukna áherslu á að lögin gildi einnig um bótaskylda atvinnusjúkdóma. Það er vel og er með því lögð áhersla á það grundvallaratriði að sjúkdóm verði að vera hægt að rekja til starfs. Það er samkvæmt orðanna hljóðan, atvinnusjúkdómur tengist náttúrlega starfi. Síðan segir:

„Í 2. mgr. er lagt til að ráðherra skuli setja reglugerð þar sem fram kemur hvaða atvinnusjúkdómar skuli teljast bótaskyldir.“

Það væri gott ef hv. þingmaður gæti farið aðeins betur yfir þetta verkferli. Maður veltir því fyrir sér: Er sú hætta ekki fyrir hendi að einhverjir hópar verði undanskildir? Nú veit ég t.d. að slökkviliðsmenn, sem eru mjög útsettir fyrir starfsumhverfi sem vísindalega hefur verið sannað að eykur líkur á heilsubresti, meðal annars krabbameini, komu fyrir nefndina og lögðu ríka áherslu á að tiltekin krabbamein meðal slökkviliðsmanna yrðu viðurkennd sem atvinnusjúkdómur. Hvernig eiga þeir að bera sig að til þess að verða viðurkenndir á þessum lista? Hvernig gengur þessi reglugerð fyrir sig, (Forseti hringir.) varðandi þá sjúkdóma sem taldir eru upp í henni? Ef hv. þingmaður gæti farið yfir það.