151. löggjafarþing — 112. fundur,  12. júní 2021.

nýting á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni.

538. mál
[02:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég kem þessu á framfæri vegna þess að stundum getur óskýrleiki í lagatexta orðið til vandræða síðar, ég held að hv. þingmaður hafi farið ágætlega yfir það hér. Í síðara andsvari langaði mig aðeins að koma inn á það hvað það er sem veldur því að við fáum umsögn frá t.d. Húnavatnshreppi sem segir að þeir geti ekki fallist á frumvarpið í núverandi mynd vegna þess að ekki hafi verið haft nógu mikið samráð og ég veit að hv. þingmaður kom inn á þetta í sinni ræðu og þeir segja t.d. hér að í frumvarpinu sé ekki tekið tillit til þess hvernig ráðstöfunarheimildir á þjóðlendum eru í höndum sveitarfélaga. Þetta er að sjálfsögðu mikilvægt.

Svo er hér setning sem kemur fram, svolítið athyglisverð, af hálfu Húnavatnshrepps, sem veitti ítarlega og langa umsögn um frumvarpið. Þeir segja hér, með leyfi forseta:

„Frumvarpið felur sér í þunglamalega og íþyngjandi stjórnsýslu.“

Ég spyr hvort hv. þingmaður gæti kannski aðeins komið með smáinnlegg varðandi þessa sérstöku athugasemd. Og svo: Hvað er það í ferlinu sem veldur því að það verður þetta samráðsleysi sem hér er lýst? Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að eiga gott samráð við sveitarfélög og þá sérstaklega þau sveitarfélög (Forseti hringir.) sem hafa land að þeim réttindum sem rætt er um í frumvarpinu.