151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

loftslagsmál.

711. mál
[14:23]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Lögfesting á kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 er mjög mikilvægt og gott skref í baráttunni gegn loftslagsvánni og ég styð þetta mál og það gerir þingflokkur Samfylkingarinnar líka. En útfærslan hefði þurft að vera metnaðarfyllri og það hefði mátt nýta ferðina hér og lögfesta áfangamarkmið fyrir árið 2030. Eftir því var kallað í umsögnum og vil ég benda á lögfestingu áfangamarkmiða í Finnlandi þar sem miðað er við áfangamarkmið fyrir árið 2035 og í Noregi þar sem lögfest er áfangamarkmið árið 2030. Lögfesting áfangamarkmiða er dæmi um djarfari aðgerðir og meiri vilja en við sjáum hér. Við þurfum metnaðarfyllri markmið í baráttunni við loftslagsbreytingar og aðgerðir og markmið þurfa að vera tímasett og fullfjármögnuð, í annars góðu máli sem kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 er.