151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[17:06]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og kunnugt er ræðum við hér lagafrumvarp um stofnun miðhálendisþjóðgarðs sem hefur verið eitt af grundvallarmálum umhverfis- og náttúruverndar undanfarin ár og áratugi. Aðdragandi málsins teygir sig nefnilega ár og áratugi aftur í tímann eins og hefur verið rakið í umræðunni nú og þegar málið kom fyrst fram, enda á málið rætur sínar að rekja til stofnunar þeirra góðu þjóðgarða sem Þingvallaþjóðgarður, Vatnajökulsþjóðgarður og Snæfellsnesþjóðgarður eru og sömuleiðis til hugmynda fyrrverandi þingmanna eins og Hjörleifs Guttormssonar og Jónínu Bjartmarz, fyrrverandi umhverfisráðherra, og ekki bara hugmynda heldur líka þingmála og aðgerða miðhálendisþjóðgarði til handa. Það er líka alveg þess virði að minnast á það þegar fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, og núverandi formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Katrín Jakobsdóttir, lögðu bæði fram þingsályktunartillögur um stofnun miðhálendisþjóðgarðs sama dag, 10. september 2015. Sýnir það kannski best hversu samstiga þessir tveir stjórnmálaflokkar hafa verið í nálgun sinni á stofnun og friðlýsingu miðhálendisþjóðgarðs, enda sýnir nýleg skoðanakönnun Landverndar, sem birt var fyrir nokkrum dögum, að mesti stuðningurinn meðal almennings er hjá stuðningsfólki þessara tveggja stjórnmálaflokka.

Herra forseti. Við umhverfisverndarsinnar höfum beðið lengi eftir stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Eins og ég sagði áðan hefur stofnun miðhálendisþjóðgarðs verið eitt helsta baráttumál umhverfisverndarsinna á Íslandi um áratugabil. Það var því gleðilegt þegar frumvarp hæstv. umhverfisráðherra kom loksins fram á þingi og þegar hann mælti fyrir því 8. desember. Sú sem hér stendur hefur og mun ávallt vera mikil stuðningskona þess að stofna þjóðgarð á miðhálendi Íslands enda væri það mikið framfaraspor fyrir okkur öll. — Nú er ég að leita að ræðunni minni, herra forseti. Þetta er allt að koma. Þetta er ekki gott, ég veit það, en þetta er allt að koma. — Það væri líka mikið framfaraspor að friðlýsa einstök, ósnert og óbyggð víðerni miðhálendis Íslands og sýna þeim svæðum þar með þá virðingu sem þau eiga skilið. Með því að friðlýsa allt miðhálendið værum við líka að sýna þeim kynslóðum sem á undan okkur hafa farið og borið hafa hag einstakrar náttúru miðhálendisins fyrir brjósti virðingu og þakkir. En með því að friðlýsa miðhálendið og stofna utan um það þjóðgarð værum við ekki síst að skilja þessa einstöku náttúru á heimsvísu eftir í öruggri umsjón framtíðarkynslóða og tryggja þeim aðgang að því sérstæða svæði sem víðfeðmt hálendi Íslands er á heimsvísu. Hæstv. umhverfisráðherra mælti fyrir málinu í desember síðastliðnum, rúmum þremur árum eftir að kveðið var á um það í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar og eftir alla vega tveggja ára samráðsvinnu og kynningarferli um allt land meðal ólíkra aðila. Það skýtur því skökku við þegar notuð eru rökin um samráðsleysi hjá þeim sem leggjast gegn því að miðhálendisþjóðgarður og lagafrumvarp um hann verði samþykkt hér á Alþingi.

Herra forseti. Þrátt fyrir að markmiðin með frumvarpinu séu, eins og þau koma fyrir í 3. gr. málsins, mörg hver göfug, falleg og frábær, eins og að vernda náttúru og sögu þjóðgarðsins, landslag, víðerni, lífríki, jarðmyndanir, menningarminjar og að tryggja tilvist heildstæðrar vistkerfa og náttúrlega ferla, verð ég að játa að ég hafði og hef beyg af langþráðu frumvarpi um miðhálendisþjóðgarð. Mér finnst nefnilega frumvarpið því miður bera of mikil merki um of mikla eftirgjöf gagnvart þeim öflum sem líta á miðhálendið sem orkugjafa og til orkunýtingar og lagafrumvarpið leggja of mikla áherslu á atvinnuuppbyggingu í tengslum við málið. Mér fannst til að mynda framsaga hæstv. umhverfisráðherra, þegar hann mælti loks fyrir málinu, bera mjög sterk merki um þá nálgun. Að mínu mati varð honum aðeins of tíðrætt um atvinnuuppbyggingu í tengslum við málið þrátt fyrir að ég sé honum sammála um að með stofnun miðhálendisþjóðgarðs geti tækifærum fyrir græna atvinnusköpun fjölgað og verðmæt græn störf skapast. En atvinnuuppbyggingin er ekki og á ekki að vera meginmarkmið með stofnun miðhálendisþjóðgarðs heldur verndarsjónarmiðin.

Mestan beyg og ótta ber ég í brjósti yfir 23. gr. frumvarpsins sem ber skýrust merki eftirgjafar gagnvart orkunýtingaröflunum. Þar vil ég tiltaka málsgrein sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Nýjar virkjanir má starfrækja á jaðarsvæðum Hálendisþjóðgarðs hafi hin nýja virkjun verið skilgreind í orkunýtingarflokki í 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar sem samþykkt hefur verið á Alþingi á grundvelli laga um verndar- og orkunýtingaráætlun og að undangengnu mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna.“

Herra forseti. Það sem þetta þýðir er að galopnað er á byggingu nýrra virkjana á svokölluðum jaðarsvæðum nýs miðhálendisþjóðgarðs.

Um hvað erum við að tala þarna? Jú, virkjunarkostir á jaðarsvæðum miðhálendisþjóðgarðsins á borð við Botnafjöll, Grashaga og Sandfell á Torfajökulssvæðinu eru hér með galopnir fyrir því að vera flutt í nýtingarflokk. Frumvarpið kveður beinlínis á um að heimilt sé að virkja þessa kosti. Þarna eru líka undir Hveravellir á Kili, Hágöngur á miðjum Sprengisandi, Núpsárvirkjun við Núpsá, hin umdeilda Hverfisfljótsvirkjun við Hverfisfljót og Hólmsárvirkjun. Samkvæmt frumvarpinu sem við ræðum hér í dag og höfum rætt áður er enginn þessara kosta lengur undir verndarhatti friðlýsingar miðhálendisþjóðgarðshugtaksins heldur er beinlínis kveðið á um að nýjar virkjanir megi starfrækja á jaðarsvæði þjóðgarðsins og að heimilt sé að virkja kosti í biðflokki í jaðri þjóðgarðsins.

Það getur varla gengið upp, herra forseti, að í langþráðu frumvarpi um miðhálendisþjóðgarð sé beinlínis opnað á nýjar virkjanir í jaðri þjóðgarðsins og að heil grein í lagafrumvarpinu tali um þetta. Þó svo að kveðið sé á um að Torfajökulssvæðið og önnur svæði sem eru nánast hluti af miðhálendisþjóðgarðinum séu í jaðri hans eru þau samt órjúfanlegur hluti af miðhálendinu. Við getum varla slitið það í sundur og sagt: Hérna megin við þennan hól má virkja en hinum megin við hólinn ætlum við að hafa ósnert óbyggð víðerni. Það gengur einfaldlega ekki upp. Það getur varla farið saman við skilgreiningar á þjóðgarði sem kveða á um að allar athafnir og framkvæmdir sem hafa varanleg áhrif á náttúru svæðisins séu bannaðar nema þær séu nauðsynlegar til að markmið friðlýsingar náist. Ég get varla annað en minnst á virkjunarkostinn innan þjóðgarðsins sem enn er haldið inni, Skrokkölduvirkjun sem með tilheyrandi virkjunarbyggingum, uppbyggðum heilsársvegi, línulögnum og stórauknu raski á svæðinu mun brjóta enn frekar upp landslagsheildir á víðerni vestan Vatnajökuls, í jaðri Vatnajökulsþjóðgarðs, við Vonarskarð og inn í fyrirhugaðan miðhálendisþjóðgarð. Það er varla í takti við þær hugmyndir sem fram koma í göfugu markmiðsetningunni með frumvarpinu um að vernda beri ósnert og óbyggð víðerni á miðhálendi Íslands, eða hvað? Það samræmist alla vega ekki hugtakinu samkvæmt skilgreiningu náttúruverndarlaga, nr. 60/2013, þar sem kveðið er á um að óbyggð víðerni séu svæði í óbyggðum þar sem hægt er að njóta einveru og náttúru án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja.

Í raun og veru stöndum við hér í þingsal og ræðum þetta mál þó að við vitum öll að það mun ekki nást í gegn á þessu þingi. Því er vísað til núverandi ríkisstjórnar en við höfum ekki hugmynd um afdrif þess, hvað gerist eftir næstu kosningar. Ef svo vel mun takast til að hér verði græn félagshyggjustjórn eftir næstu alþingiskosningar þá verður einfaldlega að breyta 23. gr. frumvarpsins. En það er líka áhugavert að í málflutningi stjórnarþingmanna sem stigu á stokk í upphafi umræðunnar 8. desember mátti strax greina harða gagnrýni sem við sjáum afraksturinn af hér. Gagnrýni stjórnarþingmanna á málið þá var allsérkennileg, þung og mikil. Þeir stjórnarliðar sem komu í ræðupúlt Alþingis til að fjalla um frumvarp hæstv. umhverfisráðherra um miðhálendisþjóðgarð, gagnrýndu það harðlega og efuðust mest um það, voru langflestir í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Að sjálfsögðu má ekki gleyma gagnrýni formanns hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem sýndi okkur strax fyrir hálfu ári að málið var ekki á leið í neina sáttameðferð í nefndinni. Hafandi setið í eitt og hálft ár af þessu kjörtímabili í hv. umhverfis- og samgöngunefnd verð ég að játa að ég var alls ekki vongóð um að nefndin ætti eftir að bæta málið, jafnvel ekki um að hún myndi afgreiða það. Það hefur svo heldur betur komið á daginn, herra forseti, þar sem frumvarpinu er ýtt út af borðinu.

Aðeins meira um þá stjórnarliða sem stigu hér á stokk þegar fyrst var mælt fyrir málinu fyrir hálfu ári síðan. Þau voru alls ekki að velta fyrir sér umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum heldur valdi sveitarfélaga. Og í samráðsgáttinni og umsagnarferli við frumvarpið lögðu sveitarfélögin sjálf mikla áherslu á skipulagsvald sitt, að það mætti alls ekki skerða.

Herra forseti. Ég verð reyndar að játa að ég tilheyri þeim hópi sem tekur undir með ályktun stjórnar Landverndar á síðasta ári um að frumvarpið, eins og það lítur út núna, færi sveitarstjórnarfólki í raun og veru of mikil völd á kostnað sérfræðiaðstoðar, með fullri virðingu fyrir okkar góða sveitarstjórnarfólki og störfum þess um allt land. Það kom á daginn að meginmarkmiði lagafrumvarpsins var vikið til hliðar og fólk velti frekar fyrir sér skertu skipulagsvaldi þegar raunin er sú, herra forseti, að öll sveitarfélög í nágrenni þjóðgarðsins á Snæfellsnesi og við Vatnajökulsþjóðgarðinn hafa með einhverju móti grætt á því að vera í nánd við þessa merkilegu þjóðgarða út frá samfélagslegu sjónarhorni, út frá atvinnuuppbyggingu, út frá menntunarmöguleikum og út frá auknum lífsgæðum. Ég held að framvegis — og ég vonast náttúrlega til þess að á næsta kjörtímabili munum við afgreiða lagafrumvarp um stofnun miðhálendisþjóðgarðs okkur öllum til heilla — verði einblínt á tilgang þeirra sjónarmiða sem liggja til grundvallar stofnun miðhálendisþjóðgarðs sem er vernd. Verndarsjónarmiðið gagnast okkur öllum, hvort sem við erum kjörnir fulltrúar hér á þingi, kjörnir fulltrúar í sveitarfélögum, almennir íbúar þessa lands, hvort sem við búum á höfuðborgarsvæðinu eða í meiri nálægð við fyrirhugaðan miðhálendisþjóðgarð. Öll munum við nefnilega eiga hlutdeild í væntanlegum miðhálendisþjóðgarði og öll munum við eiga aðgengi að því verndaða einstaka svæði sem liggur undir.

Herra forseti. Það hefur komið berlega í ljós að því miður voru málamiðlanirnar á milli ríkisstjórnarflokkanna of miklar. Óttinn sem ég lýsti hér í ræðu þegar málið kom fyrst fram hefur raungerst. Ekki er nóg með að meginmarkmiði frumvarpsins hafi verið vikið til hliðar heldur henda tveir ríkisstjórnarflokkar miðhálendisþjóðgarðsfrumvarpinu út í hafsauga. Eftir situr Vinstrihreyfingin – grænt framboð með sárt ennið, enda var málið aldrei valdað almennilega af hálfu míns gamla flokks, VG. Það hlýtur að teljast nánast afrek að glutra niður á kjörtímabilinu sem nemur þriðjungi af stuðningi almennings við stofnun miðhálendisþjóðgarðs og það er ekki afrek sem á að guma sig af.

Það er ekki heldur svo að heimsfaraldur hafi komið í veg fyrir að miðhálendisþjóðgarður hafi orðið að veruleika eins og fram hefur komið, bæði í máli forystufólks ríkisstjórnarinnar og í nefndaráliti meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar, heldur annars konar meinsemd sem er andstaða Sjálfstæðisflokksins við stofnun miðhálendisþjóðgarðs og því miður Framsóknarflokksins á lokaspretti málsins.

Það er heldur ekki Alþingi um að kenna að frumvarp um miðhálendisþjóðgarð verður ekki samþykkt á þessu kjörtímabili. Það var nefnilega ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem náði ekki þessu gríðarlega mikla og mikilvæga náttúruverndarmáli í gegn á fjögurra ára kjörtímabili vegna innbyrðis ósættis og andstöðu þeirra á milli. Þegar niðurstaðan er komin í að vísa eigi málinu til ríkisstjórnar þá verður að segjast eins og er að það er sýndarmennska. Þegar stjórnarmáli er vísað aftur til ríkisstjórnar sem á eftir að sitja við völd í rúma þrjá mánuði er ekki hægt að bera mikla von í brjósti um að ríkisstjórnin muni afgreiða málið. Ef þessi ríkisstjórn situr áfram á valdastólum þá er líka borin von að hún muni klára þetta mikilvæga mál, því miður. Það er dapurlegt og það eru vonbrigði en það er raunveruleikinn sem við stöndum frammi fyrir. Málið var eitt af grundvallarmálum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en það náðist ekki í gegnum þingið þrátt fyrir að vera eitt stærsta málið sem VG lagði til grundvallar myndun ríkisstjórnar. Margir fögnuðu því, þrátt fyrir þann beyg og ótta sem fólk bar í brjósti við þessa ríkisstjórnarmyndun, að a.m.k. yrði ráðist í þetta gamla baráttumál umhverfisverndarsinna, bæði innan og utan þings.

Ég syrgi það líka að þessi ósigur raungerist þrátt fyrir gríðarlega eftirgjöf í meðförum hæstv. umhverfisráðherra gagnvart þeim efnum sem ég lýsti í upphafi ræðu minnar, þ.e. orkunýtingaröflunum, og eftirgjöf í átt til orkunýtingar í stað verndarsjónarmiða sem eiga að vera meginmarkmiðið. Eftirgjöfin var í raun og veru svo mikil að Landsvirkjun sá sig knúna til að senda frá sér yfirlýsingu um að fyrirtækið hefði ekki áhuga á því að virkja jafn mikið og raun bar vitni.

Að sjálfsögðu eru líka tvö önnur mál sem hefur verið fallið frá og eru samhangandi við stofnun miðhálendisþjóðgarðsins, þ.e. rammaáætlunin og stofnun Þjóðgarðsstofnunar. Ljóst var fyrir allnokkru síðan að þau mál myndu ekki nást í gegn á þessu kjörtímabili. Því hefði öllum mátt vera ljóst hver niðurstaðan yrði hér. Það hlýtur að teljast ósigur að missa það gríðarlega mikla framfaraspor sem stofnun miðhálendisþjóðgarðs yrði í því að friðlýsa einstök og óbyggð víðerni miðhálendisins. Það eru vonbrigði, herra forseti, og dapurleg niðurstaða í þessu mikla baráttumáli umhverfis- og náttúruverndarfólks um allt land.