151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[17:41]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram í umræðunni hér í dag að mikil andstaða er við frumvarp til laga um miðhálendisþjóðgarð. Því er það nokkuð furðulegt að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og að umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að leggja fram nýtt frumvarp, en það er það sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar vill allra helst. Það er undarlegt að bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn velji þá leið þar sem þessir flokkar hafa nú sett fram fyrirvara á seinni stigum. Eins og margítrekað hefur komið fram er kveðið á um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Sú ríkisstjórn sem mun taka við hlýtur að taka sjálfstæða ákvörðun í þessu máli alveg eins og hún mun taka sjálfstæðar ákvarðanir í öðrum málum. Þess vegna er það sérstakt að meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggi fram þessa viðbót um það hvernig næsta ríkisstjórn eigi að fara með málið. Það er tvennt sem skiptir máli í því. Hið fyrra er að það er gengið út frá því að sömu ríkisstjórnarflokkar taki við eftir næstu kosningar eða þá að verið sé að slá ryki í augu landsmanna enn og aftur og lofa því sem ekki verður staðið við. Það má ekki gleymast, eins og ég sagði, að í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar segir, með leyfi forseta:

„Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila.“

Þá voru engir fyrirvarar settir, hvorki hjá Sjálfstæðisflokki né Framsóknarflokki. Engir.

Í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í nefndinni leggi til að málinu verði vísað til ríkisstjórnar og umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að leggja fram nýtt frumvarp um málið. Það má þá ganga út frá því að ef ætlunin er, ef þess er nokkur kostur, að leggja allt í sölurnar svo að stofnun hálendisþjóðgarðs verði að veruleika á næsta kjörtímabili verði þessir sömu flokkar að vera við völd. Þetta má því túlka þannig að meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar gangi út frá því að sömu flokkar myndi næstu ríkisstjórn. Það er ekki beint heillavænlegt miðað við það að mikil andstaða er við málið hjá meiri hluta þjóðarinnar, hinum örlitla grenjandi minni hluta.

Það má skynja að það hafi skort á samráð í gegnum þessa vinnu alla. Það er ekki nóg að fara um og hitta mann og annan, mikilvægt er að hlusta og mynda traust á milli manna. Það þarf að vera sem víðtækust samstaða í samfélaginu þegar um er að ræða svona stórt og mikilvægt mál. Eins og þetta mál er vaxið er verið að taka um þriðjung landsins undir þjóðgarð í ósátt við nærri öll sveitarfélög sem eiga land að fyrirhuguðum þjóðgarði. Fulltrúi Miðflokksins í hinum þverpólitíska undirbúningshópi sem hér hefur verið minnst á fyrr í dag og átti að vera grundvöllur málsins sagði sig frá þeirri vinnu þar sem ljóst var á þeim tímapunkti að ekki yrði tekið tillit til athugasemda hagaðila. Þá bárust fjölmargar umsagnir um málið, nærri 160 talsins, sem flestar mæla gegn stofnun hálendisþjóðgarðsins. Þá hefði mátt vera ljóst á þeim tímapunkti að engin sátt væri um þetta frumvarp. Það er talað um sýndarsamráð. Í mörgum umsögnum má sjá að talað er um að efnisatriði málsins séu óljós, ekki nægjanlega vel unnin eða beinlínis ósamrýmanleg markmiðum frumvarpsins. Dæmi um slíkt er hvort markmið frumvarpsins sé að ferðamönnum á svæðinu fjölgi, já eða fækki. Það verður að vanda lagasetningu, hagsmunir allra Íslendinga eru undir, orkuauðlindir landsins og nýting þeirra til framtíðar, svo eitthvað sé nefnt.

Það má gera ráð fyrir miklum kostnaði ef þetta frumvarp verður einhvern tímann að lögum og það er alls ekki búið að upplýsa hvernig á að mæta þeim kostnaði. Þetta frumvarp sem við erum að ræða hér setur í uppnám orkunýtingarkosti eins og hvernig hægt er að nýta fallvötnin eða háhitasvæði á miðhálendinu. Ef við ætlum að vera með græna orkukosti hér á landi þá verðum við að geta staðið undir því og það í formi endurnýtanlegrar orku.

Ég ætla að grípa niður í nokkrar umsagnir. Í umsögn Landssamtaka sauðfjárbænda segir, með leyfi forseta:

„Landssamtök sauðfjárbænda hafa veitt umsögn um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu á fyrri stigum málsins. Þar hafa samtökin m.a. bent á að með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu sé verið að skerða verulega skipulagsvald sveitarfélaganna. Ekki hefur verið brugðist við þessum athugsemdum með fullnægjandi hætti við lokavinnslu frumvarpsins.“

Þarna má glögglega sjá að ekki hefur verið um virkt samráð að ræða, eins og ég minntist á áðan. Í annarri umsögn frá sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps segir, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps tekur undir þau markmið sem sett eru fram í 3. gr. frumvarpsins, þar sem meðal annars er lögð áhersla á verndun náttúru og sögu miðhálendis, aðgengi almennings bætt, rannsóknir efldar og samstarf aukið og eflt.

Um leið og sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps lýsir yfir stuðningi við verndun náttúru hálendis Íslands telur sveitarstjórn óásættanlegt að skipulagsvald sveitarfélaga verði fellt niður á þjóðgarðssvæðinu og þessi vinna fari í gegnum miðlæga stofnun ríkis með takmarkaða tengingu við sveitarfélög og íbúa. Sveitarstjórn hefur efasemdir um það fyrirkomulag að einum aðila sé afhent vald til þess að taka ákvarðanir og veita starfsleyfi sem mögulega geta verið þvert gegn vilja og andstætt ákvörðunum lýðræðislega kjörinna fulltrúa sveitarfélaga. Þau markmið sem fram koma í 3. gr. frumvarpsins um stofnun miðhálendisþjóðgarðs kalla á víðtækt samráð og undirbúning á lýðræðislegum vettvangi, fjármögnunaráætlun og að fjármögnun þegar friðlýstra svæða sé tryggð. Ótímabært er að fella niður ráðstöfunarrétt sveitarfélaga og markaðar tekjur þjóðlenda innan hvers sveitarfélags. Óvissa ríkir um fjármögnun Hálendisþjóðgarðs og mikilvægt að nýting fjármuna, áherslur og stefna í uppbyggingu og framkvæmd friðlýsingar sé lengra á veg komin um leið og samráð og víðtæk sátt sé um setningu reglugerða við stofnun og rekstur Hálendisþjóðgarðs.“

Mér finnst þessi umsögn glögglega lýsa viðhorfi flestra Íslendinga. Við viljum öll vernda landið okkar, ganga vel um það og sjá til þess að vel sé farið með þá peninga sem við greiðum í formi skatta og gjalda ásamt því að kerfisvæða stjórnsýsluna sem verður þar með ógegnsæ. Að þessu sögðu má ekki gleyma rétti fólks til að fara um landið sitt. Það er ekki hægt að undirstrika þá áherslu nógu oft eða nógu mikið. Þetta segi ég vegna þess að á sama tíma og margir ferðast um hálendið þá fara allflestir þar um með vernd náttúrunnar í huga. Þetta snýst um ferðafrelsi. Margar umsagnir sem bárust fjölluðu einmitt um þetta, að eftir því sem árin líða verði lokað á ferðafrelsi almennings. Þetta er alls konar fólk, göngumenn og hestamenn, bara til að nefna einhverja.

Í niðurlagi nefndarálits 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar segir:

„Flestir geta verið sammála um markmiðskafla frumvarpsins eins og það liggur fyrir. En staðreyndin er sú að ef fjárveitingar hætta skyndilega að vera fyrirstaða er fátt í núverandi fyrirkomulagi mála sem hindrar að markmiðsákvæðin tíu náist. Það er m.a. stofnanavæðing hálendisins sem hagaðilum hugnast ekki. En mat 2. minni hluta er að málum sé í meginatriðum best fyrir komið eins og nú er, þar sem bændur, vörslumenn landsins, gegna lykilhlutverki, þar sem rekstraraðilar sem hafa byggt upp starfsemi innan þjóðgarðslínunnar, eins og hún var lögð til, geta starfað við forsvaranlegt rekstrarumhverfi.

Það kemur verulega á óvart að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í nefndinni leggi til að nýtt frumvarp um hálendisþjóðgarð verði lagt fram á næsta kjörtímabili, enda er sá verkefnalisti sem lagður er fyrir ráðherra í frávísunartillögu meiri hlutans að meginhluta til þegar uppfylltur, að mati ráðherrans. Það stefnir því í sama graut í sömu skál, haldi núverandi stjórnarflokkar samstarfi sínu áfram.“

Og þetta veit hinn örlitli grenjandi minni hluti.