151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Bergþór Ólason) (M):

Herra forseti. Ég vil í þessari annarri ræðu minni um frávísunartillögu meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar vegna hálendisþjóðgarðs, og málsins í heild eins og það liggur fyrir, koma fyrst inn á nokkur atriði sem hafa komið fram í ræðum, sérstaklega framsögumanns nefndarálits meiri hluta, hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés. Ég held að það sé nauðsynlegt að nefna þau atriði til að tryggja samhengi hlutanna. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, sem vann fyrirtaksvinnu sem framsögumaður þessa máls, og þetta var alveg örugglega ekki einfalt verkefni í ljósi þess hversu umdeilt málið er, setti í samhengi strax í byrjun þá vinnu sem sennilega tveir umhverfisráðherrar á undan þeim hæstv. umhverfisráðherra sem nú situr höfðu sett af stað eða unnið með einum eða öðrum hætti. Það mátti skilja sem svo að sett hefði verið af stað vinna á vegum Sigrúnar Magnúsdóttur, þáverandi umhverfisráðherra, í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á kjörtímabilinu 2013–2016, sem hefði miðað að stofnun þjóðgarðs á hálendinu. Það sem þar var skoðað gekk að langmestu leyti út á að bregðast við þeim, eins og það hefur verið kallað, áskorunum sem hálendið stæði frammi fyrir í ljósi aukins þunga og aukins áhuga fjölda ferðamanna. Það að skoða málefni hálendisins og horfa til þess að auka vernd viðkvæmra svæða er allt annað en að leggja til stofnun þjóðgarðs sem þekur þriðjung landsins. Þarna var verið að horfa til þess að verja hálendið og viðkvæm svæði. Þetta vil ég segja til að halda því samhengi að þessi áhersla á þjóðgarð á hálendinu er til þess að gera nýtilkomin í samhengi hlutanna.

Ég held að varðandi svona gríðarlega stórt mál, sem gengur út á að setja hartnær þriðjung landsins alls undir þennan hatt, sé í öllu samhengi skynsamlegt að gefa slíkum vangaveltum og hugmyndum góðan tíma til að þróast. Því fer nærri að þessu þurfi að gefa viðlíka tíma og stjórnarskrárbreytingum í ljósi þess að þegar ákvörðun sem þessi hefur verið tekin þá held ég að það sé ólíklegt og raunar óraunhæft að horfa til þess að bakkað verði með hana. Í því ljósi held ég að það sé gott að málið fái tíma. Það er ekki tæknilega að daga uppi, þetta er frávísun frá meiri hlutanum, að vísa málinu aftur til ráðherra. En það sem er raunverulega að gerast er að málið er að falla, ég ætla ekki að leyfa mér að segja dautt, en það verður ekki klárað, það verður ekki afgreitt á þessu kjörtímabili. Því verður vísað til umhverfisráðherra sem svo undarlega vill til að telur sig sennilega hafa uppfyllt allar þær ábendingar og öll þau skilyrði sem meiri hlutinn nefnir í frávísunartillögu sinni.

Ég er algerlega sannfærður um að hæstv. umhverfisráðherra telji sig hafa leitt til lykta sjónarmið er snúa að mörkum þjóðgarðs og verndarflokka enda er komið inn á þau í frumvarpinu. Ég er sannfærður um að hæstv. umhverfisráðherra telji sig hafa leitt til lykta sjónarmið um stjórnfyrirkomulag og verkaskiptingu. Ég er sannfærður um að umhverfisráðherra telji sig hafa leitt til lykta sjónarmið og ósætti sem snýr að samspili skipulagsáætlana sveitarfélaga. Ég er alveg viss um að umhverfisráðherra telji sig hafa leitt til lykta ósamstæð sjónarmið sem snúa að þeim reglum sem ættu að gilda um umferð og umgengni innan þjóðgarðs. Ég er alveg viss um að umhverfisráðherra telji sig hafa leitt til lykta ósamstæð sjónarmið sem snúa að umgjörð um hefðbundnar nytjar, veiðar, orkuvinnslu og flutningsleiðir raforku. Ég er alveg sannfærður um að umhverfisráðherra telji sig hafa greint með forsvaranlegum hætti fjárþörf garðsins þó að áhöld séu um hversu raunhæft það mat er og vel unnið. Ég er alveg viss um það sömuleiðis að umhverfisráðherra telji sig hafa útfært í meginatriðum hvernig samningar um atvinnustarfsemi innan þjóðgarðsins gætu litið út þótt það sé auðvitað skref sem væri stigið í framhaldi af samþykkt frumvarpsins eins og það liggur fyrir miðað við hvernig uppsetningin er. Ég er alveg viss um það að umhverfisráðherra telji sig hafa fundið lausn á því og hugsað til enda og að það sé hluti af því frumvarpi sem hér liggur fyrir hvernig hugað verði að málum sem nú skiptast milli ólíkra ráðuneyta.

Þetta eru fyrirvararnir. Þetta eru verkefnin sem eru skrifuð inn í frávísunartillögu meiri hluta nefndarinnar. Þetta eru allt saman atriði sem hæstv. ráðherra telur sig hafa uppfyllt nú þegar. Það blasir því auðvitað við að þetta er einhver millileikur til að tryggja að allir haldi bærilega andliti, tryggja það að málið lifi, málið sé á lífi og hægt sé að halda af stað hratt og vel á nýju kjörtímabili ef þessir þrír flokkar, Vinstrihreyfingin – grænt framboð, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, mynda ríkisstjórn á næsta kjörtímabili. Það blasir við að það er í öllu falli mikill áhugi hjá formönnum þessara flokka fyrir því miðað við þau orð sem hafa fallið undanfarnar vikur þó að einhver breyting gæti orðið á núna á síðustu dögum þingsins. Ef sú verður raunin að þessir flokkar haldi áfram samstarfi sínu þá blasir við að málið mun halda áfram á nýju kjörtímabili. Þá verður því fylgt örugglega í mark á þeim fjórum árum sem þá gefast til að klára stofnun hálendisþjóðgarðs sem tekur þriðjung landsins á forsendum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs undir forystu hæstv. umhverfisráðherra.

Hluti af því að ég hef ákveðið að halda því hér til haga að hæstv. umhverfisráðherra telji öllum þessum skilyrðum nú þegar mætt og því sé hægt að halda staffírugur áfram á nýju kjörtímabili er að þetta er sannfæring mín vegna þess með hvaða hætti haldið var á samráði í undirbúningsvinnunni. Ég kom inn á í ræðu minni við upphaf málsins, þar sem ég mælti fyrir minnihlutaáliti okkar þingmanna Miðflokksins í umhverfis- og samgöngunefnd, mín og hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar, að hagaðili hefði lýst sér sem fullbólusettum gagnvart fagurgala um samráð og tillit til gagnstæðra sjónarmiða eftir þau samskipti sem þarna áttu sér stað. Ég vil nú bara, af því að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé er kominn í salinn, framsögumaður nefndarálitsins, sem hefur unnið mikla vinnu í kringum þetta, hrósa hv. þingmanni fyrir að hafa farið í þá vegferð að ræða við sveitarfélög sem liggja að þessum þjóðgarði, hagsmunasamtök ýmis og alveg örugglega, þó að ég þekki það ekki, einstaklinga sem hafa andstæðar skoðanir. En mér heyrist á öllu, og það blasir í rauninni við af því að ég þekki málið vel, að þetta sé í fyrsta skipti sem hlustað er á þessa aðila af einhverju viti. Fyrir það ber að hrósa hv. framsögumanni þótt ég sé honum ósammála um efnisatriði málsins, það er síðan allt annað mál. En hæstv. umhverfisráðherra virðist hafa klúðrað þessu alveg fullkomlega og það gagnrýni ég.

Hv. framsögumaður málsins kom inn á það í flutningsræðu sinni að ekki hefði þurft að taka málið út úr nefnd, það hefði verið fær leið að láta það daga uppi. En sú leið sem er farin bendir til þess að þeir flokkar sem að ríkisstjórninni standa ætli sér að halda áfram með málið og klára það, starfi þeir saman eftir kosningar. Enda segir í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, sem Kolbeinn Óttarsson Proppé framsögumaður, Ari Trausti Guðmundsson, Jón Gunnarsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Vilhjálmur Árnason undirrita, með vísan í fyrirvarana sem eru taldir upp fyrr á síðunni, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur að til að ná slíkri sátt þurfi að gefa málinu lengri tíma og mikilvægt sé að halda áfram að vinna að því í víðtæku samráði við alla hagaðila.

Að þessu virtu leggur meiri hlutinn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að leggja fram nýtt frumvarp um málið …“

Ég veit að hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd, Vilhjálmur Árnason, er næstur í ræðu. Það verður áhugavert, þó að ég ætli ekki að leggja hv. þingmanni orð í munn, að sjá hvaða augum Sjálfstæðismenn líta þennan texta. Ef ekki verður skilyrðislaust afsagt að slík fyrirheit felist í þessu þá blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fallist á að lagt verði fram nýtt frumvarp um málið á næsta kjörtímabili. Það stendur beinlínis í nefndarálitinu.

Það leiðir mig aftur að umræðunni um fyrirvara við frumvarpið. Ég var einn af þeim þingmönnum sem sátu í svokallaðri þverpólitískri nefnd sem vann skýrslu sem var ætlað að undirbyggja þetta frumvarp. Það bendir allt til þess að fulltrúar meiri hlutans telji að umhverfisráðherra hafi mistekist mjög að nota þá skýrslu sem grundvöll þess frumvarps sem hann lagði fram. Í raun má segja að sýn fulltrúa meiri hlutans sem hafa talað hér í dag fari í öllu falli ekki saman við það sem mér sýnist vera raunin. Hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson tók undir með mér áðan að það væri í sjálfu sér ekki mikil misfella á milli frumvarpsins sem hér liggur fyrir og verið er að vísa frá og vinnu nefndarinnar sem var unnin í aðdraganda þess. Hér er verið að leika einhvern biðleik, kaupa tíma. Ég geld varhuga við því að efasemdarmenn um að málið gangi fram á þeim nótum sem lagt var upp með í frumvarpi umhverfisráðherra sofni á verðinum, ef svo má segja. Ég tel mig vita að hv. þm. Vilhjálmur Árnason hafi raunverulegar efasemdir um að skynsamlegt sé að halda áfram með málið á þeim nótum sem það hefur verið unnið hingað til.

Í þessu samhengi verður að líta til þess með hvaða hætti hæstv. umhverfisráðherra klúðraði málinu við vinnslu þess á seinni stigum og síðbúna framlagningu. Ef maður vissi ekki betur hefði mátt halda að það væri ekki raunverulegur vilji hjá ráðherranum að koma málinu í gegn. Þó að gefinn hafi verið rúmur frestur fyrir umsagnir til umhverfis- og samgöngunefndar er staðreyndin sú að málið kom ekki fram fyrr en undir lok síðasta árs. Þá hafði hæstv. ráðherra haft fjögur ár til að vinna það. Það er þá bara ágætt ef þetta er verklagið sem á að viðhafa við það, þá eru líkur til þess að þetta klúðrist aftur á næsta kjörtímabili. Ef uppleggið verður það sama og nú hefur verið þá hreinlega verðum við, með Miðflokksmenn í broddi fylkingar, að stoppa það aftur. En það sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins eru búnir að kvitta upp á í frávísunarnefndarálitinu er þeirrar gerðar að maður getur ekki annað en haft áhyggjur af því. Það blasir við að það á að halda áfram með málið, það skal klárað, bara í örlítið öðrum búningi en nú er til að mæta þeim ótalmörgu sjónarmiðum sem hafa komið fram við vinnslu þess.

Ég vil rifja upp að þegar málið er kynnt til sögunnar í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þá eru engir fyrirvarar, þó að hæstv. samgönguráðherra, formaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, hafi í Víglínuviðtali fyrir nokkrum vikum síðan haldið því fram að þar strax hafi komið fram fyrirvarar. En til upprifjunar segir, með leyfi forseta, í stjórnarsáttmálanum:

„Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila.“

Engir fyrirvarar. Það er líka þannig í þessu framhaldsnefndaráliti. (Forseti hringir.) Hér eru engir sérstakir fyrirvarar vegna þess að þessi upptalning er allt saman atriði (Forseti hringir.) sem hæstv. umhverfisráðherra telur sig þegar hafa uppfyllt.