151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:20]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, ég tel að staða mála sé almennt góð. Ég tek það samt fram að stefnan varðandi þjóðlendurnar og annað kom árið 2019 þannig að það fyrirkomulag er bara nýfarið að ganga betur en það gerði áður, þó að það sé ekkert endilega gallalaust. Við erum enn þá með þrjár mismunandi útfærslur á hálendinu eftir því hvar maður er á hálendinu, hvort sem maður er í Vatnajökulsþjóðgarði, á friðlýstu svæði eða á þjóðlendunum. Ég tel að það sé alveg vinnandi vegur að samræma þetta aðeins frekar, kannski bara með því að gera einhvers konar stefnu fyrir allt hálendið sem sveitarfélögin gera svo svæðisskipulag um þar, af því að það er stefna um þjóðlendurnar. Það eru margar leiðir færar. En ef við náum að samræma þetta er það fínt. Ef við náum með þessari sátt og þessari vinnu jafnvel að draga úr bákninu sem Vatnajökulsþjóðgarður er, stjórnarfyrirkomulagið þar, þá er til mikils unnið í þeim efnum. Það eru svæði innan hálendisins sem standa til hliðar af því að þau eru ekki friðlýst. Það er ekki komið eitthvert fyrirkomulag, ég vil nefna t.d. Landmannalaugar, það er löngu búið að gera skipulag þar. En þar sem friðlýsingarferli hefur ekki verið klárað, eitthvert skipulag á að vera á leiðinni, hafa ekki verið settir fjármunir eða heimildir gefnar til að byggja þetta svæði upp. Það er fullt af svona atriðum sem standa enn út af. Og ef við getum komið á einhverju heildrænu skipulagi um það þá held ég að við munum sækja fram fyrir hálendið.

(Forseti (ÞorS): Forseta láðist að geta þess að þar sem þrír þingmenn eru í andsvörum þá hafa menn eina mínútu til ráðstöfunar í seinna andsvari.)