151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:29]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta. Þetta var stórskemmtilegt, ég verð nú að segja það. Eini flokkurinn sem lét plata sig var Miðflokkurinn, þetta er svona öfugmælavísa. Þú getur kannski botnað hana í seinna andsvari. Miðflokkurinn var eini flokkurinn sem stöðvaði málið. Við erum vörn gegn vondri lagasetningu sem þið gangið inn í. Inn í þá gildru hafið þið gengið og ég spurði: Hvernig ætlið þið að útskýra það fyrir kjósendum um allt land að þið ætlið aftur að ganga inn í þessa gildru? Með samþykkt þessarar tillögu eruð þið að ganga sömu leið og þegar þið genguð inn í ríkisstjórnarsamstarfið í upphafi þessa kjörtímabils. En sú hætta er fyrir hendi núna, ef kjósendur kjósa þessa flokka, og ef þeir taka aftur saman, að málið verði að veruleika. Hvernig ætlar hv. þingmaður að koma í veg fyrir það ef svo verður? Hvernig ætlar hann að útskýra það fyrir kjósendum sínum?

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir enn á að hv. þingmenn eiga að beina orðum sínum til hans.)