151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aftur þakka hv. þingmanni fyrir að vera eina rödd Sjálfstæðisflokksins hér, hinir væntanlega þora ekki, og það er virðingarvert af hv. þingmanni. En ég verð að minna hv. þingmann á, í ljósi orða hans hér rétt áðan, að jú, þið samþykktuð frumvarpið. Það var samþykkt í undirbúningsnefndinni af öllum nema fulltrúa Miðflokksins. Það var samþykkt í ríkisstjórn og það var samþykkt í stjórnarflokkunum, það var samþykkt í þingflokkum stjórnarliðsins. Það var lagt fram. Hæstv. umhverfisráðherra fór um landið og kynnti málið eins og stjórnarflokkarnir allir og þingmenn þeirra höfðu samþykkt það. Það fékk ekki góðar viðtökur en hann útskýrði að það væri allt á misskilningi byggt. En nú eru menn að flýja málið, ekki vegna þess að þeir hafi núna sannfæringu fyrir því að þeir hafi haft rangt fyrir sér með því að troða þessu máli hér áfram (Forseti hringir.) heldur vegna þess að það eru að koma kosningar og það er miklu þægilegra að klára þetta bara eftir kosningar (Forseti hringir.) (Forseti hringir.) þegar það eru fjögur ár í þær næstu heldur en að þurfa að gera það núna rétt fyrir næstu kosningar.