151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:38]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég kem hingað í mína aðra ræðu um þetta hálendisþjóðgarðsfrumvarp og ætla að ræða aðeins um þá stöðu sem við horfum á og líka í ljósi þess sem fram kom hjá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni áðan, að það er auðvitað einkennilegt að sett sé inn í stjórnarsáttmála við stjórnarmyndun að stofna eigi hálendisþjóðgarð. Einkum þegar í stjórninni er flokkur sem er þekktur fyrir að vernda hagsmuni bænda og sveitarfélaga um allt land og hefur lengi verið talinn á þeim slóðum, en löngu síðar virðist koma þeim verulega á óvart að það sé gífurleg andstaða um allt land meðal bænda og sveitarfélaga að skipulagsvaldið sé bara tekið af þeim með þessu frumvarpi. En samt ganga þeir inn í sæng stjórnarinnar fyrir fjórum árum síðan. Þeir gera það væntanlega vegna þess að ráðherrastólarnir hafa beðið þarna og verið ansi freistandi. Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur atvinnu, nýtingar og framleiðslu, skrifar líka undir þennan stjórnarsáttmála fyrir fjórum árum síðan og samþykkir stofnun miðhálendisþjóðgarðs.

Það var fullkomlega augljóst á þeim tíma að menn voru ekki að tala um neinn smá þjóðgarð, hv. þm. Vilhjálmur Árnason. Við þurfum ekki annað en að líta á Vatnajökulsþjóðgarð, sem er ansi stór. En samt gera þeir það, væntanlega, eins og oft áður hjá Sjálfstæðisflokknum, til að halda í valdataumana og e.t.v. bjuggust þeir ekki við svona mikilli andstöðu. En þeim átti að vera það fullkomlega ljóst þá eins og núna að orkunýting á hálendinu yrði sett í fullkomna óvissu. Og þeir ætla að endurtaka leikinn núna með þessari frávísunartillögu sem hann nefnir svo, sem er kannski ekki réttnefni. Það er ekki réttnefni að kalla þetta frávísunartillögu vegna þess að þarna er lagt fyrir að ráðherra skuli leggja fram frumvarp. Að tala um þetta eins og þetta sé frávísun segir ekki hálfa söguna vegna þess að í þessari frávísunartillögu kemur fram að ráðherra umhverfismála verði falið að leggja fram nýtt frumvarp um málið. Þetta er frávísun. Það á sem sagt að halda áfram. Það þýðir ekkert að blekkja kjósendur með því að tala í einhverjum getgátum, tala um einhverjar samræður, tala um að það sé gaman að hitta fólk og ræða málin. Það kom augljóslega fram í andsvari áðan að það er búið að gera það. Við erum búin að ganga þennan veg. Láta menn plata sig aftur? Já, þeir gera það nú nógu oft, ansi oft. En ég held samt að fólkið hringinn í kringum landið, sem hefur bitra reynslu af því að mörgu leyti, alla vega þeir sem tjá sig í umsögnum eins og þessi útivistar- og ferðafélög og ferðaþjónustuaðilar, að það er mikil ofstjórn sem fylgir þessu apparati og auðvitað feta menn sig áfram þessa slóð, láti ekki plata sig. Að sjálfsögðu eigum við að vanda okkur við að bæta þennan þjóðgarð, Vatnajökulsþjóðgarð, sem er risastór, og bæta umgjörðina, bæta hvernig við umgöngumst það svæði. Nei, ríkisstjórnin ætlar í einhverju mikilmennskubrjálæði að taka rúmlega þriðjung landsins undir þjóðgarð þótt fyrir liggi að reynslan af Vatnajökulsþjóðgarði öskrar beinlínis á að þar verði tekið til hendinni, bætt úr, vandað betur til verka, fengin meiri reynsla og reynt að sinna þeim þjóðgarði sómasamlega.

Þessi vegferð er afskaplega einkennileg, herra forseti. Það er afskaplega einkennilegt að ætla sér að fara aftur inn í þetta. Og ef það verður sama ríkisstjórn, þ.e. þessara þriggja flokka, þá er þetta bara loforð um að málið muni birtast hérna strax á næsta þingi frá umhverfisráðherra, ég tala nú ekki um ef það verður sami hæstv. umhverfisráðherra.

Umsagnir í þessu máli voru margar á sama veg. Málið var náttúrlega illa unnið og allt þetta samráð og öll þessi samtöl og allir þessir fundir voru einungis til að sýnast, hæstv. forseti, vegna þess að þess sáust engin merki í frumvarpinu að yfirleitt hafi verið hlustað á nokkurn mann í undirbúningnum. Ég mætti sjálfur á slíkan fund. Þar var verið að bera út fagnaðarerindið, tala lengi og fyrirspurnir veittar í skamman tíma eins og oft er og síðan var ráðherra horfinn á braut. Þetta er samráðið og þetta er samtalið sem menn eru alltaf að tala um. Þetta er stórlega ofmetið, herra forseti.

En Vinstri græn gengu inn í stjórnarsamstarfið eins og menn sem róa til fiskjar og róa þrír saman. Og síðan þegar þeir nálgast miðin, þegar kosningar nálgast og sá sem er fremstur í bátnum rær af eins miklum krafti og hann getur, þá lítur hann við og sér að hinir tveir eru bara lagstir niður í kjöl. Það er engin hjálp að þeim. Þannig hlýtur Vinstri grænum að hafa liðið þegar hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vöknuðu allt í einu upp við vondan draum í desember síðastliðnum um að kannski væri þetta í mikilli andstöðu við fólk víða um land, hringinn í kringum landið, sveitarstjórnir og hina og þessa aðila sem að hálendinu koma.

Þá var gripið til þess ráðs að smíða fyrirvara, allra handa fyrirvara sem ekki höfðu sést áður. Þeir eru ekki í stjórnarsáttmálanum. Hvaðan komu þessir fyrirvarar? Þeir voru bara orðnir drulluhræddir — fyrirgefðu, forseti, að ég noti svona orðalag, en þeir voru orðnir mjög hræddir við að þetta myndi koma niður á þeim í kosningunum. (SDG: Leitin að fyrirvörunum.) — Já. Ég líkti þessu nú við hernað í morgun. Ég sá fyrir mér að verið væri að fara í orrustu og það tækju sig saman þrír aðilar, Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, þeir fylktu upp sínum liðsafla og færu upp á hæðirnar. Vinstri græn væru í forystu í þessum málum þannig að þau væru þarna fremst og byggjust nú við að þetta væri ofurefli sem þau væru með og þau myndu eiga auðveldan sigur vísan. Síðan koma þau upp á hæðirnar. Þá birtist þeim gífurlegt lið andstæðinga, fjölmennt lið. Vinstri græn ætla að halda áfram til orrustu og þeyta lúðra. En rétt áður en þau geysast fram líta þau til baka og sjá bara í hælana á félögum sínum. Þeir eru horfnir á braut, þeir eru búnir að yfirgefa vettvang. Ég get nú ímyndað mér hvernig sú upplifun hefur verið. En það á endurtaka þetta.