151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[19:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Bergþór Ólason) (M):

Virðulegur forseti. Þetta volaða mál gengur nú í raun í endurnýjun lífdaga með þessari afgreiðslu meiri hluta flokkanna. Ríkisstjórnarflokkarnir lýsa því beinlínis yfir að málið skuli klárað á næsta kjörtímabili. Málið fær í dag eins konar nýtt upphaf. Við höfum fylgst með því í forundran að hér hefur verið flaggað seint tilkomnum fyrirvörum, sérstaklega frá fulltrúum Framsóknarflokksins sem virtust einhvern veginn hafa gengist þessu máli á hönd án þess að átta sig á hvað í því fælist, því að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru engir fyrirvarar — engir. Maður veltir fyrir sér heilindum í stjórnmálum. Þó að ég sé algerlega á móti málinu eins og það er lagt upp, þá er fulltrúum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs nokkur vorkunn hvað varðar þær trakteringar sem mál þeirra verður fyrir af hendi samstarfsflokkanna. Við í Miðflokknum höfum verið algerlega hrein og bein með þetta mál alla tíð. Sjálfur sagði ég mig úr þeim undirbúningshópi sem vann að undirbúningi málsins vegna þess að mér leist ekki á í hvaða átt var verið að stefna því.

Það er athyglisvert að skoða hverjir hafa talað hér í dag aðrir en við fulltrúar Miðflokksins, sem höfum raunverulegar áhyggjur af þessum málum. Hér talaði einn fulltrúi frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði — einn; framsögumaður málsins, hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Og hér talaði einn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Vilhjálmur Árnason. Hér hefur talað einn fulltrúi Framsóknarflokksins, hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir. En síðan hafa talað hér tveir fyrrverandi þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem undirstrikar kannski vandamál þess flokks í því samstarfi sem hann er fastur í núna, en Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur virðast einhvern veginn vera búnir að ákveða að færa sig yfir í næsta kjörtímabil í þessu samstarfi og leggja það bara á borðið að það verði gert undir þeim formerkjum að nýtt mál um hálendisþjóðgarð verði lagt fram.

Herra forseti. Samkvæmt samkomulagi um þinglok lýkur nú þessari umræðu um málið, en málið fer hvergi þótt þingmenn Miðflokksins hverfi nú af mælendaskrá. Baráttan gegn stofnanavæðingu hálendisins er rétt að byrja. Mig langar hér við lok þessarar umræðu að rifja upp niðurlagsorð frávísunartillögu fulltrúa meiri hlutans í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem segir, með leyfi forseta:

„Að þessu virtu leggur meiri hlutinn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að leggja fram nýtt frumvarp um málið …“

Þetta skilur ekki eftir neitt svigrúm til misskilnings. Ríkisstjórnarflokkarnir sem nú sitja ætla að klára málið á næsta kjörtímabili þó að í augnablikinu treysti Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn sér ekki til að mæta kjósendum sínum með þau skilaboð.

Það kemur verulega á óvart að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í hv. umhverfis- og samgöngunefnd leggi til að nýtt frumvarp um hálendisþjóðgarð verði lagt fram á næsta kjörtímabili, enda er sá verkefnalisti sem lagður er fyrir ráðherra í frávísunartillögu meiri hlutans að meginhluta til þegar uppfylltur að mati ráðherrans. Það stefnir því í sama graut í sömu skál, haldi núverandi stjórnarflokkar samstarfi sínu áfram. Eina leiðin til að tryggja vörn í málinu, til að berjast gegn stofnanavæðingu hálendisins, er að tryggja öflugan Miðflokk á næsta kjörtímabili.

Rétt í þessu voru að berast fréttir af því að formaður Framsóknarflokksins vildi sjá sama stjórnarmynstur eftir kosningar. Þetta blasir bara við núna. Það var geymt að láta vita af þessu þangað til þessari umræðu væri lokið. (Gripið fram í.) Það á að klára þetta mál á fyrstu metrum nýs kjörtímabils undir forystu Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, en málið er bara það að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þora ekki að mæta kjósendum sínum núna og bera þeim þessi skilaboð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ég ítreka það að eina vörnin gegn stofnanavæðingu hálendisins er sterkur Miðflokkur á næsta kjörtímabili.