151. löggjafarþing — 114. fundur,  12. júní 2021.

brottfall laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.

558. mál
[22:45]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hluta atvinnuveganefndar í máli hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar sem fjallar um að afnema lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, með öðrum orðum að banna leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis á Íslandi.

Mig langar að byrja á því að velta upp ákveðinni heimsmynd þar sem Sádi-Arabía er olíuríki, þar sem Noregur er olíuríki, nema Norðmenn segja við umheiminn að þeirra olíuvinnsla sé einhvern veginn betri en annarra, á einhvern hátt betri fyrir náttúruna, þar sem Færeyjar eru olíuríki, sem að sjálfsögðu er einhvern veginn betra en að eitthvert annað land sé olíuríki, og Ísland er olíuríki. Veltum því aðeins fyrir okkur hvernig það hljómar að hlusta á Ísland ætla að predika yfir öðrum þjóðum þann boðskap að berjast gegn loftslagsbreytingum.

Virðulegur forseti. Það er farsakennd mynd. Sú hugmynd að ætla að gera Ísland að olíuríki ætti að vera fáránleg. Vandinn er sá að hún er það ekki alveg. Það er aðeins of margt fólk enn þeirrar sannfæringar að það sé kannski á einhvern hátt betra að við séum olíuríki en einhverjar aðrar þjóðir. Þau sjónarmið koma alltaf upp þegar fólk sér hve mikið það getur grætt á því að menga bara smá. Þessi sjónarmið eru til á Íslandi alveg eins og þau eru til í Færeyjum og Noregi. Það eru ekki fjarlægustu eða fjarskyldustu þjóðríkin.

Þá að efni álitsins. Ég vil byrja á því að benda á, eins og kemur fram þar, að Alþjóðaorkumálastofnunin gaf nýlega út skýrslu þar sem kemur fram að hætta verði öllum fjárfestingum í jarðefnaeldsneyti ef það markmið eigi að nást að koma í veg fyrir óafturkræfan skaða á jörðinni. Höfum það á hreinu. Staðan á Íslandi er sú að hér er ekki leit í gangi eins og er, ekki verið að nýta þessi lög, og það er gott. En það er líka ástæða þess að það er algerlega meinlaust fyrir alla hagsmunaaðila á Íslandi að afnema þessi lög núna.

Þá þarf ég að fara yfir í frekar fráleit rök meiri hlutans þar sem notuð eru sömu rök til að komast að þeirri niðurstöðu að ekki sé mikilvægt að afnema þessi lög, virðulegi forseti. Vegna þess að engin leit er hafin hér enn getum við afnumið þessi lög núna án þess að það breyti neinu, án þess að það varði einhverja hagsmuni, án þess að ríkið þyrfti þá að bæta einhvern skaða eða þyrfti á einhvern hátt að búa um, eða alla vega að gera málið flóknara. Það getur alveg gerst vegna þess að lögin eru enn í gildi. Þá getur einhver hagsmunaaðili úti í bæ ákveðið að byrja að leita að olíu og hann hefur væntanlega einhverjar kröfur á það hvernig yfirvöld svara fyrirspurnum og umsóknum. Þótt auðvitað sé þetta leyfisháð starfsemi eru lögin samt sem áður til staðar. Ef ríkisstofnanir og framkvæmdarvaldið eiga ekki að beita geðþótta heldur lögum þá verða þau að gera ráð fyrir því að aðilar sem hér hefðu áhuga á því að fara að leita og vinna olíu, eða jarðefnaeldsneyti, hefðu alla vega þá kröfu að ríkisstarfsmenn sinntu vinnu sinni og afgreiddu umsóknir á grundvelli laganna. Það eitt og sér er nógu galið, virðulegi forseti, nógu fjarstæðukennt, til að við ættum að sameinast um að fjarlægja þessi lög með hliðsjón af þeim staðreyndum sem ég nefndi áðan. Þau rök að þessi starfsemi sé ekki í gangi núna eru rök fyrir því að afnema lögin núna áður en það verður flóknara. Ég leyfi mér að nota sömu rök og meiri hlutinn nema að niðurstaðan er þveröfug við það sem meiri hlutinn kemst að.

Það er nefnilega óljóst hver réttarstaða aðila yrði sem myndi hefja vinnslu eða leit að jarðefnaeldsneyti, finna það og ætla að fara að vinna það ef löggjafinn færi þá að reyna að afnema lögin og koma í veg fyrir vinnsluna. Það væri strax flóknara. Þess vegna verðum við að gera þetta sem fyrst en meiri hlutinn, með Vinstri græn í forystu, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, formann atvinnuveganefndar, ætlar að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar, ríkisstjórnar sem þau vita ekki hver verður. Kannski gefa þau sér að þau verði sama ríkisstjórnin, Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, og hvað þá? Ætla þau þá að afnema þessi lög í trássi við mögulegan vilja Sjálfstæðisflokks og Framsóknar? Er það? Af hverju þá ekki núna? Þetta er rökleysa, virðulegi forseti. Ég ætla aðeins nánar út í hvers vegna það er á eftir.

Eins og kom pínlega skýrt fram í andsvörum hv. þingmanna við hv. formann atvinnuveganefndar áðan þá er meirihlutaálitið ekki þess eðlis að tryggja að þessi lög verði afnumin með því að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar og það kom margsinnis fram í máli hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur. Hún sagði að þegar mál væru send til ríkisstjórnar væri ekki hægt að gefa sér niðurstöðuna. Það er rétt, virðulegi forseti, og það er gagnrýni mín. Hún sagðist ekkert geta sagt fyrir fram um einhverja niðurstöðu, það gæti enginn. Það er rétt, virðulegi forseti. Í því felst gagnrýni mín. Hv. þingmaður sagði líka orðrétt, með leyfi forseta:

„En það er vilji til þess af hálfu þessarar ríkisstjórnar eða þess meiri hluta sem hér skrifar undir að þetta mál verði skoðað.“

Hvar er græni hlutinn í Vinstri grænum núna? Það má skoða málið. Það var í nefnd til þess að það væri skoðað. Til þess eru nefndirnar og þetta er ekkert flókið mál heldur. Það er ekki erfitt að skoða það, við hefðum getað tekið það til umræðu svo sem einu sinni kannski, en það var of mikið fyrir þetta heila kjörtímabil hjá þessari ríkisstjórn. Hv. þingmaður sagði líka að hún gæti ekki svarað fyrir alla Sjálfstæðismenn eða alla Framsóknarmenn, og það er líka rétt og í því felst gagnrýni mín. Hv. þingmaður sagði einnig að það kæmi í ljós hvaða flokkar verði í næstu ríkisstjórn og þeir muni fjalla um þetta mál og það er rétt og í því felst gagnrýni mín.

Meiri hlutinn virðist þó reyna að breiða yfir þá staðreynd að hér sé ekki verið að halda málinu áfram með neinni vissu um það að markmiðunum um að afnema þessi lög verði náð, með því að vísa í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem er kveðið á um alls konar góða hluti. Ég ætla reyndar að lesa hér orðrétt úr nefndaráliti meiri hluta, með leyfi forseta, um „mikilvægi þess að Ísland grípi til markvissra og ákveðinna aðgerða í baráttunni gegn loftslagsbreytingum í samræmi við metnaðarfullan stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland eigi síðar en árið 2040.“

Virðulegi forseti. Það er eins og dansað sé sérstaklega í kringum það atriði að afnema lög sem heimila leit og vinnslu á olíu á Íslandi. Þess má geta að ef flett er upp í téðum stjórnarsáttmála kemur einfaldlega ekkert fram þar um að afnema þessi lög. Kannski gleymdist það og það er allt í góðu. Það er samt hægt að samþykkja þetta frumvarp. Það er lausnin á þessu öllu saman, virðulegi forseti, allri þessari gagnrýni, öllum þessum vandamálum, allri þessari rökleysu, að segja já við frumvarpinu sem þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs af öllum háttvirtum ættu hvað best að geta unað við. En svo er ekki og þá verður að spyrja: Hvers vegna ekki?

Eins og ég nefndi áðan var þetta mál ekki tekið til umfjöllunar í nefnd. Ég hafði spurst fyrir um það og svarið var þá, þrátt fyrir allt sem hefur verið talað um meðal þingflokksformanna á þessu kjörtímabili, að það þyrfti nú að bíða eftir því að eitthvað kæmi út úr einhverju þinglokastússi eins og venjulega. Ég gagnrýndi það þá og gagnrýni það hér aftur. Síðan kemur þinglokastússið, samningarnir. Eru málin skoðuð efnislega í nefnd? Nei. Er það atvinnuveganefnd sem fær það hlutverk að fjalla um málið, sem fjallar um málið? Nei, virðulegi forseti, það er samið um það hvað Vinstrihreyfingin – grænt framboð getur umborið af eigin atkvæðagreiðslum. Hreyfingunni til vorkunnar hefur hún þurft að þola þær á þessu kjörtímabili þegar hún segist aðhyllast afglæpavæðingu og greiðir atkvæði gegn því og segist ætla að leggja fram eigið mál og ná því í gegn og klúðrar því, þegar hún ætlar að koma á breytingum á stjórnarskrá og klúðrar því alla leiðina í gegn, ég ætla ekki einu sinni í gegnum allt það havarí. Núna vildi hún ekki greiða atkvæði um þetta mál efnislega heldur vísa því til ríkisstjórnar, næstu ríkisstjórnar sem hún veit ekkert hver verður. Hvers vegna? Það er vegna þess að hún getur ekki greitt atkvæði með málinu vegna þess að þá væri það sigur einhvers annars en hennar og hún getur ekki greitt atkvæði á móti því vegna þess að þá myndi opinberast enn og aftur kostnaðurinn við það að vera í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Þetta er spurningin sem við eigum að spyrja okkur hér í kvöld þegar við greiðum atkvæði um það hvort eigi að vísa þessu máli frá til einhverrar ríkisstjórnar sem gerir eitthvað við það mögulega í framtíðinni.

Hér hef ég farið örlítið út fyrir nákvæmt efni minnihlutaálitsins, ekki mikið, en undir það rita sá sem hér stendur, Helgi Hrafn Gunnarsson, og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir og enginn annar úr atvinnuveganefnd.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)