151. löggjafarþing — 119. fundur,  6. júlí 2021.

frestun á fundum Alþingis.

873. mál
[14:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Nú lít ég á töfluna og sé að enn á að svíkja þjóðina um nýja stjórnarskrá. Áfram skal haldið í kosningar án þess að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um að Íslendingar skuli fá nýja stjórnarskrá, þjóðaratkvæðagreiðslu sem búið að hunsa núna í fleiri ár. Þetta þing, þessi ríkisstjórn getur ekki einu sinni látið svo lítið að breyta breytingarákvæðinu til þess að gefa næsta þingi færi á að koma þjóðarviljanum í framkvæmd sem fyrst. Nei, þjóðin er svikin um nýja stjórnarskrá og meiri hlutinn kaupir sér þriggja og hálfs mánaðar launað leyfi til að fara í sumarfrí og kosningabaráttu. En ég vil halda því til haga, forseti, fyrir kosningarnar að það að fella þessa breytingartillögu, eins og meiri hlutinn er að gera, sýnir svo ekki verður um villst að þeim er ekki og mun ekki verða treystandi til þess að breyta stjórnarskrá. Þau þora það bara ekki.