152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

um fundarstjórn.

[10:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja að hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar er manneskja að meiri að reyna að bregða upp ákveðinni mynd út af þessum mistökum, og ég tel þetta vera mistök. Ég ætla að líta þannig á. En þetta er engu að síður svolítið lýsandi, eins og ég gat um áðan, fyrir það hvernig nálgun ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna er gagnvart þinginu. Þessi mynd sem er að teiknast upp er að verða óþægileg. Ég efast ekki um að tilefni er til sérstakrar umræðu hér í þinginu um það hvernig þingið getur í raun starfað af krafti með það viðhorf sem kemur frá stjórnarflokkunum í hverju málinu á fætur öðru. Það er þessi óþægilega tilfinning þess þingmanns sem hér stendur að stjórnarflokkarnir nálgist þetta allt saman, allt heila klabbið, svolítið á þessum nótum: Ég á þetta, ég má þetta, ykkur kemur þetta eiginlega ekki við. Mér finnst það sorglegt og þess vegna beini ég eindregið þeim tilmælum til nýs forseta, sem ég treysti, að taka þessi mál strax föstum tökum.