152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

um fundarstjórn.

[11:06]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Forseti. Ég á sæti í hv. fjárlaganefnd og hlakka mikið til að starfa með hv. formanni þeirrar nefndar og öllum hv. þingmönnum sem eiga sæti með mér í þeirri nefnd. Við vitum öll hvað klukkan slær, það er 2. desember og fjárlög koma fram á hverju ári og það er alveg rétt að þau þarf að samþykkja fyrir áramót. Hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar kom hér upp og baðst afsökunar á því að frumvarpið hefði farið í umsagnarferli og ég tek þá afsökunarbeiðni gilda. Mig langar engu að síður að koma inn á það, því að hér er verið að ræða um virðingu Alþingis, að ég sat í hv. efnahags- og viðskiptanefnd á síðasta kjörtímabili þar sem við samþykktum það einmitt, sem er tekið fram í reglunum að má gera, að heimila formanni þeirrar nefndar að senda út umsagnarbeiðnir. Ég á starfsreynslu á öðrum vettvangi en í þinginu og ég verð að viðurkenna, þegar við erum að velta fyrir okkur svona formfestu og virðingu og annað, að mér fannst það svolítið ankannalegt að alltaf þyrfti að kalla saman fund til að senda kannski á aðila sem hvort sem er (Forseti hringir.) voru farnir að fylgjast með málinu og fjalla um það.(Forseti hringir.) Ég vil því hvetja til þess að við ræðum það í nefndunum hvort við viljum hafa verklagið með þeim hætti að alltaf þurfi að kalla saman nefndarfund til að senda út umsagnarbeiðnir. (Forseti hringir.) Ef það er vilji nefndarmanna þá verður það að sjálfsögðu þannig enda gera reglurnar ráð fyrir því.