152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

um fundarstjórn.

[11:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég má til með að taka undir með síðasta ræðumanni og ég hlýt að þurfa að útskýra fyrir hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur hvers vegna þessar reglur eru eins og þær eru. Þegar nefndir koma saman ákveða þær hversu langur umsagnarfresturinn skal vera og hverjum býðst að senda inn umsagnir. Þetta er eitthvað sem nefndin ákveður í sameiningu. Þess vegna þarf nefndin að koma saman til þess að gera þetta, vegna þess að það er ekki bara meiri hlutans að ákveða hverjir hafa eitthvað um fjárlög ríkisins að segja. Það er ekki bara meiri hlutans að hafa eitthvað um það að segja hversu langan tíma þetta sama fólk hefur, meira að segja þó að það sé þægilegt akkúrat núna af því að það er svo stutt til jóla og við viljum nú öll komast í jólahlé, er það ekki? Það er samt ekki í boði að fara á svig við reglur þingsins til að komast heim í jólasteikina.