152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

um fundarstjórn.

[11:14]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir að kenna mér hérna þingmeðferð. Við í Sjálfstæðisflokknum þurfum greinilega á því að halda frá Pírötum. Það er algerlega verið að mistúlka orð mín og nýta sér það í pólitísku upphlaupi hér. Það sem ég sagði var að ég tæki afsökunarbeiðni hv. formanns fjárlaganefndar gilda. Það eina sem ég var að tala um er að stundum, bara stundum, má mögulega leggja til breytingu á verklagi. Ég var ekkert að skrifa undir það að þessi mistök hafi verið gerð. Aftur á móti má alveg velta því fyrir sér hvort einmitt nefndarstörfin séu ekki mikilvægari en það að velta fyrir sér hvort ASÍ og SA eigi ekki örugglega að fá fjárlagafrumvarpið til umsagnar. Við eigum auðvitað alltaf sem þingmenn og nefndarmenn að koma með tillögur að því frá hverjum við viljum fá umsagnir. Og við skulum líka athuga að það stendur bara á vefnum að það geta allir skrifað umsagnir með fjárlagafrumvarpinu og ég vona að flestir geri það. (Forseti hringir.) Þetta er ekki í lögum, hv. þingmaður. (Gripið fram í: Jú.) [Háreysti í þingsal.] En hv. formaður (Forseti hringir.) fjárlaganefndar er búin að biðjast afsökunar á þessu. (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Ég bið hv. þingmenn um að vera ekki í tveggja manna tali hérna og bið þingmenn líka að virða ræðutíma.)