152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Áhugaverðar umræður hérna því að í stjórnarsáttmálanum er sérstaklega tekið fram að efla eigi almannaþjónustu og lækka skatta. Ég fæ þetta ekki alveg til að ganga upp og ég fæ ekki alveg séð í fjárlagafrumvarpinu hvaða almannaþjónustu er verið að efla og hvaða skatta á að lækka. Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra myndi útskýra það aðeins. Einnig var mjög skýrt tekið fram undir lok síðasta þings, síðasta kjörtímabils, að fjárlög ættu í rauninni svona kerfislega séð að vera tilbúin fyrir kosningar til að ráðuneytin og stofnanirnar gætu hjálpað hvaða flokkum sem yrðu í ríkisstjórn að mynda og setja sitt mark á fjárlögin samhliða stjórnarmyndunarviðræðunum. Þá langar mig til þess að spyrja, miðað við það að fjárlög voru tilbúin fyrir kosningar: Hvar eru merki ríkisstjórnarinnar í þessu fjárlagafrumvarpi miðað við hvernig það var tilbúið fyrir kosningar?

Svo er það svona klassíska athugasemdin mín um ákveðið gagnsæi, ég fletti bara upp og fór í málaflokkinn um skatta og innheimtu og þar er talað um að verið sé að lækka um 400 milljónir en þegar maður summar upp helstu kostnaðarliðina eru það 100 milljónir aukalega í kostnaðinn, ekki lækkun um 400 milljónir. Ég skil ekki alveg skortinn á gagnsæi í þessu þegar maður fær ekki einföldustu tölurnar til að ganga upp. Það á að lækka um 400 milljónir en tölurnar sýna að það sé hækkun um 100 eða svo. Þetta var gegnumgangandi allt síðasta kjörtímabil. Það er gríðarlegur skortur á því að það sé einfaldlega hægt að lesa fjárlagafrumvarpið (Forseti hringir.) og skilja hvernig fjárheimildir ríkisins eru þegar allt kemur til alls. (Forseti hringir.) Við erum fjárveitingavaldið. Við eigum að fá að vita hvað er verið að nota fjármuni almennings í.