152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Samkvæmt lögum um opinber fjármál á ríkisstjórnin að sýna fram á ábatagreiningu á sinni stefnu og í ábatagreiningunni kemur einmitt fram hvernig fjárframlög sem ekki eru aukin skapa svigrúm í ríkisfjármálunum, hvernig það sparar til framtíðar. Það er einmitt ekki gert. Tökum annað dæmi úr sköttum og innheimtu þar sem verið er að tala um að skattrannsóknir og skatteftirlit sé eflt með áherslu á áhættustjórnun og að uppræta peningaþvætti. Þetta kostar 100 milljónir, einn af fáum stöðum þar sem er sagt hversu mikið verkefnið kostar. En hvaða vanda er þetta að laga? Hver er staða þessa vanda núna og hvernig verður staðan með því að efla þetta um þessar 100 milljónir? Hvaða ábata erum við að fara að sjá af því að uppræta peningaþvætti? Er það svo umfangsmikið að 100 milljónir aukalega uppræti það og hver er þá ábatinn af því? Þetta eru spurningarnar sem við eigum að geta fengið svör við í fjármálaáætlun og fjárlögum en eru ekki þar einhverra hluta vegna.