152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Undanfarnar ríkisstjórnir hafa notað vísitölu neysluverðs sem hækju til þess að lemja fjárhagslega á þeim verst settu í okkar samfélagi, í almannatryggingakerfinu. En núna, af einhverjum ótrúlegum rausnarskap, koma þeir og segja: Við ætlum að setja 1% — 1% — umfram vísitölu neysluverðs fyrir þá verst settu. Það þýðir fyrir þá sem eru í búsetuskilyrðum 2.500 kr. fyrir skatt. En hæstv. fjármálaráðherra segir að þetta kosti 800 milljónir. Eru þá skattarnir inni í því, er búið að draga þá frá? Eru keðjuverkandi skerðingarnar inni í því, innan almannatryggingakerfisins, eða skerðingarnar sem fara yfir í félagsbótakerfið og skerða þar sérstakar húsaleigubætur? Þegar allt tekið til þá verða þetta aldrei 800 milljónir. Það má þakka fyrir að það kosti krónu.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hefur hann reiknað þetta út? Getur hann reiknað þetta út eða er enginn vilji til þess? Það er það sem ég held, því miður. En það stendur skýrt í 69. gr. almannatryggingalaga að miða skuli við launaþróun. Hvenær er það gert? Aldrei. Ekki undanfarna áratugi. Þess vegna er orðin 40% kjaragliðnun sem vantar upp á hjá almannatryggingaþegum og það á að halda áfram. En ég spyr hæstv. fjármálaráðherra sérstaklega: Hefur hann reiknað út varðandi þennan 800 millj. kr. kostnað hversu mikið skilar sér til baka í sköttum og skerðingum?