152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svörin. En lækka bæturnar? Nei, breyta kerfinu eða gera það eina rétta, að setja þetta í gegnum skattkerfið, lækka skattana, hætta að skatta fátækt. Það skilar sér beint í vasa þessara einstaklinga, beinustu leið. Að reyna að halda því fram — þessir einstaklingar fengu um síðustu áramót 3,6% hækkun, en þá fengum við 7% hækkun samkvæmt launavísitölu. Þeir fengu helminginn. Núna eru þeir búnir að missa þetta allt, þessi 3,6% duga ekki fyrir verðbólgunni allt þetta ár, þeir fá þetta eftir á. Þetta 1% dugar ekki einu sinni til þess að verja þessa einstaklinga. Þannig að ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Núna er 5,6% hækkun, sem er svona 10.000 á þá lægst settu og upp í 15.000 fyrir skatta. Af hverju var þetta ekki einfaldlega boðið sem skattalækkun?