152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið liggur bara í því að það eru einhver ytri mörk á því hvað við getum greitt út háar bætur. Í dag eru þetta með hæstu útgjaldaliðum ríkissjóðs. Við verjum gríðarlegum fjárhæðum til að standa með þeim sem ekki hafa nógu mikið milli handanna, annaðhvort á lífeyrisaldri eða vegna örorku á vinnumarkaðsaldri. Ef við horfum til þeirra sem eru komnir með varanlegt örorkumat eða eru í tímabundinni örorku og skoðum aldursbilið frá 25 ára til 67 ára þá erum við komin með u.þ.b. 10% allra á örorkubætur. Ef við hækkum nú bæturnar mjög hressilega þá endar það á því að hinir sem eru í fullu starfi úti á vinnumarkaði munu þurfa að greiða slíka skatta að það verður of lítið eftir og það verður engin sátt um það. Við erum með eitt öflugasta félagslega tryggingarnet sem fyrirfinnst á Íslandi. Við erum í stjórnarsáttmálanum að boða, ekki bara breytingar þessi áramót (Forseti hringir.) heldur uppstokkun á kerfinu. Það er kannski þar sem ég er helst sammála hv. þingmanni um að við getum (Forseti hringir.) gert kerfið sanngjarnara og við skulum nota næsta ár til þess.