152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði nú ekki brugðist mikið við spurningunni sem varðaði loftslagsmál. Það var framkvæmt svona gróft mat á því hvernig uppfærð markmið okkar um að draga úr losun myndu kalla á aukinn stuðning, beinan og óbeinan, af ríkisins hálfu og við höfðum gróft séð áætlað um milljarð á ári til þess að fylgja þeim áformum eftir og það er full ástæða til að fylgja því síðan bara áfram eftir, gera það upp ár fyrir ár og skoða hvernig fjármunirnir nýtast og hvaða árangur er að nást.

Varðandi opinberu fjárfestinguna þá verður bara að segjast eins og er að það hefur ekki gengið nógu vel að nýta þær fjárheimildir sem Alþingi hefur tryggt. Það á við um Landspítalann, það á við um hjúkrunarheimili. Við vorum með um síðustu áramót of háa fjárhæð færða á milli ára að mínu mati í vannýttar fjárfestingarheimildir til að byggja ný hjúkrunarrými og ég hygg að það hafi svo sem áfram fylgt okkur á þessu ári. Þetta eru orðnar töluvert háar fjárhæðir. Það hefur ekki staðið á fjárheimildunum, hefur ekki staðið á þinginu að tryggja heimildirnar og við verðum aðeins að spyrja okkur (Forseti hringir.) hvaða lærdóm við getum dregið af þessu.

Varðandi PPP-framkvæmdirnar þá verður það að bíða seinni tíma.