152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:32]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er gífurlega ánægjulegt að sjá að við stöndum eftir allt saman á sterkum grunni. Ríkissjóður hefur þurft að taka minna að láni en óttast var til að standast þessar náttúruhamfarir, afkoman er mun betri og skuldastaðan minni fyrir vikið. Skuldir ríkissjóðs verða 40% af landsframleiðslu á þessu kjörtímabili ef áætlun hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar heldur. Til samanburðar má benda á að skuldir hins opinbera, bæði sveitarfélaga og ríkissjóðs, í Þýskalandi, í landi sem er ekki þekkt fyrir opinbera óráðsíu, voru 40% árið 2019 áður en kórónuveirukreppan skall á. Þetta samhengi skiptir máli því nú eru engar afsakanir til að sækja ekki fram. Ekki er ástæða til að ala á ótta fólks við að við séum enn í spennitreyju. Það eru gríðarleg tækifæri til sóknar. En þetta fjárlagafrumvarp ber þess ekki merki.

Raunar er það svo að ekkert virðist hafa breyst í áætlunum ríkissjóðs fyrir næsta ár frá því að fjármálaáætlun kom út í vor, þrátt fyrir að efnahagsstaðan sé umtalsvert betri en var spáð. Skuldir ríkissjóðs á næsta ári voru þá áætlaðar 42% af landsframleiðslu en nú 35%. Þegar þessi fjárlög eru lesin mætti í raun halda að engin breyting hafi átt sér stað frá því á fyrsta fjórðungi þessa árs, frá því að fjármálaáætlun kom út hjá síðustu ríkisstjórn, fjármálaáætlun sem var ítrekað talað um í kosningabaráttunni að væri ekki mark á takandi, væri í raun bara embættismannaáætlun, uppfærsla á tölum, því þau kynnu ekki við að leggja fram nýja áætlun í smáatriðum fyrir nýtt kjörtímabil. Síðan er stjórnarsáttmáli kynntur með pompi og prakt, flugeldasýningu um sóknarhug ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og tækni — aftur innviðunum. Svo miklar breytingar eru boðaðar af þessari 21. aldar ríkisstjórn að stokka þurfti upp alla stjórnsýsluna til að ráða við umfangið.

Ég spyr því: Hvenær tekur þessi 21. aldar ríkisstjórn raunverulega við? Eftirfarandi má lesa úr nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, plaggi sem ákvarðar fjárheimildir fyrir fjórðung af kjörtímabili 21. aldar ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

„Við undirbúning frumvarpsins hefur hins vegar verið gengið út frá því meginviðmiði að ekki verði efnt til annarra teljandi nýrra eða aukinna útgjalda en þeirra sem tengjast aðstæðum af völdum kórónuveirufaraldursins. Ekki er heldur um að ræða miklar hreyfingar á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins í tengslum við áform um breytingar á skattkerfinu, fyrir utan tímabundnar ráðstafanir vegna faraldursins sem ganga til baka …“

Þá hefur formaður fjárlaganefndar sent út erindi til umsagnaraðila þar sem gefið er í skyn um fjárlagafrumvarpið að lítið sé í raun að ræða um þar sem nær engar breytingar séu á frumvarpinu frá því sem fram kom í fjármálaáætlun og því verði umsagnaraðilar líklega ekki einu sinni kallaðir að borðinu.

Virðulegi forseti. Hvað var þá þetta um síðustu helgi? Tók átta vikur að ákveða að breyta nákvæmlega ekki neinu? Fjárlög nýrrar ríkisstjórnar eru fyrsti prófsteinninn á hvort mark sé takandi á loforðum hennar og hér er ekkert að frétta. Þetta þykir mér miður, herra forseti, því breyttar aðstæður í efnahagslífinu, sú staðreynd að hagkerfið snýr sér nú hraðar við en óttast var og staða ríkissjóðs er betri en áður var spáð, þýða að við getum skipt um gír. Já, við þurfum að vaxa út úr þessu ástandi en hvernig við gerum það skiptir máli. Er hugmyndin að treysta á sömu búhnykkina aftur? Við sem kunnum efnahagsfræðin áttum okkur vel á því hvernig svona talnaleikfimi sem í dag er sett fram fer fram. Það er mjög auðvelt að framkalla háar hagvaxtartölur eftir jafn djúpt áfall og hér var. Þetta er einfaldur prósentureikningur. Stóra spurningin og það sem stjórnmál snúast um er hvernig við styrkjum undirstöðu samfélagsins til lengri tíma. Hér þarf að taka afstöðu. Nú er ég ekki að tala um krísuviðbrögð, neyðarpakka, viðbragðsstjórnmál, heldur sókn. En mig grunar að þessi ríkisstjórn sé ekki fær um að sækja fram. Hæstv. fjármálaráðherra treystir sér ekki til að beita ríkissjóði til að styrkja samfélagið til lengri tíma enda gengur hans pólitík út á að halda ríkinu sem mest til hlés. Umfang aðgerða ríkissjóðs á síðustu tveimur árum endurspegla nauðsynleg viðbrögð, ekki stefnu eða sókn. Þetta hafa verið og verða áfram viðbragðsstjórnmál. Nú er eðli þessara stjórnarhátta hins vegar að koma í ljós því nú byrjar að reyna á sýn hæstv. ráðherra, sýn ríkisstjórnarinnar.

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram að ég hef verið ánægð með áherslur ríkisstjórnarinnar í nýsköpunarmálum, eins og þær birtust í fjárlögum þessa árs og fyrir næsta ár. Hér er gefið í og skilningur virðist vera á mikilvægi þess að fjárfesta í þeim undirstöðum. Þó liggur fyrir, samkvæmt þessum fjárlögum þar sem má sjá áætlun lengra fram í tímann, til ársins 2024, að strax á næsta ári falla framlög í málaflokkinn aftur og þá um þriðjung. Var þetta sem sagt bara Covid-úrræði, ekki langtímasóknarmark? Stefið virðist þekkt.

Herra forseti. Rætt er um stórsókn í loftslagsmálum. Það mátti sjá í nýjum sáttmála. Hér hefur þó ekkert breyst frá áætlun ríkisstjórnarinnar frá því í vor þar sem lagðir eru 13 milljarðar kr. í loftslagsmálin. Það jafngildir þeirri upphæð sem greidd er út í beina styrki til landbúnaðarins, styrki sem vinna að miklum hluta á móti því sem við erum að reyna að gera í loftslagsmálum því stór hluti þeirra er framleiðslutengdur við kjöt- og mjólkurframleiðslu. Hvatarnir eru rangir í þessu kerfi. OECD tekur fram í nýjustu skýrslu sinni um landbúnaðarmál að yfir 70% af styrkveitingum hér á landi byggi á röngum hvötum. Ríkisstjórnin tekur nú fram að loftslagsmálin verði alltumlykjandi í öllum ráðuneytum. Það er þá óskandi að tekið verði mið af því hvernig þessi tvö jafn háu framlög, til loftslagsmálaflokksins í heild sinni annars vegar og beinna styrkja til landbúnaðarins hins vegar, vinna saman.

Virðulegi forseti. Þessi upphæð, 13 milljarðar kr., er ígildi minna en hálfs prósentustigs af landsframleiðslu landsins. Það samhengi skiptir máli því við vitum að baráttan við loftslagsvána er á alþjóðlegum skala. Græna umbyltingaráætlun Evrópusambandsins gerir ráð fyrir allt að 2% af landsframleiðslu í málaflokkinn og á alþjóðavísu hefur verið rætt um enn þá hærri upphæðir. Hæstv. fjármálaráðherra hefur haldið því fram að slíkan samanburð sé ekki að marka því við séum svo langt á undan Evrópulöndunum í grænni orku. Vissulega höfum við græna orku en hæstv. fjármálaráðherra ætti líka að vita að þrátt fyrir þá grænu orku er losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi á mann sú hæsta í Evrópu. Þá er ekki meðtalin losun vegna framræsts votlendis. Við vorum einmitt stórhuga á sínum tíma þegar við sóttum fram í jarðvarmanum. Olíukrísa á áttunda áratugnum ýtti við okkur. En við getum ekki lifað endalaust á fornri frægð, á stórsókn þeirra sem á undan okkur komu. 21. aldar stjórnin sem kynnti hér sáttmála um síðustu helgi þarf að gera eitthvað sjálf, sækja sjálf fram.

Ég get vel tekið undir með hæstv. fjármálaráðherra að ríkið sé ekki eini aðilinn í þeirri sókn. Það þarf heilt þorp til, fyrirtækin, fólkið í landinu. En ríkið þarf að móta rammann sem þorpið starfar eftir. Þar þarf að efla stjórnsýsluna til að við getum tekist á við þessar stóru áskoranir. Hreyfing á ráðherratitlum og málaflokkum gerir lítið ef engar alvörubreytingar er að sjá í veitingu fjármagns til að styrkja þær stofnanir sem þurfa að vera nógu burðugar til að beina samfélaginu í rétta átt. Í því samhengi vekur furðu að lítið ef eitthvað er að finna í fjárlögum um hvernig eigi að styrkja stöðu ríkisins til að hrinda þessum stóru verkefnum í framkvæmd. Ár eftir ár höfum við séð opinbera fjárfestingu á vegum ríkissjóðs lægri en fjárheimildir leyfa, þ.e. fjármagnið er samþykkt en ekki tekst að hrinda verkefnum í framkvæmd. Pípurnar eru stíflaðar einhvers staðar og það þýðir ekki að benda sífellt á aðra. Þetta er til marks um veikleika í kerfinu og það er alvarlegur veikleiki. Einmitt á tímum sem þessum þar sem viðkvæmni er við verðbólgu, og ég er svo sannarlega meðvituð um þá verðbólgu, á sama tíma og þörf er á stöðugri innviðauppbyggingu, einmitt til að ríkinu takist að breikka framboðshliðina, breikka pípuna sem fjármagn er veitt í gegnum svo að það séu ekki of miklir peningar að elta of fá verkefni og vöru og skapa verðbólgu. Þess vegna þurfum við að koma þessum fjárfestingum áfram

Það reynist nefnilega erfitt að hlaupa af stað ef ríkið er ekki með réttu tólin og tækin, réttu ferlana til að valda slíkri sókn. En til þess þarf ríkisstjórn sem trúir á mikilvægi öflugra stofnana, öflugrar stjórnsýslu, ekki ríkisstjórn sem hefur að höfuðmarkmiði að minnka umfang ríkisins, þrátt fyrir þá augljósu staðreynd að eftir því sem velsæld fólks eykst gerir það meiri kröfur um þjónustu og stuðning. Þegar talið berst að auknum umsvifum hins opinbera er nefnilega sjaldan bent á þá staðreynd að við gerum miklu meiri kröfur til samfélagsins okkar í dag en við gerðum fyrir hálfri öld síðan. Við lifum lengur, við menntum okkur meira, við berum meiri virðingu fyrir þörfum hvers og eins einstaklings. Nútímahagkerfi, nútímasamfélag er með öflugt og virkt ríki sem styður við öflugt einkaframtak. Þetta er samvinnuverkefni. Til að mynda má einna helst rekja aukninguna í umsvifum ríkisins á sjöunda áratugnum til aukinna umsvifa í skólamálum og velferðarkerfinu. Það eru umsvif sem við komum okkur saman um sem samfélag því að við sáum verðmæti í því, ekki bara vegna þess að við viljum að allir hafi aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu heldur hafa þessi kerfi líka gert stórum hópum fólks kleift að fara út á vinnumarkaðinn í krafti aðgangs að umönnunarþjónustu utan heimilis. Já, þetta hefur skapað opinber störf en það hefur líka stóraukið þann starfskraft sem einkageiranum býðst. Þar liggja gífurleg verðmæti. Rætt er um báknið og íþyngjandi viðveru hins opinbera hvað varðar hagvaxtargetu en þessu má allt eins snúa á haus. Hverjar væru þjóðartekjurnar hér á landi, gjaldeyrissköpunin, ef við hefðum ekki komið öllum þessum einstaklingum út á vinnumarkaðinn með meiri þekkingu en nokkru sinni fyrr? Það felast nefnilega gríðarleg tækifæri í því að innleiða og styrkja úrræði sem koma í veg fyrir að við töpum kröftum fólks, sem verða til þess að við hleypum fleiri að tækifærunum. Þar hefur ríkið hlutverki að gegna.

Ég vek athygli á þessu, herra forseti, því miðað við þá fjármálaáætlun sem nú er í gildi, og er greinilega undirstaða þessarar ríkisstjórnar, stefnir í að hlutur ríkissjóðs í hagkerfinu eftir að þessi ríkisstjórn hefur lokið sínu verki árið 2026 verði svipaður og árið sem ég fæddist, 1988. Tekjur verða um 28% af landsframleiðslu, gjöld 29%. Þetta eru tölur sem hafa ekki sést í 30 ár. Á þetta við á tímum stórsóknar í nútímavæddu samfélagi? Þessi þróun er í algjörri andstæðu við það sem við sjáum í velsældarsamfélögunum í kringum okkur. Auðvitað er það ekki markmið í sjálfu sér að auka umsvif ríkisins en við hljótum að sjá að stærstu samfélagslegu verkefni okkar tíma krefjast þess að við höfum getu í stjórnkerfinu, öflug grunnkerfi til að ýta úr vör stórum samfélagslegum verkefnum.

Vissulega hefur hluti af þessu umfangi ríkisins flust yfir á sveitarfélögin. Það er jú önnur saga en breytir ekki stóru myndinni. Umfang hins opinbera 2026 verður þá svipað og fyrir 20 árum síðan. Af þessu er ljóst að markmið þessarar ríkisstjórnar er að hluta að firra sig ábyrgð á stóru verkefnum okkar tíma. Hluta þeirrar ábyrgðar er, eins og ég áður sagði, varpað yfir á sveitarfélögin sem samkvæmt nýuppfærðri fjármálastefnu munu, ólíkt ríkissjóði, standa fjárhagslega verr á næstu fjórum árum en búist var við í vor. Skuldastaðan er verri, afkoma er verri og hæstv. fjármálaráðherra mun án efa skella þeirri skuld beint á sveitarfélögin, að þau kunni ekki að reka einingar sínar jafn vel og hæstv. ráðherra rekur ríkið. En það sem hæstv. fjármálaráðherra og ég bæði vitum er að stór ástæða fyrir þungri rekstrarstöðu sveitarfélaganna eru verkefni sem hafa verið flutt frá ríkissjóði og yfir til þeirra án þess að nægt fjármagn hafi fylgt. Þannig er ábyrgð og fjármögnun útvistað til litla bróður, þannig átti sér stað eins konar niðurskurður í velferðarmálum bakdyramegin í gegnum sveitarfélögin. Svo er hneykslast á stöðu sveitarfélaga.

Og nú stefnir í að enn einum málaflokknum sé útvistað til sveitarfélaganna. Í umræðu um íbúðamarkaðinn í stjórnarsáttmála er einna helst lögð áhersla á lóðamál. Má sjá fyrir hvernig ábyrgð á húsnæðismálunum verður sett á herðar sveitarfélaganna nema innviðaráðherra ætli líka að taka yfir öll skipulagsmál sveitarfélaganna. Það endurspeglast svo í þessum fjárlögum þar sem, þrátt fyrir gífurlega hækkun íbúðaverðs á síðustu árum og augljósa markaðsbresti á þeim markaði, eru engar viðbætur í úrræði á íbúðamarkaðnum. Hér hefur skapast vítahringur íbúðaverðshækkana, launa og verðbólgu sem mun bara halda áfram. Hæstv. fjármálaráðherra hefur áhyggjur af verðbólgu. Það hef ég líka en ég átta mig á því hvaðan sú verðbólga kemur og það ætti hæstv. ráðherra að gera líka. Íbúðaverðshækkanirnar eru stærsti drifkraftur verðbólgu. Ef hæstv. ráðherra væri alvara þegar hann segist hafa áhyggjur af launaþróun og verðbólgu hefði alvöruúrræði í húsnæðismálum í þessum fjárlögum verið alvörubreytingar á barnabótakerfinu til að létta undir með fjölskyldum í landinu, tilfærslur sem geta dregið verulega úr launaskriði. En nei, engin breyting er þar á, aðeins tilfærsla innan málaflokksins. Tekið er frá einum og sett í vasa annars. Þessar húsnæðisverðshækkanir koma illa við almenning, fyrirtæki og líka hið opinbera sjálft, enda eru launa- og verðlagshækkanir, sem að miklu leyti má rekja til fasteignaverðshækkana, ein stærsta útgjaldabreytan hjá ríkissjóði á milli ára. Og illa lendir þessi hagstjórn á sveitarfélögum sem reka mannaflsþunga þjónustu, eina mikilvægustu þjónustuna að mínu mati, þar sem launakostnaður er helmingur útgjalda. Afstöðuleysi þessarar ríkisstjórnar á íbúðamarkaði hefur þannig ýtt undir vítahring verðhækkana sem verður að rjúfa. Þetta er óábyrg hagstjórn.

Virðulegi forseti. Ég á erfitt með að greina þann sóknarhug í þessum fjárlögum sem mátti heyra við kynningu stjórnarsáttmála og ég á erfitt með að greina alvöruúrræði til að mæta stöðunni á vinnumarkaði. Nú er Covid að líða undir lok. Áfram verðum við í einhvers konar viðbragði en nú reynir í auknum mæli á getu stjórnarflokkanna til að taka ákvörðun um að sækja fram. Smáskrefastjórnin þarf nú að greikka sporið og ekki bara til að verjast. Spurningin er hvort hæstv. ráðherra átti sig á því hvað þarf til að leiða samfélagið inn í 21. öldina. Það gerist ekki af sjálfu sér, svo ég vitni, með leyfi forseta, í fyrrum forseta Bandaríkjanna, Harry S. Truman, í lauslegri þýðingu: Einstaklingar móta söguna, sagan ekki þá. Á tímum þar sem enginn leiðir situr samfélagið fast. Framfarir eiga sér stað þegar hugrakkir, hæfir leiðtogar grípa tækifærið til að breyta í betri átt.

Tækifærið er núna en það er vannýtt miðað við áætlun hæstv. fjármálaráðherra.