152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:57]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þetta. Ég held að við þurfum einmitt að hafa það í huga hversu áhrifamikill þessi liður er gagnvart rekstri ríkissjóðs og fleiri hér á landi. Ég held einmitt að það þurfi að taka það til opinberrar umræðu í meira mæli hversu mikil áhrif ríkissjóður hafði með aðgerðum sínum og óbeinu aðgerðaleysi á fasteignaverðshækkanir í fyrra. Við heyrum ítrekað að þessari ábyrgð er varpað yfir á það sem kallast markaðirnir — eins og markaðir séu ekki það sem er mótað hérna inni með löggjöf, með ákvörðunum, með reglum hjá Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka. Löggjafinn er hér. Það er ekki hægt að firra sig ábyrgð. Markaðirnir koma ekki af himnum ofan. Ef kerfið gengur ekki upp eins og það er sett upp í dag þá ber ríkisstjórninni að taka það til athugunar. Það er ekki hægt að vísa bara á einhvern þarna úti.