152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:58]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fína framsögu, fyrir fína ræðu um stöðu ríkissjóðs og fjárlögin. Það sem hún benti m.a. á, sem er rétt, er að staða ríkissjóðs er betri en áætlað var fyrir ári síðan. En varðandi fjárlagafrumvarpið, hún sagði réttilega að með fjárlagafrumvarpinu væri ekkert að frétta, ekki neitt, og ríkissjóður væri ekki fær um að sækja fram á þessum mikilvægu tímum. Sjálfur les ég stöðnun úr fjárlagafrumvarpinu. Ekkert er gert til að keyra verðmætasköpun. Ég sé enga hvata til aukinnar verðmætasköpunar í frumvarpinu. Ekkert er gert fyrir öryrkja þrátt fyrir að samkvæmt stjórnarsáttmálanum eigi að bæta afkomu örorkulífeyrisþega.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Sér hv. þingmaður eitthvert samspil milli stjórnarsáttmálans og fjárlagafrumvarpsins? Nú er ég búinn að lesa fjárlagafrumvarpið (Forseti hringir.) og skoða fjárlögin. Ég sé ekkert samspil þar á milli. (Forseti hringir.) Í stjórnarsáttmálanum er m.a. kveðið á um að bæta eigi kjör öryrkja. Það kemur ekkert fram í fjárlagafrumvarpinu um að það eigi að bæta stöðu öryrkja, ekki neitt.